Sex viðurkenningar veittar fyrir fallegt umhverfi í Kópavogi Umhverfisráð og klúbbarnir í Kópavogi hafa veitt árlegar viðurkenningar fyrir fagurt og snyrtilegt umhverfi í Kópavogi. Að þessu sinni voru veittar sex viðurkenningar.

Sex viðurkenningar veittar fyrir fallegt umhverfi í Kópavogi Umhverfisráð og klúbbarnir í Kópavogi hafa veitt árlegar viðurkenningar fyrir fagurt og snyrtilegt umhverfi í Kópavogi.

Að þessu sinni voru veittar sex viðurkenningar.

Valþór Hlöðversson formaður Umhverfisráðs Kópavogs flutti ávarp og sagði hann fegrun umhverfis hafa gengið vel í bænum síðustu ár. Enn væri þó ýmsu ábótavant og nefndi Valþór sérstaklega tvö atriði. Í fyrsta lagi væri frágangur gatna oft og tíðum slæmur, einkum í gömlu hverfunum. Í öðru lagi væri umgengni slæm og lítið hirt um fegrun umhverfis í svokölluðum iðnaðarhverfum.

Næst tók til máls Heimir Pálsson forseti bæjarstjórnar. Heimir sagði það vilja þeirrar bæjarstjórnar sem nú er við völd að leggja rækt við umbætur á umhverfi. Með starfi garðyrkjudeildar hefði nánast verið skipt um andlit á Kópavogsbæ síðustu ár. Verk einstaklinga í bænum ættu þar einnig stóran hlut að máli.

Umhverfisráð veitti verðlaun fyrir snyrtilegt umhverfi fjölbýlishúsa og atvinnuhúsnæðis. Kiwanisklúbburinn Eldey, Lionsklúbbur Kópavogs, Rotaryklúbbur Kópavogs og Lionsklúbburinn Muninn veittu húsráðendum fjögurra einbýlishúsa viðurkenningar fyrir fallega og vel hirta garða.

Fyrst voru veitt verðlaun í Kópavogi fyrir umhverfi árið 1964 og á þeim 24 árum sem síðan eru liðin hafa rúmlega 150 garðar fengið viðurkenningu.

Klúbbarnir skiptu bænum í hverfi og hver klúbbur valdi fallegasta garðinn í sínu hverfi. Umhverfisráð og fulltrúar klúbbanna voru sammála um að eftirtaldir aðilar fengju viðurkenningu fyrir fallegt og snyrtilegt umhverfi.

Kiwanisklúbburinn Eldey veitti Sunnevu Guðjónsdóttur og Guðmundi Snæhólm viðurkenningu fyrir garð þeirra að Þinghólsbraut 11.

Guðrún Ásta Þórarinsdóttir og Birgir Guðjónsson hlutu viðurkenningu Lionsklúbbs Kópavogs fyrir garðinn að Hjallabrekku 28.

Garðurinn að Hlíðarvegi 49 sem Guðrún Erlendsdóttir og Ásgeir Þ. Ásgeirsson eiga hlaut viðurkenningu Rotaryklúbbs Kópavogs.

Lionsklúbburinn Muninn veitti Ólöfu Sigurðardóttur og Þórði G. Guðlaugssyni viðurkenningu fyrir garðinn að Kársnesbraut 87.

Umhverfisráð Kópavogs veitti íbúum fjölbýlishúsanna að Álfa túni 17-25 viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi. Einnig hlaut Íspan hf. viðurkenningu ráðsins fyrir snyrtilegt umhverfi atvinnuhúsnæðis.

Í ár komu milli 40 og 50 staðir til greina við val á fallegu umhverfi og má þar nefna: Brekkutún 20, Grænatún 12, Hvannhólma 8, Löngubrekku 4, Sunnubraut 8, Þinghólsbraut 14 og 73, Kópavogsbraut 90, Borgarholtsbraut 32, Hraunbraut 26 og 38, Hóf gerði 10 og íbúðir aldraðra að Vogatungu 75-101.

Af fjölbýlishúsum komu einnig til greina Furugrund 78, Reynigrund 1-7 og Sæbólsbraut 30-38. Atvinnuhúsnæði að Kársnesbraut 108-112 og Smiðjuvegi 11-13a þótti einnig snyrtilegt.

Verðlaunagripirnir í ár eru eftir listamennina Sigrúnu Einarsdóttur og Sören Larsen í "Gler í Bergvík".

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Verðlaunahafarnir samankomnir fyrir utan Félagsheimili Kópavogs.