Hrefna Gísladóttir fæddist á Hofsósi 27. ágúst 1921. Hún lést 5. nóvember 2021 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.

Hrefna var dóttir Önnu Þuríðar Pálsdóttur, f. 1. janúar 1902, d. 23. desember 1986, og Gísla Benjamínssonar, f. 8. júní 1891, d. 19. mars 1976.

Systkini hennar voru Svafa, f. 10. desember 1924, d. 26. apríl 2021; Hjalti, f. 26. janúar 1930, d. 8. ágúst 2011; og Hólmfríður Rósa (Lilla), f. 28. janúar 1944.

Hinn 16. júní 1951 giftist Hrefna Ögmundi Hannessyni, bónda í Stóru-Sandvík í Flóa, f. 3. apríl 1918, d. 28. nóvember 1984. Foreldrar hans voru Sigríður Kristín Jóhannsdóttir frá Stokkseyri og Hannes Magnússon bóndi í Stóru-Sandvík. Synir Hrefnu og Ögmundar eru Gísli, f. 4. desember 1951, d. 29. september 2014, Magnús, f. 21. mars 1955, og Ari Páll, f. 17. nóvember 1956.

Hrefna ólst upp hjá foreldrum sínum á Svalbarði á Hofsósi en varði stórum hluta æskuáranna á Ingveldarstöðum í Skagafirði hjá föðursystur sinni. Hrefna flutti til Reykjavíkur 1940 til að stunda nám við Kenn­ar­askóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1942. Eft­ir námið kenndi hún í skóla St. Jós­efs­systra í Hafnar­f­irði 1942-1945 og einnig í Ísaks­skóla 1945-1946. Sum­arið 1946 sigldi hún til Svíþjóðar og lærði handa­vinnu­kennslu. Hrefna kenndi við barnaskólann á Selfossi 1946-1951, þar til hún flutti til Stóru-Sandvíkur og tók þar við búi. Hrefna bjó í Stóru-Sandvík 1951-2009, á Selfossi til 2015 og svo á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.

Útförin fer fram í dag, 19. nóvember 2021, frá Selfosskirkju klukkan 14 að viðstöddum nánustu aðstandendum. Hægt verður að fylgjast með útförinni í streymi í gegnum heimasíðu Selfosskirkju.

Hlekk á streymi má finna á:

https://www.mbl.is/andlat

Minningarathöfn verður haldin síðar.

Hægum föstum skrefum fikraði hún sig yfir móðuna miklu á allra heilagra/ sálna messu. Þegar himnarnir og heimarnir mætast og létt er að skipta um svið. Þar sem ástvinirnir bíða endurfundanna. Það gefur augaleið að margt af samferðafólki hennar er farið, þegar rúmlega 100 ára ferðalagi Hrefnu lýkur hér á jörð.


Það eru líka tímamót hjá Stóru-Sandvíkurfjölskyldunni þar sem Hrefna fer síðust tengdabarna og barna Sigríðar Kr. Jóhannsdóttur, f. 1873, og Hannesar Magnússonar, f. 1868.


Ég minnist Hrefnu, kennslukonunnar hávöxnu, grönnu með þykkt ljóst hár og toppinn yfir enninu rúllaðan upp og festan með spennu, með rólegt festulegt yfirbragð. Hún var fyrsta kennslukonan við nýbyggðan barnaskóla á Selfossi 1946. Fyrir voru Sigurður Eyjólfsson skólastjóri og Leifur Eyjólfsson sem kom 1943. Hrefna kenndi þá yngstu börnunum. Skólaárið 1947-1948 kenndi hún mér, 12 ára gamalli, handavinnu. Síðan höfum við fylgst að meira og minna alla ævi.


Hrefna ólst upp á Hofsósi hjá foreldrum sínum, Önnu Pálsdóttur og Gísla Benjamínssyni, ásamt systkinunum Svöfu, Hjalta og Hólmfríði fóstursystur. Ég sá í minningargrein um Önnu móður hennar að heimili foreldranna hefði verið opið fyrir ungum og öldnum sem einhvers þurftu við. Sem sagt göfugt og gefandi fólk í samfélaginu. Þar hefur eplið ekki fallið langt frá eikinni. - Hrefna talaði oft með mikilli hlýju um Margréti frænku sína sem bjó á Ingveldarstöðum í Hjaltadal. Þar dvaldi hún mörg sumur, leið vel og fékk þar líka nóg að lesa. Hugur hennar stóð snemma til mennta. Eftir að hafa unnið t.d. í síld á Siglufirði og verið kaupakona á Grjótnesi á Melrakkasléttu fór hún til Reykjavíkur í Kennaraskóla Íslands og lauk prófi 1942. Hún kenndi í Hafnarfirði 1942-1945 og við Ísaksskóla 1945-1946. Þá fór hún til Nääs í Svíþjóð á handavinnunámskeið. Hún var vandvirk og mikil hannyrðakona.
Hulda Runólfsdóttir, uppalin í Hlíð í Gnúpverjahreppi, kenndi með Hrefnu í Hafnarfirði. Hrefna réð sig í kaupavinnu að Hlíð 1945. Haustið 1946 fór hún að kenna á Selfossi. Í Hlíð eignaðist hún vinkonu, Ragnheiði, dóttur hjónanna þar, og hélst sú vinátta meðan báðar lifðu. Þær voru saman í saumaklúbbi á Selfossi ásamt Margréti Helgadóttur mágkonu Ragnheiðar, Margréti systur Sigurðar skólastjóra, Jóhönnu frá Fljótshólum, Jóhönnu Bjarnadóttur og Karenu konu Hjalta Gestssonar. Flestar tengdar Hlíð (og Litlu-Sandvík).


Eins og áður sagði kenndi hún mér í barnaskólanum. Ég man að frændur mínir Jóhann og Sigurður, kankvísir í Vikuriðjunni í Stóru-Sandvík, báðu mig að skila kveðju til kennslukonunnar - þeir voru að glettast við Ögmund - sem brosti í kampinn!


Hinn 16. júní 1951 giftist Hrefna Ögmundi föðurbróður mínum, Hannessyni, f. 3. apríl 1918, d. 28. nóvember 1984. Ég man þegar Ögmundur flutti hana heim að Sandvík á Gamla-Stormi, heimilis-vörubílnum, árgerð 1934 eða 1935. Síðar eignuðust þau drossíu með Sigurði, bróður Ögmundar. Þeir skiptust svo á þegar til kom að nota bílinn annan hvern sunnudag með fjölskyldum sínum!


Það var mikið gæfuspor fyrir Stóru-Sandvíkurheimilið þegar Hrefna kom. Það vita allir sem þekkja til að hún gekk inn í stóra fjölskyldu sem var hávaðasöm og ólík henni að mörgu leyti, en gagnkvæm virðing og kærleiksbönd þróuðust brátt. Hún deildi íbúð, eldhúsi og eldavél með tengdamóður sinni og fjölskyldu hennar í 10 ár. Þá var mikill gestagangur í Stóru-Sandvíkurhúsinu, m.a. hélt Hjalti Gestsson, ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands, þar námskeið fyrir unga menn í febrúarmánuði ár hvert 1951-1955. Nemarnir voru í fæði í íbúðum Ara Páls og Ögmundar en kennt var og gist á rishæðinni. Maður getur rétt ímyndað sér að lítið prívatlíf hafi verið fyrir ungu konuna með litlu drengina sína. Aldrei haggaðist Hrefna. Hún tók alltaf fallega á móti gestum og naut öll Sandvíkurættin þess. Hún mjólkaði, fór út að raka, og gaman var þegar hún kom í rófugarðinn og við sungum slagara alla leiðina heim á vagninum. Hrefna lagði mikla vinnu og alúð í blómsturgarðinn, sem Jón H. Björnsson landslagsarkitekt hannaði að beiðni Magneu systur Ögmundar, og Axel Magnússon, garðyrkjumaður í Hveragerði, vann með Ögmundi o.fl. Síðast vann Hrefna í garðinum komin yfir nírætt. Hrefna afhenti Ara Páli syni sínum búið 1986, tveimur árum eftir lát Ögmundar.


Hrefna og Sigríður systir mín, nágranni hennar, sem lést 2008, áttu fallegt vináttusamband meðan báðar lifðu. Upp úr aldamótum flutti Hrefna í Grænumörk 2 á Selfossi þar sem hún tók virkan þátt í starfi eldri borgara. Meðal annars málaði hún mikið og fallega á postulín sem hún gaf mér og mörgum öðrum. - Eftir áfall og heilsubrest flutti hún á Sólvelli á Eyrarbakka árið 2015. Þar leið henni vel allt til loka. Vil ég þakka starfsfólkinu þar fyrir kærleiksríka umönnun Hrefnu vinkonu minnar.


Bið ég afkomendum og ástvinum Hrefnu blessunar Guðs sem vakir yfir öllum.

Rannveig Pálsdóttir.