Endurgreiðir ríkissjóði bætur vegna rangrar meðferðar DÓMSÁTT hefur verið gerð fyrir Borgardómi Reykjavíkur þar sem læknir fellst á að endurgreiða ríkissjóði bætur að núvirði um 3 milljónir króna, sem ríkissjóður greiddi ungri stúlku sem hlaut 40%...

Endurgreiðir ríkissjóði bætur vegna rangrar meðferðar

DÓMSÁTT hefur verið gerð fyrir Borgardómi Reykjavíkur þar sem læknir fellst á að endurgreiða ríkissjóði bætur að núvirði um 3 milljónir króna, sem ríkissjóður greiddi ungri stúlku sem hlaut 40% varanlega örorku vegna rangrar læknismeðferðar við handleggsbroti.

Í aprílmánuði árið 1978 datt fimm ára stúlka fram af stétt við heimili sitt á Stöðvarfirði og brotnaði á vinstri framhandlegg. Foreldrar stúlkunnar færðu hana til meðferðar á heilsugælustöðina á Stöðvarfirði þar sem þáverandi héraðslæknir á Fáskrúðsfirði var að störfum. Hann flutti stúlkuna til Fáskrúðsfjarðar, tók röntgenmyndir af handleggnum og bjó um hann í gipsi en sendi stúlkuna síðan heim. Fáum dögum síðar leituðu foreldrar stúlkunnar til hjúkrunarfræðingsins á Stöðvarfirði enda hafði stúlkan þá þrautir í handleggnum sem var blár og bólginn vegna blóðrásarhindrunar. Haft var samband við lækninn sem taldi ekki ástæðu til að hafast að og var ekkert að gert fyrr en í júnímánuði er afleysingamaður héraðslæknisins sendi stúlkuna til Reykjavíkur til meðferðar á sjúkrahúsi. Þrátt fyrir aðgerðir á sjúkrahúsi og eftirmeðferð tókst ekki að lagfæra handlegginn, sem er enn í dag boginn um úlnlið og olnboga og nýtist stúlkunni ekki nema að litlu leyti. Foreldrar stúlkunnar kærðu lækninn til landlæknis, sem veitti honum áminningu að rannsökuðu máli, og síðan krafði lögmaður þeirra ríkissjóð um bætur vegna mistaka læknisins. Læknaráð fjallaði um málið 1979 og komst að þeirri niðurstöðu að læknismeðferð hans hafi ekki verið tilhlýðileg. Ríkissjóður viðurkenndi bótaskyldu og greiddi bætur samkvæmt útreikningi tryggingafræðings, er örorkumat var mögulegt vegna aldurs stúlkunnar 1984.

Læknirinn gekkst ekki við því að hafa veitt ranga meðferð og neitaði ítrekað að endurgreiða ríkissjóði bæturnar eða allt þar til að læknaráð, á liðnu ári, svaraði fyrirspurnum borgardómara og lögmanna um málið á þann veg að öll læknismeðferð eftir töku röntgenmynda hafi verið ótilhlýðileg og röð mistaka læknisins. Að svo komnu máli gekk læknirinn til samninga við ríkissjóð og lauk málinu með dómsátt þar sem hann féllst á að verða við kröfu ríkissjóðs.