"Útilokað að fara í loftið aftur" ­ segir Björn Davíðsson flugmaður FLUGMAÐUR vélarinnar, Björn Davíðsson frá Ísafirði, sagði í samtali við Morgunblaðið að skyggni hefði skyndilega dottið niður í lendingunni, en glapræði hefði verið að fara aftur í...

"Útilokað að fara í loftið aftur" ­ segir Björn Davíðsson flugmaður

FLUGMAÐUR vélarinnar, Björn Davíðsson frá Ísafirði, sagði í samtali við Morgunblaðið að skyggni hefði skyndilega dottið niður í lendingunni, en glapræði hefði verið að fara aftur í loftið. Hann sagði, að engin vakt væri á Hólmavíkurflugvelli á kvöldin, en hann hefði haft samband við annan flugmann, sem flaug til Gjögurs á þessari sömu vél fyrr um daginn og fengið þær upplýsingar hjá honum að ekkert amaði að veðri.

"Þegar ég kom inn til lendingar voru um 500 metrar eftir af brautinni en 300 metrar eiga að duga til lendingar," sagði Björn. "Um leið og ég kom yfir brautarendann gekk yfir dimmur skúr og skyggni datt skyndilega niður. Vélin var þá í um það bil 20 feta hæð og ég ákvað að lenda vegna veðurskilyrða. Hefði skyggni verið betra hefði ég farið aftur á loft. Ég gæti trúað að skyggni hafi vart verið meira en 150 metrar. Við lentum á eðlilegum lendingarhraða og loftskrúfan var í hægagangi svo regnið þvoðist illa af rúðunum og minnkaði útsýni enn við það. Ég taldi fjóra hatta fara fram hjá mér áður en ég snerti brautina, en 50 metrar eru á milli hattanna. Þegar ég leit á vindpokann lá hann niðri.

Þegar ég fékk skyggni aftur sá ég að vélin myndi fara út af brautinni. Erfitt er að ímynda sér hversvegna vélin hefur þurft þessa vegalengd en verið getur að vindhviða hafi komið á eftir vélinni og bremsur ekki virkað sem skyldi. Það eru áreiðanlega margir samverkandi þættir sem urðu til þess að vélin fór út af brautarendanum. Þegar ég gerði mér grein fyrir því að vélin myndi lenda utan brautar reyndi ég að stjórna henni þannig að hún rynni sem beinast áfram svo höggið yrði sem minnst. Það var alveg útilokað að fara í loftið aftur. Ég veit af hæðóttu landslagi og klettabeltum þarna fyrir norðanog það hefði verið glapræði að reyna að fara í loftið aftur í þessu skyggni þegar maður er um það bil að lenda. Ég hefði sennilega drepið okkur báða hefði ég reynt það. En vélin lenti sem sagt fyrir utan brautina og nefhjólið brotnaði af henni. Hún rann svo áfram á maganum nokkra metra og yfir skurð en stakkst svo í túnið og valt á þakið. Um leið og hún stöðvaðist kallaði ég til félaga míns: "Út" og örskammri stundu síðar vorum við komnir út úr vélinni."