Guðmundur Pétursson fæddist í Borgarnesi 15. mars 1947. Hann lést á líknardeild LSH 2. nóvember 2021.
Foreldrar hans voru Pétur Guðmundsson flugvallarstjóri, f. 2. sept. 1928, d. 23. sept. 2014, og Hrafnhildur Héðinsdóttir húsmóðir og þroskaþjálfi, f. 3. okt. 1927, d. 16. apríl 2013. Systkini Guðmundar eru Héðinn, f. 1952, Hólmfríður, f. 1956, og Jónas, f. 1960.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Jóna E. Jónsdóttir, f. 1946, frá Ísafirði, þau gengu í hjónaband 28. sept. 2002. Dóttir Jónu er Snædís Úlriksdóttir, f. 1968.
Guðmundur lauk gagnfræðaprófi frá Njarðvíkurskóla, lærði síðan vélsmíði og vann hjá ÍAV. Síðar vaknaði flugáhuginn og að loknu flugnámi starfaði hann um tíma við flugið sem siglingafræðingur hér heima og erlendis. Honum var margt til lista lagt og næst lá leiðin til München í nám í ljósmyndun. Námsárin í Þýskalandi voru mótunarár hans og honum mjög hugleikin en þar eignaðist hann marga góða vini og kunningja. Eftir að heim kom starfaði hann um tíma á ljósmyndastofu Mats Wibe Lund. Eftir það vann hann ýmis störf á Keflavíkurflugvelli, hjá slökkviliði, verkfræðideild Varnarliðsins og hjá Flugmálastjórn, sem síðar varð Isavia, til starfsloka.
Guðmundur átti mörg áhugamál sem hann stundaði af kappi, má þar nefna hestamennsku, fluguhnýtingar og veiði, golf og skíði. Hann unni útivist og náttúru alla tíð eins og áhugamál hans eru til vitnis um.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 16. nóvember 2021, klukkan 13.

Guðmundur Pétursson, yndislegi vinur okkar, er horfinn á braut. Þó dimmt sé úti og hugurinn dapur á skilnaðarstund þá sé ég hann fyrir mér svífa upp á bjartan himinbogann, inn í ljósið, frjáls úr viðjum krabbameinsins sem endaði á líf hans.
Hvenær hefst og hvenær endar eitthvað? Jú, vissulega er sagt að líf hefjist og síðan endar það fyrr eða síðar og við verðum öll að gangast undir þetta náttúrulögmál. En þegar til stendur að skrifa nokkur orð um manneskju sem hefur verið samferða manni í nærri 50 ár þá er eins og manneskjan, vinskapurinn og atburðirnir hafi alltaf verið til staðar og verði áfram langt út fyrir líf og dauða. Þá vefst manni tunga um tönn því allt rennur saman í eina heild og það sem upp úr stendur er þakklætið og sú fullvissa um að hafa verið óendanlega heppinn að eiga að vini mann eins og Guðmundur Pétursson hafði að geyma.

Gummi, eins og við kölluðum hann alltaf, lærði flug og var starfandi flugmaður hjá Loftleiðum þegar leiðir hans og Gunnars lágu saman. Þetta var um 1972 en síðar fór Gummi til München og lærði þar ljósmyndun og þar kynntist ég honum árið 1974. Heim kominn úr námi vann hann við ljósmyndun m.a. hjá Mats Wibe Lund en lengst af hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Gummi var drengur góður með djúpa jarðtengingu. Mikill dýravinur var hann og næmur á umhverfi sitt, menn og málefni. Hann var einstakur húmoristi, orðvar en orðheppinn með eindæmum, skarpgreindur og umfram allt hreinn og beinn í viðmóti. Þessir eiginleikar einkenndu hann strax við fyrstu kynni. Hann vildi alltaf allt fyrir okkur gera og eru óteljandi handtök hans, umönnun og úrræði sem snérust m.a. um dýrapössun, tækniaðstoð, myndatökur, hrossastúss og aðstoð við gerð og uppsetningu myndlistarverka og fleira og fleira í gegnum tíðna.
Þetta sýnir hve Gummi var óeigingjarn á tíma sinn, en samt hélt hann sínum venjum til haga og stundaði útiveru bæði á sumrum og vetrum við stangveiði, golf, hesta- og skíðamennsku. Hann var fljótur að ná færni á hinum ýmsu sviðum, hvort heldur var í handverki eða íþróttum.
Á hestatímabilinu hans voru það Rauðki, Brúnki og Stjarni sem skipuðu stærstan sess. Þeir hétu allir fögrum nöfnum en Gumma þótti óþarfi að flækja málin með því að nota þau nöfn. Allir skildu betur hvaða hest hann átti við ef gælunöfnin voru notuð og með viðskeytinu, minn.
Í gegnum allan þann tíma sem við umgengust Gumma hvað mest fylgdi honum músík. Hann var mikill áhugamaður um jazz og klassíska tónlist sérstaklega. Þegar Chet Baker, Dizzy Gillespie, Miles Davis eða Ron Charter voru settir á fóninum og stilltir í botn þá smellti okkar maður fingrum og sló taktinn með fætinum, lygndi aftur augunum og skaut fram hökunni. Þá leið Gumma okkar vel, kannski búinn að fá sér eitt skot.
En 1998 runnu upp stóru tímamótin í lífi Gumma þegar hann kynnist Jónu Jónsdóttur skíðakennara og fararstjóra, ættaðri frá Ísafirði. Hún starfaði þá á vetrum í Lech í Austurríki. Það var í janúar árið eftir að Gummi flaug með okkur til Lech og eftir þá ferð lágu leiðir þeirra saman í fallegri vegferð. Svo hratt og vel gekk þessi ákvörðun um samlíf þeirra að innan árs var Gummi búinn að ná ótrúlegum árangri á skíðum og sumarið eftir var Jóna komin á fullt í golf sem hafði verið ein af tómstundaiðkunum Gumma um áraraðir. Þannig kenndu þau hvort öðru og nutu sín saman í áhugamálunum. Þau gengu í hjónaband skömmu seinna og ástin blómstraði. Samband þeirra bar alltaf vitni um kærleik, gleði, umhyggju og virðingu. Þau ferðuðust vítt og breitt um landið á sumrin með húsvagninn sinn, fóru í daglegar göngur, stunduðu leikhús og tónleika og kósuðu sig heima við lestur og hvíld á vetrum.
Elsku Jóna, þú hefur misst kærleiksríkan maka og besta vininn þinn. Megi þér auðnast að lifa áfram í gleði og sátt og í anda lífsspeki Gumma sem sagði stundum þegar hann hafði kvatt einhvern sáran kafla í lífi sínu eða farið yfir einhvern erfiðan þröskuld, búið er búið.
Innilegar samúðarkveðjur til þín og Snædísar þinnar og til systkina Gumma, Héðins, Hólmfríðar og Jónasar og fjölskyldna þeirra.
Með trega og söknuði kveðjum við góða vininn okkar og þökkum fyrir allt og allt, blessuð sé minning Guðmundar Péturssonar.

Gunnar og Þórdís.