FAO réttir úr kútnum: Bretar og Japanar greiða ársgjöld sín Róm. Reuter. NOKKUÐ hefur ræst úr fjárhagsvanda FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

FAO réttir úr kútnum: Bretar og Japanar greiða ársgjöld sín Róm. Reuter.

NOKKUÐ hefur ræst úr fjárhagsvanda FAO, Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í júlí greiddu Bretar og Japanar helminginn af þeirri upphæð sem hvorri þjóð ber að greiða til stofnunarinnar á þessu ári; Bretar sjö milljónir Bandaríkjadala og Japanar 14 milljónir. Bandaríkin, sem neitað hafa að greiða til stofnunarinnar um hríð vegna deilna um fjárhagsáætlun hennar, greiddu 25 milljónir dala í lok júlí.

Ýmis af þeim ríkjum, sem greiða einna mest til FAO, hafa verið óánægð með fjárhagsáætlanir stofnunarinnar og viljað hafa meiri áhrif á skiptingu fjárins.Áætlunin fyrir 1988 - 1989 nemur tæpum 500 milljónum dala. Á fundi í fjárhagsog áætlunarnefnd FAO í maí síðastliðnum náðist samkomulag um að framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Edouard Saouma, hefði framvegis meira samráð við fulltrúa aðildarríkjanna um fjárhagsáætlunina.

Helsta verkefni FAO er sem stendur barátta gegn engisprettu plágu sem herjar í mörgum ríkjum Norður-Afríku.