Burma: Þúsundir manna mótmæla í Rangoon-borg Krafist umbóta í efnahags- og stjórnmálum Rangoon. Reuter.

Burma: Þúsundir manna mótmæla í Rangoon-borg Krafist umbóta í efnahags- og stjórnmálum Rangoon. Reuter.

HERMENN, sem gættu ríkisstjórnarbygginga í miðborg Rangoon, höfuðborg Burma, gerðu enga tilraun til að ráðast á tugþúsundir mótmælenda er báru borða með vígorðum um göturnar, þrátt fyrir herlög er banna slíkt, og hrópuðu slagorð gegn stjórn landsins. Mótmælt var pólitískum ofsóknum og versnandi lífskjörum. Í hópi mótmælenda var fjöldi stúdenta, menntaskólanema og Búddamunka en að sögn stjórnarerindreka tókst stúdentum ekki að hrinda afstað allsherjarverkfalli í landinu eins og talið er að þeir hafi stefnt að.

Ferðamenn , sem komið hafa til Bangkok í Thailandi frá Rangoon, segja að á götum borgarinnar séu vopnaðir hermenn, sumir með vélbyssur, í brynvörðum bílum og sandpokavígjum er reist hafa verið meðfram götunum. Umferð annarra en hermanna var bönnuð um sumar göturnar. Margir af mótmælendunum höfðu sett upp húfur eða grímur til að komast hjá því að leynilögregla gæti þekkt þá aftur en ofbeldi leynilögreglunnar er eitt af því sem valdið hefur mótmælunum.

Gífurlegar verðhækkanir, einkum á hrísgrjónum, dráp og aðrar ofbeldisaðgerðir gegn fólki sem stóð að mótmælum í mars og júní og meintar pyntingar andófsfólks eru meðal þess sem valdið hefur mestri gremju almennings í landinu. Lítið hefur borið á mótmælum í landinu þar til á þessu ári en það hefur verið undir einræðisstjórn sósíalistaflokks í meira en aldarfjórðung. Fyrir skömmu var skipt um leiðtoga og tók þá við völdum Sein Lwin af Ne Win hershöfðingja, sem ríkt hafði í 26 ár. Sein Lwin er talinn mjög illa þokkaður hjá almenningi vegna ofsókna gegn andófsmönnum sem hann hefur borið ábyrgð á. Efnahagur Burma er í kaldakoli þrátt fyrir mikil náttúruauðæfi.

Reuter

Stúdentar og Búddamunkar sjást hér ganga í fylkingu inn í Shwedagon-pagóðuna í Rangoon í síðustu viku er miklar mótmælaaðgerðir fóru fram í borginni gegn stjórnvöldum. Var m.a. krafist afsagnar Sein Lwins sem nýlega tók við völdum af Ne Win hershöfðingja. Myndina tók erlendur ferðamaður.