Afganistan: Undanhald Rauða hersins frá Kabúl loks hafið Moskvu, Daily Telegraph. AFGANIR kvöddu Sovétmenn með blómsveigum í gær þegar fyrsta sovéska hersveitin hóf undanhaldið frá Kabúl, höfuðborg Afganistans.

Afganistan: Undanhald Rauða hersins frá Kabúl loks hafið Moskvu, Daily Telegraph.

AFGANIR kvöddu Sovétmenn með blómsveigum í gær þegar fyrsta sovéska hersveitin hóf undanhaldið frá Kabúl, höfuðborg Afganistans. 500 hermenn og um 100 farartæki héldu norður á bóginn, en mannfjöldi var viðstaddur til þess að kveðja innrásarherinn. Brottför þessarar hersveitar er talinn til merkis um að Sovétmenn ætli að efna það heit sitt að innrásarher þeirra í Afganistan hverfi á braut.

Þrátt fyrir þetta er ljóst að Sovétmenn munu enn um sinn hafa öflugan herstyrk í borginni en skæruliðar í hæðunum umhverfis borgina hafa aukið eldflaugaárásir sínar og pólitísk framtíð landsins er engu tryggari en áður. Vestrænir stjórnarerindrekar í Kabúl telja að í herbúðum Sovétmanna séu um 22.000 hermenn.

Samkvæmt Genfarsamningnum um "lausn Afganistansvandans", sem undirritaður var í Genf í apríl síðastliðnum, ber Sovétmönnum að hafa kvatt heim að minnsta kosti helming herja sinna í Afganistan fyrir næsta mánudag, en allir skulu þeir á brott fyrir 15. febrúar.

Í lok síðustu viku fóru Sovétmenn úr hinni suðlægu borg Kandahar og dagblað Rauða hersins skýrði frá þvíað engar hersveitir væru eftir í suðurhluta Afganistans. Að sögn sovésku fréttastofunnar TASS í gær munu sveitir Rauða hersins hafa yfirgefið 25 héruð af 29 innan nokkurra daga og sagði fréttastofan engan vafa leika á því að Rauði herinn yrði á brott úr Afganistan á tilsettum tíma.

Sovétmenn hafa varað Pakistana við afskiptum af málefnum Afganistans að undanförnu og sagst myndu grípa til sinna ráða ef Pakistanar hætti ekki "grófum brotum" á Gen farsamningnum. Sovétmenn hafa þó ekki greint frá því í hverju meint brot Pakistana felist. Afganskir skæruliðar hafa bækistöðvar í Pakistan.

Í síðustu viku skutu Pakistanar niður sovéska orrustuþotu, sem farið hafði inn fyrir lofthelgi Pakistans. Flugmaðurinn varpaði sér út í fallhlíf, en var tekinn höndum af landamæraættbálki nokkrum og var síðast þegar til fréttist á leið til Islamabad, höfuðborgar Pakistans. Tveir menn í flugher stjórnarinnar í Kabúl lentu í gær MIG 21-þotu sinnií Pakistan og báðu um hæli sem pólitískir flóttamenn.