Norskur kvennalisti í undirbúningi HÓPUR norskra kvenna hyggst um miðjan september halda undirbúningsfund að stofnun kvennalista í Noregi og fór þess á leit að íslensk kvennalistakona kæmi á fundinn til ráðgjafar að sögn þeirra Danfríðar Skarphéðinsdóttur...

Norskur kvennalisti í undirbúningi

HÓPUR norskra kvenna hyggst um miðjan september halda undirbúningsfund að stofnun kvennalista í Noregi og fór þess á leit að íslensk kvennalistakona kæmi á fundinn til ráðgjafar að sögn þeirra Danfríðar Skarphéðinsdóttur og Kristínar Einarsdóttur.

Kvennalistakonur luku síðastliðinn laugardag fundaröð á norrænu kvennaþingi í Osló þar sem þær kynntu hugmyndafræði, stefnu og sögu Kvennalistans. Að sögn Danfríðar Skarphéðinsdóttur vildu konur af öðrum norðurlöndum spyrja margs varðandi Kvennalistann. Sagði hún að komið hefðu fram spurningar eins og hvernig Kvennalistakonur leystu innbyrðis ágreining, hve margar væru virkar, hvort eingöngu væru ungar konur í hópnum og hvað þær myndu gera yrði fylgi þeirra mun meira að loknum kosningum.

Auk norsku kvennanna sögðust nokkrar færeysku kvennanna á þinginu hafa hug á að efna til kvennalista.