Bandaríkin Pantanir í iðnaði hafa aukist um 5,5% Mesta aukning milli mánaða í 18 ár Boston, frá Óla Birni Kárasyni, fréttaritara Morgunblaðsins. VÍSITALA helstu hagstærða hækkaði um 1,4% í júní og erþað mesta hækkun frá því í desember 1986.

Bandaríkin Pantanir í iðnaði hafa aukist um 5,5% Mesta aukning milli mánaða í 18 ár Boston, frá Óla Birni Kárasyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

VÍSITALA helstu hagstærða hækkaði um 1,4% í júní og erþað mesta hækkun frá því í desember 1986. Þá hækkaði vísitalan um 2,2%. Upplýsingar um nokkrar helstu hagstærðir sem birtar voru síðastliðinn þriðjudag benda til að hagvöxtur í Bandaríkjunum sé góður og stöðugur.

Pantanir í framleiðsluiðnaði jukust um 5,5% í júní, einkum vegna nýrra pantana frá varnarmálaráðuneytinu og meiri eftirspurnar eftir flugvélum. Þetta er mesta aukning í einum mánuði í 18 ár. Ef undan eru skildar pantanir frá hernum jukust pantanir í iðnaði um 2,7% í umræddum mánuði. Sala á einbýlishúsum var 8,4% meiri í júní en í undangengnum mánuði. Aukin sala á einbýlishúsum er ekki síst vegna þess að almenningur býst við að vextir eigi eftir að hækka síðar á þessu ári og því eru hús keypt fyrr en ella.

Hækkun vísitölu helstu hagstærða má einkum rekja til meiri pantana í iðnaði, hækkandi verðs á hlutabréfum og minna atvinnuleysi. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í 14 ár, en um 5,3% eru án atvinnu.

Þjóðarframleiðsla í Bandaríkjunum jókst um 3,1% á öðrum ársfjórðungi miðað við eitt ár. Hagfræðingar telja almennt að vöxtur efnahagslífsins verði góður og stöðugur það sem eftir er ársins og jafnvel fram á mitt næsta ár. Margir hafa hins vegar áhyggjur af því að mikill vöxtur efnahagslífsins þrýsti mjög á verðlag og að verðbólga eigi því eftir að aukast. Vegna þess er búist við því að bandaríski seðlabankinn eigi eftir að grípa til aðhaldsaðgerða og hækka vexti. Það ætti að hægja á hagvexti og leiða til stöðugra verðlags.

Kaupahéðnar á Wall Street tóku fréttunum á þriðjudag með jafnaðargeði og Dow Jones-hlutabréfa vísitalan (hlutabréf 30 traustra fyrirtækja) hækkaði aðeins um 0,71 stig og var 2131.22 stig við lokun hlutabréfamarkaðarins. Framan af degi lækkaði vísitalan og það var ekki fyrr en undir lok viðskiptanna á þriðjudag að hlutabréf tóku að hækka.