Eskifjörður: Fyrsta skipið til loðnuveiða Töluvert selt fyrirfram af afurðunum HÓLMABORG SU, skip Hraðfrystihúss Eskifjarðar, hélt í gær á loðnuveiðar, fyrst íslenskra skipa á þessari vertíð.

Eskifjörður: Fyrsta skipið til loðnuveiða Töluvert selt fyrirfram af afurðunum

HÓLMABORG SU, skip Hraðfrystihúss Eskifjarðar, hélt í gær á loðnuveiðar, fyrst íslenskra skipa á þessari vertíð.

"Loðnuafli Hólmaborgar verður bræddur hér á Eskifirði," sagði Aðalsteinn Jónsson, forstjóri hraðfrystihússins, í samtali við Morgunblaðið. "Afurðaverðið hækkaði smátt og smátt í sumar og við erum búnir að selja töluvert af loðnuafurðum fyrirfram. Hins vegar hefur verðið fyrir tonn af lýsi fallið úrum 480 dölum í 420 dali vegna rigninga á þurrkasvæðunum í Bandaríkjunum að undanförnu. Mjölverðið hefur hins vegar haldist óbreytt, 9,80 dalir fyrir prótíneininguna," sagði Aðalsteinn.

Norsk skip máttu veiða 40.000 tonn af loðnu í íslensku fiskveiðilögsögunni þar til á morgun, miðvikudag, en hafa einungis veitt á milli 3.000 og 4.000 tonn og eru farin af miðunum, að sögn Landhelgisgæslunnar en flugvél hennar flaug yfir miðin í gær. Færeysku loðnuskipin eru hins vegar að veiðum 10 til 20 sjómílum fyrir utan íslensku fiskveiðilögsöguna norðvestur af Horni.