Persaflóastríðið: Framkvæmdastjóri S.Þ. boðar vopnahlé 20. ágúst Sameinuðu þjóðunum. Reuter. "ÉG SKORA á Hið islamska lýðveldi í Íran og lýðveldið Írak að virða vopnahlé frá og með klukkan 3.00 hinn 20. ágúst og hætta hernaði á landi, á sjó og í lofti,"...

Persaflóastríðið: Framkvæmdastjóri S.Þ. boðar vopnahlé 20. ágúst Sameinuðu þjóðunum. Reuter. "ÉG SKORA á Hið islamska lýðveldi í Íran og lýðveldið Írak að virða vopnahlé frá og með klukkan 3.00 hinn 20. ágúst og hætta hernaði á landi, á sjó og í lofti," segir í tilkynningu frá Perez de Cuellar, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem hann las í troðfullum sal Öryggisráðsins síðdegis í gær. De Cuellar sagðist ætla að bjóða fulltrúum Írans og Íraks til beinna viðræðna í Genf 25. ágúst. Yfirlýsingar framkvæmdastjóra S.Þ. um dagsetningu vopnahlés í Persaflóastríðinu, sem staðið hefur í átta ár, var beðið meðeftirvæntingu um allan heim og var henni fagnað með lófataki í Öryggisráðinu.

"Báðir stríðsaðilar hafa fullvissað mig um að þeir muni virða vopnahléð innan ramma ályktunar Sameinuðu þjóðanna númer 598," bætti de Cuellar við. "Ríkisstjórnir Írans og Íraks hafa einnig fallist á að Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna taki til starfa um leið og vopnahléð tekur gildi." Ályktun Sameinuðu þjóðanna gerir auk þessa ráð fyrir því að horfið verði til landamæranna sem giltu áðuren stríðið braust út, skipst verði á stríðsföngum, fundin verði framtíðarlausn á sambúð ríkjanna og að hlutlaus nefnd rannsaki upptök stríðsins. Öllum á óvart féllust Íranir á ályktun Sameinuðu þjóðanna fyrir þremur vikum og gaf sú ákvörðun friðarviðleitni byr undir báða vængi. Írakar höfðu fallist á ályktunina skömmu eftir að hún var samþykkt í júlí í fyrra.

Undanfarnar tvær vikur hefur de Cuellar miðlað málum milli utanríkisráðherra Írans og Íraks í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Í miðpunkti var spurningin um beinar viðræður; Írakar kröfðust slíkra viðræðna áður en til vopnahlés kæmi en Íranir vildu vopnahlé á undan beinum viðræðum.

Síðastliðinn laugardag hjó Saddam Hussein, forseti Íraks, á hnútinn er hann féllst á að leggja niður vopn að því tilskildu að Íranir tækju þátt í beinum viðræðum strax að því búnu.

Undanfarna daga hafa átök milli Írana og Íraka nær legið niðri og sagði de Cuellar í gær að endurheimt friðar við Persaflóa væri stærri sigur fyrir þjóðir beggja en nokkur ávinningur í stríði.

Ef vopnahlé kemst á er lokið einni blóðugustu styrjöld frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Talið er að allt að ein milljón manna hafi týnt lífi í Persaflóastríðinu.

Írakar hafa boðað þriggja daga hátíðahöld frá og með deginum í dag í tilefni samkomulagsins um vopnahlé. Dagskrá útvarps og sjónvarps var rofin í stundarfjórðung til að segja frá fundi Öryggisráðsins. Strax á eftir lýstist himinninn yfir Bagdað upp er skotið var af fallbyssum. Þúsundir manna komu saman á götum úti til að fagna fyrirsjáanlegum friði.

Fyrr um daginn höfðu yfirvöld í Íran í fyrsta skipti tilkynnt opinberlega að friður væri í augsýn.

Sjá fréttir á bls. 29.

Reuter

Tilkynningu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um dagsetningu vopnahlés í stríðinu milli Írana og Íraka var fagnað í Öryggisráðinu í gær. Hér sjást þeir Mohammad Jafar, fulltrúi Írana hjá S.Þ. (skeggjaður fyrir miðju), og Ismat Kittani frá Írak (annar frá hægri) taka á móti hamingjuóskum.