Um Víking Heiðar, Clöru Wieck-Schumann og Atla Heimi

Víkingur Heiðar Ólafsson telst nú meðal fremstu píanóleikara heims. Það staðfestir þátttaka hans á tónleikum BBC Proms fyrir viku og undirtektir áheyrenda og gagnrýnenda.

Það segir ákveðna sögu um tónlistarkennsluna hér og það umhverfi sem tónlistarfólk starfar í að einstaklingur frá svo fámennu samfélagi skuli komast í hóp þeirra Rubinsteins, Horowitch og Argerich, svo nokkur nöfn séu nefnd.

Og þess vegna er þetta rétti tíminn til þess að gera knýjandi verkefni í menningarlífi okkar að umtalsefni, ekki sízt vegna þess að kosningar eru fram undan.

Fyrir nokkrum árum tóku æskuvinir Atla Heimis Sveinssonar tónskálds og vinir hans úr tónlistarheiminum höndum saman um að láta skrá öll tónverk hans, hvort þau hefðu verið flutt og þá hvar og af hverjum.

Í því sambandi fannst mér fróðlegt að sjá í ævisögu Clöru Wieck-Schumann, eiginkonu Roberts Schumanns, sem Sif, kona Atla, gaf mér á þeim árum, að Clara var að láta vinna það sama með verk eiginmanns síns undir lok 19. aldar.

Robert Schumann átti við geðrænan vanda að stríða en dr. Kay Redfield Jamison hefur sýnt fram á það í einni bóka sinna að mörg af mestu verkum hans urðu til í maníu. Og það er í raun stórfurðulegt að slík fegurð skuli geta orðið til í því sem við teljum sjúkan hugarheim.

Clara fékk ekki að heimsækja mann sinn á geðveikrahælið en vinur þeirra, Brahms, flutti henni fréttir af honum. Hún fékk að heimsækja hann tveimur dögum áður en hann dó, en álitamál hvort hann þekkti hana.

Clara var þekktur píanóleikari í Evrópu á 19. öld en þar að auki tónskáld. Verk hennar vekja vaxandi athygli. Þeir sem þekkja til geðsýki gera sér grein fyrir hvernig líf hennar hefur verið á tímum, þegar engin lyf voru til eða neitt annað sem gat hjálpað.

Það væri við hæfi að t.d. Geðhjálp minntist þessarar konu með árlegum tónleikum, þar sem verk hennar væru flutt.

Þessar upplýsingar í ævisögu Clöru gerðu okkur ljóst að það væru ekki verk Atla Heimis eins sem þyrfti að skrá heldur allra íslenzkra tónskálda fyrr og síðar, þar á meðal þeirra Sigvalda Kaldalóns og Jóns Leifs, sem báðir voru í miklu uppáhaldi hjá Atla.

Þetta menningarlega framtak þarf að taka fyrir á nýju þingi og í fjárlaganefnd fyrir áramót þannig að verkið hefjist á næsta ári og við hæfi að Alþingi heiðri árangur Víkings Heiðars með ýmsum hætti og þar á meðal þessum.

Það er merkilegt hvernig tónlistarlíf hefur sprottið upp úr samfélagi sjómanna og bænda. Eitt það fyrsta sem ég tók eftir, þegar ég kom í sveit að Hæl í Flókadal í Borgarfirði 12 ára gamall, var að þar var orgel. Og síðar fann ég í fjölskylduskjölum kvittun, sem sýndi að afi minn, Árni Eiríksson, kaupmaður og leikari og einn af stofnendum Leikfélags Reykjavíkur, hafði tekið píanó á leigu og síðar keypt það, fyrir dóttur sína af fyrra hjónabandi, Dagnýju, sem síðar flutti til Vesturheims og vann þar fyrir sér sem píanókennari.

Gamli bóndinn í minni sveit, Guðmundur Bjarnason, varð svo einn helzti leikari í sveitinni og ein dætra hans, Margrét, varð síðar leikkona við Þjóðleikhúsið.

Svona sprettur menningin upp úr lífi alþýðu manna í þessu landi.

Skrásetning verka allra íslenzkra tónskálda fyrr og síðar leiðir svo hugann að því að sambærilega vinnu þarf að inna af hendi varðandi leiklist, að svo miklu leyti sem það hefur ekki þegar verið gert. Í þeim efnum hefur Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, unnið mikið afrek.

Þótt leiklistin hafi sprottið upp úr grasrótinni hér sótti hún mikið til Kaupmannahafnar. Fyrrnefnd fjölskylduskjöl sýna m.a. tíðar ferðir forráðamanna Leikfélags Reykjavíkur til Kaupmannahafnar, til þess að kynna sér verkefnaval Det Kongelige Teater.

Bréfaskipti Árna Eiríkssonar og frú Stefaníu Borg á fyrstu árum 20. aldar snúast mikið um þessar Hafnarferðir. Sömu daga og þessi grein var í vinnslu birtist í Morgunblaðinu frétt um að Sunna Borg væri þátttakandi í leiksýningu á næstunni. Þar er væntanlega á ferð þriðji eða fjórði ættliður Borgarættarinnar sem stendur á leiksviði. Geri aðrir betur.

Hvort sem um er að ræða tónlist eða leiklist er á bak við þetta mikil saga og sennilega er Anna Borg einna fyrsti Íslendingurinn sem nær árangri í listum á erlendri grund.

Þessi grein er hugsuð sem hvatning til nýrra þingmanna um að sýna þessari merkilegu sögu ræktarsemi. Við eigum að halda þessari sögu til haga, hvort sem um er að ræða tónlist, leiklist eða aðrar listgreinar. Þetta er hluti af okkar sögu.

Við Atli Heimir kynntumst í átta ára bekk í Melaskólanum og byrjuðum svo saman hjá dr. Edelstein í tónlistarnámi á sama aldri. Það var ævintýralegt að fylgjast með ferli hans. Sum tónverka hans munu lifa svo lengi sem íslenzk þjóð lifir í þessu landi. Og það á við um fleiri tónskáld okkar.

Verðandi þingmenn og þá sérstaklega fjárlaganefndarmenn mega búast við því að sótt verði að þeim úr öllum áttum. Svo vill til að klíka okkar Atla átti og á fulltrúa í öllum flokkum.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is