Hólmavík: Tveir sluppu ómeiddir þegar flugvél hlekktist á Laugarhóli, Bjarnafirði FLUGVÉLIN TF-ODO frá Ísafirði lenti utan brautar á Hólmavíkurflugvelli laugardaginn 6. ágúst.

Hólmavík: Tveir sluppu ómeiddir þegar flugvél hlekktist á

Laugarhóli, Bjarnafirði

FLUGVÉLIN TF-ODO frá Ísafirði lenti utan brautar á Hólmavíkurflugvelli laugardaginn 6. ágúst. Í vélinni, sem er einkaflugvél af gerðinni Piper, voru tveir menn, Björn Davíðsson flugmaður og Eggert Sigurbergsson, og sluppu báðir ómeiddir frá óhappinu. Flugmaðurinn missti sjónar af flugbrautinni í slæmu skyggni með þeim afleiðingum að vélin lenti norðan við miðja brautina og rann út fyrir enda brautarinnar, yfir skurð og í túngirðingu. Stakkst vélin síðan í túnið norðan flugbrautarinnar og brotnaði við það nefhjólið og vélin kollsteyptist.

Atvikið átti sér stað rétt eftir klukkan 19 á laugardagskvöld. Vélin var í eigu sjö einstaklinga á Ísafirði en þaðan var hún einmitt að koma. Var allt eðlilegt við aðdraganda lendingarinnar þar til veðurskilyrði breyttust skyndilega. Skall á dimm skúr sem byrgði flugmanninum sýn en hélt hann samt áfram lendingu. Vélin snerti hinsvegar ekki braut fyrr en komið var norður fyrir miðju vallarins. Hún hélt áfram út yfir enda flugbrautarinnar en þar er skurður milli flugvallarins og túns sem liggur mun lægra en flugbrautin. Fór vélin yfir skurðinn og flæktist í túngirðingu og sleit hluta af henni með sér. Stakkst hún við þetta í túnið og brotnaði nefhjólið undan henni og stakkst hún á hvolf.

Framhluti vélarinnar og stél er mikið skemmt, en flugmann og farþega sakaði ekki. Starfsmenn flugmálastjórnar komu síðar um kvöldið og skoðuðu aðstæður. Þetta er í annað sinn á þremur árum að einkavél fer fram af braut á Hólmavíkurflugvelli og laskast á þennan hátt.

S.H.Þ. Morgunblaðið/Sigurður H. Þorsteinsson

Flugvélin stakkst í túnið norðan flugbrautarinnar og kollsteypt ist.