Færeyskir loðnubátar á heimleið
TF-SÝN, flugvél Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug um miðin við landið í gærdag. Út af Norðurlandi kom áhöfnin auga á sex færeyska loðnubáta drekkhlaðna á heimleið.
Svo virðist sem góður afli sé nú á loðnumiðunum norður af landinu. Einnig reyndust tveir færeyskir loðnubátar á veiðum um 80 mílur NV af Straumsnesi rétt við miðlínuna.
Af öðrum fiskiskipum sem TF-SÝN varð vör við má nefna að 28 skip voru að veiðum í svokölluðu reglugerðarhólfi á Strandagrunni og virtust vera í mokafla.
Morgunblaðið/Kristján Þ. Jónsson.
Einn af færeysku loðnubátunum siglir drekkhlaðinn heim í gær