Skora á fólk að styðja starf Krýsuvíkursamtakanna ­ segir Leifur Leópoldsson sem nú hefur lokið áheitagöngu sinni LEIFUR Leópoldsson er nú kominn til borgarinnar eftir þrjátíu og þriggja daga gönguferð yfir hálendi Íslands, þar sem hann gekk yfir 600 km...

Skora á fólk að styðja starf Krýsuvíkursamtakanna ­ segir Leifur Leópoldsson sem nú hefur lokið áheitagöngu sinni

LEIFUR Leópoldsson er nú kominn til borgarinnar eftir þrjátíu og þriggja daga gönguferð yfir hálendi Íslands, þar sem hann gekk yfir 600 km leið, frá Reyðarfirði í austri og vestur að Arnarstapa á Snæfellsnesi. Leifur er orðinn stálsleginn, að eigin sögn; úthvíldur eftir að hafa dvalið á Snæfellsássmótinu yfir helgina.

"Maður kann vissulega vel að meta þægindin heima eftir volkið og nýtur þess að sofa í hlýju rúmi. En friður, ró og fábrotið líf hafa líka sína kosti. Það er afskaplega uppbyggjandi að vera einn í ákveðinn tíma og koma reglu á hugsanir sínar. Mannskepnan er ekki sköpuð til að búa eins þétt og gerist í borginni og ég trúi því að streita nútímamannsins skapist m.a. af þéttbýlinu" sagði Leifur.

Aðspurður um ástæðu þess að hann lagði í þessa göngu sagði hann að sér hefði þótt þarft að styðja Krýsuvíkursamtökin og eins hefði gangan haft mikið gildi fyrir hann sjálfan. "Ég átti fastlega von á því að Krýsuvíkursamtökin ættu að geta haft eitthvað gagn af göngunni og treysti þjóðinni til að styðja starf þeirra" sagði Leifur.

"Erfiðasti hluti göngunnar voru fyrstu dagarnir, en ég lærði líka mikið af erfiðleikunum. Ég hef þónokkuð gert af því að ganga á fjöll. Ég er alinn upp í sveit og fór fótgangandi í skólann. Síðan hef ég æft göngu frá 13 ára aldri og hef haldið mér í mjög góðri þjálfun. Þegar ég var í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði gekk ég líka oft milli Hveragerðis og Reykjavíkur.

Ég treysti því að fólk líti ekki svo á að söfnuninni sé lokið þó gangan sé á enda og skora á fólk að styðja starf Krýsuvíkursamtakanna" sagði Leifur að lokum.

Að sögn Snorra Welding hjá Krýsuvíkursamtökunum hafa safnast um 3 milljónir króna fram til þessa. Verið er að hringja til fyrirtækja um land allt með beiðni um styrk til að ljúka fyrsta áfanga skólahússins í Krýsuvík og leggja í það hitaveitu. Sagði Snorri undirtektir mjög velviljaðar og hefði fólk reitt af hendi frá 2-3 þúsund krónum og upp í 20 þúsund.

"Við reiknum með að okkur takist að ljúka fyrsta áfanga hússins í haust en þá er undir stjórnvöldum komið að veita leyfi fyrir rekstrinum og þrjár kennarastöður sem þyrfti að koma inn á fjárlög. Húsið verður að minnsta kosti nýtt til námskeiðahalds fyrir unglinga, foreldra og fullorðin börn alkóhólista, en til aðkoma á fót meðferðarstofnun og skólahaldi þurfum við stuðning ríkisins" sagði Snorri.

Morgunblaðið/Snorri Böðvarsson

Leifur Leópldsson á leiðarenda, undir líkneski Bárðar Snæfellsáss við Arnarstapa á Snæfellsnesi.