Breskt lyfjafyrirtæki þróar lyf eftir tilgátu íslensks geðlæknis Fjárhagslegur hagnaður gæti orðið mikill BRESKA lyfjafyrirtækið Shire Parmaceuticals hefur gert rammasamning við dr. Erni Kr.

Breskt lyfjafyrirtæki þróar lyf eftir tilgátu íslensks geðlæknis Fjárhagslegur hagnaður gæti orðið mikill

BRESKA lyfjafyrirtækið Shire Parmaceuticals hefur gert rammasamning við dr. Erni Kr. Snorrason taugageðlækni um leyfi til að styðjast við kenningar hans um síþreytufár eða Akureyrarveiki, við framleiðslu á lyfinu "galanthamine". Fyrirtækið tryggði sér nýlega einkarétt um allan heim á að framleiða lyfið til að vinna á síþreytufári.

Stefnt er að því að setja lyfið á markað árið 2000 og segir Ernir að þá gæti ávinningur hans orðið talsverður, því rammasamningurinn feli í sér prósentur af sölu. Eftir sé að ganga frá samningnum, en Shire hafi þegar greitt kostnað við að skrá einkaleyfið um allan heim og hafi borgað rannsóknir hans seinustu ár.

Auk þess hafi honum borist starfstilboð frá virtum stofnunum víða um heim í kjölfarið, sem hann hafi þó ekki tækifæri til að nýta sér. Hann eigi líka kost á að hafa hönd í bagga með rannsóknum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan og víðar.

Mikilvægt að halda jarðsambandi

"Verulegur fjárhagslegur ávinningur verður sjálfsagt mestur eftir árið 2000, en síðan gæti ég líka selt einkaleyfið og nú þegar hefur verið stungið að mér að selja. Það er búið að nefna einhverjar ótrúlegar upphæðir ef ég held leyfinu, hundruð milljóna á mánuði, en við skulum halda jarðsambandi og vera raunsæ því óvissan er til staðar," segir Ernir.

Truflun í boðefnakerfi

Ernir setti fram nýja tilgátu um orsakir og eðli sjúkdómsins, sem er einkaleyfishæf þar sem hún bendir á hvernig hægt er að búa til lyf í því skyni að meðhöndla sjúkdóminn. Fyrsta einkaleyfið var samþykkt í Bandaríkjunum í maí síðastliðnum.

Ernir segir að erfitt sé að skilgreina sjúkdóminn, þar sem sjúkdómseinkenni séu margvísleg. Þar á meðal séu svefntruflanir, sem komi væntanlega frá heila, andleg þreyta sem komi væntanlega frá heila, líkamleg þreyta sem komi væntanlega frá vöðvum, vöðvaverkir o.fl.

Í fljótu bragði virðist ekkert tengja saman þessi einkenni en kenning Ernis miðast við að síþreytufár stafi af truflun í einu boðefnakerfi heilans og taugavöðvamótum. Um sama efnið sé að ræða og truflast að hluta til í Alzheimersjúkdómi. Þar sé hins vegar um að ræða skemmdir á frumum sem gangi ekki til baka, en í síþreytufári sé um bólgur í heila- og vöðvavef að ræða.

Ernir benti á nokkur lyf sem gætu gagnast við meðhöndlun og var lyfið "galanthamine" eitt þeirra. Shire lyfjafyrirtækið hefur þróað það áfram. "Galanthamine" er gjarnan unnið úr vetrargosalaukum en Shire hefur unnið lyfið úr páskaliljulaukum, og hefur einkaleyfi á þeirri vinnsluaðferð.

Annað fyrirtæki hefur hins vegar framleiðsluleyfi á lyfinu. Ernir segir að mörg stærstu lyfjafyrirtækin séu byrjuð að þróa lyf í þessum flokki og hafi gert víðtækar rannsóknir sem byggist á tilgátu hans.

Gæti nýst gegn Alzheimer

Breskir fjölmiðlar, þar á meðal BBC, Financial Times og New Scientist, hafa fjallað talsvert mikið um áform Shire seinustu vikur, og er Ernis alls staðar getið sem einkaleyfishafa á hugmyndinni á bak við lyfið.

Í nýlegu viðtali við Financial Times segir Rolf Stahel, aðalframkvæmdastjóri Shire Parmaceuticals, að engin nákvæm lækning sé til við síþreytufári í Evrópu. Í Evrópu og Bandaríkjunum þjáist að minnsta kost ein milljón sjúklinga af sjúkdóminum.

Blaðið segir sjúkdóminn leggjast aðallega á fólk á aldrinum 20­45 ára, og geti herjað á mann í að minnsta kosti hálft ár í senn, en að meðaltali í tvö og hálft ár.

Shire hafi jafnframt áhuga á möguleikum "galanthamine" við meðhöndlun alzheimers-sjúkdómsins, þ.e. heilabilunar eða elliglapa. Fyrirtækið hyggist hefja víðtæka rannsókn í sumar á notkunarmöguleikum þess, og reyna lyfið á um 600 sjúklingum á sjúkrahúsum í fimm löndum Evrópu.

DR. ERNIR Kr. Snorrason segist ánægður með viðtökur kenninga sinna en telur fulla ástæðu til varkárni í spádómum um hugsanlegan fjárhagslegan hagnað af þeim.