Lifandi lúður til Skotlands Grindavík.

Lifandi lúður til Skotlands Grindavík.

SKOSK tilraunastöð í eldi sjávarfiska, sem rekin er á vegum ríkisins á vesturströnd Skotlands, hefur fengið fjóra dragnótabáta í Keflavík tilað veiða fyrir sig smálúðu og landa henni lifandi í norska tankskipið Gunnar Junior í Keflavíkurhöfn. Lúðan verður síðan flutt til Skotlands til eldis í sjókvíum og byggt á reynslu sem fengist hefur af lúðueldinu í Grindavík.

Að sögn Peters Smiths sjávarlíffræðings, sem hér er staddur til að annast þessi lúðukaup, var þessi leið valin þar sem lúða er nánast uppurin á fiskimiðum við Bretlandseyjar.

"Fyrir fimm árum var farinn mjög dýr leiðangur til lúðuveiða og tókst aðeins að fá 19 lúður á einni viku. Þessar lúður voru síðan notaðar til undaneldis sem gengið hefur mjög erfiðlega. Í fyrra tókst hinsvegar að halda fimm seiðum lifandi og náðu þau að vaxa upp í 20 sm, en þau dóu í vetur sem leið er eldishúsið brann.

Þessi árangur varð þó til að sannfæra menn umað lúðueldi er mögulegt, en til að hægt sé að halda því áfram þarf að sannfæra þá um arðsemina og því hafa 23 laxeldisfyrirtæki sem áhuga hafa á lúðueldi sameinast um kostnaðinn við að ná lúðum frá Íslandi til matfiskeldis í Skotlandi.

Ég reikna með að 1500 lúður veiðist í þessari viku og miðað við venjuleg afföll vegna sára eftir veiðarfæri þá er markmiðið að koma 1000 lúðum lifandi til Skotlands.

Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir ennþá en áríðandi er að vel takist til því að kostnaður við tankskipið er 25 milljónir krónur," sagði Peter Smith og bætti við að nú hamlaði aðeins veðráttan því að hann fengi lúðurnar því að öll leyfi og vottorð væru frágengin.

Kr.Ben.

Morgunblaðið/Kr.Ben.

Í Keflavíkurhöfn liggja dragnótabátarnir vegna veðurs. Á meðan bíður norska tankskipið Gunnar Junior, efst til vinstri á myndinni, eftir lifandi lúðum sem fluttar verða til Skotlands. Á innfeldu myndinni er Peter Smith sjávarlíffræðingur.