Þýðrún fæddist á Stóru-Völlum í Landsveit í Rangárvallasýslu 19. janúar 1931. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. júlí 2021.

Foreldrar hennar voru Sigríður Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 9.8. 1900, d. 26.2. 1988, og Páll Jónsson, bóndi og listamaður á Stóru-Völlum í Landsveit, f. 10.1. 1890, d. 29.10. 1943.

Systkini Þýðrúnar voru Jens Ríkharður, f. 18.1. 1924, d. 11.12. 2015; Jón, f. 20.1. 1925, d. 12.8. 1958; Sigríður, f. 21.1. 1926, d. 16.6. 2009; Þór, f. 7.2. 1927, d. 22.9. 2008; Óðinn, f. 7.2. 1927, d. 14.12. 2016; Vallaður, f. 16.3. 1928, d. 11.9. 2003; Gunnur, f. 4.1. 1930; Atli, f. 18.8. 1933, d. 11.7. 2021; Ragnheiður, f. 18.8. 1933, d. 8.2. 2014; Ása, f. 19.1. 1935, og Guðrún, f. 9.6. 1938.

Eiginmaður Þýðrúnar er Sigurður Vilhjálmur Gunnarsson, f. 7.12. 1929, vélfræðingur og fyrrverandi atvinnurekandi og framkvæmdastjóri. Foreldrar hans voru Gunnar Bjarnason vélstjóri, f. 15.1. 1905, d. 28.9. 1966, og k.h. Hermannía Sigurðardóttir húsmóðir, f. 4.9. 1896, d. 23.7. 1989.
Þýðrún og Sigurður gengu í hjónaband 24.12. 1954 og var heimili þeirra lengstum að Sæviðarsundi 9 í Reykjavík. Synir þeirra eru: 1) Sigurvin Rúnar, f. 3.12. 1952, véltæknifræðingur og forstöðumaður hjá Samskipum, kvæntur Ólafíu Guðrúnu Kristmundsdóttur og eiga þau tvö börn, Láru Rún, f. 15.6. 1977, og Hauk Sörla, f. 14.8. 1980; 2) Gunnar Hermann, f. 10.5. 1956,
véltæknifræðingur og framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ehf., kvæntur Arnbjörgu Önnu Guðmundsdóttur og eiga þau tvö börn, Grétu, f. 20.2. 1980, og Sigurð Gunnar, f. 27.5. 1982; sonur Arnbjargar er Bjarni, f. 12.1. 1968; 3) Pétur Sigurður, f. 5.5. 1962, d. 11.3. 1984, vélfræðingur; 4) Sveinn, f. 15.1. 1969, vélvirki, eigandi og framkvæmdastjóri Micro ryðfrírrar smíði ehf., kvæntur Sigurborgu Hrönn Sigurbjörnsdóttur og eignuðust þau fjögur börn, Melkorku Rún, f. 2.5. 1992, Davíð, f. 23.1. 1995, d. 23.1. 1995, Rakel Hrönn, f. 17.8. 1996, og Andra Pétur, f. 11.8. 2003. Að auki á Þýðrún
tíu langömmubörn.

Þýðrún var ávallt kölluð Rúna. Eftir glaðvær ár á æskuheimilinu og ýmis bústörf sem sinna þurfti, bæði á heimilinu og á nágrannabæjum, flutti Rúna um tvítugt til Reykjavíkur og vann þar við hótel- og verksmiðjustörf fyrstu árin. Kunnust er hún þó fyrir störf sín sem gæslu- og forstöðumaður gæsluvalla hjá Reykjavíkurborg um þrjátíu ára skeið. Völlurinn sem hún starfaði á var ætíð nefndur Rúnu-róló, bæði af börnunum sjálfum, sem nutu umönnunar Rúnu, og foreldrum þeirra. Við starfslok færðu Leikskólar Reykjavíkur Þýðrúnu viðurkenningu fyrir farsæl störf í þágu reykvískra barna.

Útförin fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 28. júlí 2021, klukkan 13.

Lítil stúlka hefur stofnað býli í túngarðinum við torfbæinn Stóru-Velli í Landsveit þar sem hún fæddist og ólst upp í stórum systkinahópi. Leikföngin hennar eru bein, sem hún hefur safnað og mynda gripina sem tryggja búinu lífsviðurværi. Seinna meir eignast stúlkan sitt fyrsta leikfang sem ekki var fengið að láni úr dýraríkinu. Það var dúkkuhaus sem henni þótti ákaflega vænt um. Búskapurinn hjá stúlkunni hefur gengið vel, og þegar húmaði að kveldi hefur hún eflaust séð fjölina sína, sem var rúmið hennar, í hillingum. Í litlum torfbæ þar sem margir bjuggu var ekki til rúm fyrir alla. Mamma talaði alltaf fallega um æskuár sín með þakklæti og hlýju þar sem allir hjálpuðust að til að tryggja að allir kæmust skammlaust til manns.

Það var mikil gæfa fyrir okkur bræður að þessi unga duglega og hjartahlýja stúlka, með sitt stóra hjarta, varð síðar meir móðir okkar. Hún, með aðstoð pabba, stýrði heimili okkar bræðra af myndarbrag, var alltaf til taks ef eitthvað bjátaði á eða við þyrftum leiðsögn á leið okkar fyrstu árin. Mamma hefur alla tíð verið kjölfestan í okkar fjölskyldu, hefur tryggt samstöðu og umgjörð sem sameinar okkur með það að leiðarljósi, að allir fái að njóta sín og að öllum líði vel.

Mamma var sú eina á Íslandi sem bar nafnið Þýðrún, en hún var ávallt kölluð Rúna. Mamma starfaði yfir 30 ár sem gæslu- og forstöðumaður gæsluvalla hjá Reykjavíkurborg. Völlurinn sem hún starfaði við var ætíð nefndur Rúnu-róló, bæði af börnunum sem hún passaði og foreldrum þeirra. Rúna bar alla tíð mikla umhyggju fyrir börnum, bæði sínum eigin og afkomendum þeirra. Hún passaði börn annarra á Rúnuróló í Barðavogi eins og hún ætti þau sjálf. Börnin voru örugg og nutu ástúðar hjá henni. Algengt var hin síðari ár að ókunnugt fólk sneri sér að mömmu á förnum vegi og segði: Nei, er þetta ekki Rúna, þú passaðir mig þegar ég var lítil og síðar börnin mín líka.

Mamma og pabbi voru mikil náttúrubörn og nutu þess á sínum yngri árum að fara í tjaldútilegur. Margar skemmtilegar minningar eru frá þessum árum, ekki síst þeim fyrstu þegar búnaðurinn var botnlaust léreftstjald sem pabbi hafði fengið í fermingargjöf. Gjarnan var tjaldað á bökkum Minni-Vallalækjar í nágrenni Stóru-Valla, æskuheimilis mömmu. Þar hittust gjarnan systkini hennar og makar þeirra með sín börn. Rifjaðir voru upp atburðir bernskunnar, sagðar skemmtisögur og stiginn dans á fögrum kvöldum. Við bræðurnir nutum þess að leika okkur úti í náttúrunni og var lækurinn freistandi áskorun fyrir okkur. Seinna meir eignuðust foreldrar mínir vandað tjald með útskoti og himni og þótti það mikil framför.

Árið 1981 ákváðu foreldrar mínir að byggja sumarbústað í landi Minni-Valla við Minnivallalæk og nefndu hann Sólvelli. Seinna meir var bústaðurinn stækkaður og þannig útbúinn, að margir gætu verið á sumarbústaðasvæðinu í einu. Bygging bústaðarins og öll umgjörð hans hefur í 40 ár reynst sælureitur fjölskyldunnar. Áhugi mömmu og pabba á skógrækt og smekkvísi og virðing gagnvart náttúrunni hafa gert sumarbústaðinn og landið í kring að ævintýraheimi.

Foreldrar mínir nutu þess að hafa synina, tengdadæturnar og ömmu- og afabörnin hjá sér í bústaðnum. Oft var gestkvæmt á Sólvöllum, enda var mamma vinsæl heim að sækja. Hún tók ávallt vel á móti gestum, ungum sem öldnum, með sinni glaðværð, fallegu framkomu og gestrisni. Seinna meir hafa synirnir og tengdadætur komið sér fyrir á lóð Sólvalla og er þar nú búsældarlegt yfir að líta.

Seinasta ferð mömmu í sumarbústaðinn var rúmri viku fyrir andlát hennar. Þá mætti öll fjölskyldan að Sólvöllum og hélt upp á 40 ára afmæli bústaðarins. Glatt var á hjalla og foreldrar mínir nutu þess enn einu sinni að vera umvafin fjölskyldunni. Farið var í leiki, borðaður góður matur og stiginn dans í samkomutjaldinu. Þetta reyndust seinustu dansspor mömmu í þessu jarðlífi.

Elsku mamma, með söknuði og sorg í hjarta kveð ég þig með þakklæti fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Minninguna um góða móður mun ég varðveita ævilangt. Hvíl í guðs friði.

Gunnar H. Sigurðsson.