Shultz ómeiddur eftir sprengjutilræði í Bólivíu La Paz, Reuter. SPRENGJA sprakk nálægt bílalest George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og fylgdarliðs hans í Bólivíu í gær.

Shultz ómeiddur eftir sprengjutilræði í Bólivíu La Paz, Reuter.

SPRENGJA sprakk nálægt bílalest George Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og fylgdarliðs hans í Bólivíu í gær. Enginn slasaðist, en þrír bílar skemmdust, þar á meðal bíll eiginkonu Shultz.

Sprengjan sprakk aðeins örfáum sekúndum eftir að bifreið Shultz hafði ekið framhjá henni, en þetta gerðist á leiðinni frá flugvellinum til höfuðborgar Bólivíu, La Paz. Nokkrar bifreiðar voru á leið framhjá sprengjunni þegar hún sprakk og þrjár skemmdust. Rúða brotnaði í bifreið eiginkonu Shultz, sem er oftast í sérstökum bíl á ferðum þeirra. Hún slasaðist ekki.

Þetta var fyrsta sprengjuárásin á George Shultz og sú fyrsta á háttsettan bandarískan embættismann síðan skotið var á Reagan forseta í mars árið 1981.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Charles Redman, sagði að sprengjan gæti hafa verið dínamít-sprengja, sem líklega hefði verið sprengd með fjarstýringu.

Fyrirhugað er að Shultz ræði við háttsetta bólivíska embættismenn, þar á meðal Victor Paz Estenssoro forseta, og verður baráttan gegn alþjóðlegu eiturlyfjasmygli helst til umræðu.