Kristján Hermann Sigurgeirsson fæddist í Reykjavík 21. nóvember 1956. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. maí 2022.

Kristján var sonur Sigurgeirs Kristjánssonar og Sólveigar Berndsen. Systkini Kristjáns eru Gunnar, Sigurður, Sigurgeir, Margrét og Kjartan Már.

Kristján kvæntist hinn 17. júlí 1982 Sigrúnu Tryggvadóttur, f. 1960. Börn Kristjáns og Sigrúnar eru: 1) Sigurgeir, f. 1982. Kærasta hans er Ásdís Dagmar Þorsteinsdóttir, barn þeirra er Kristján Elís. 2) Hrafnhildur, f. 1984. Kærasti hennar er Vignir Örn Arnarson. Börn Hrafnhildar eru Kristján Mikael Hrafnhildarson, Viktoría Rós Hrafnhildardóttir, Vilhelm Snær Jóhannsson og Katrín Sara Sigurðardóttir. Barnabörn eru fimm talsins.

Kristján ólst upp til að byrja með á Flókagötu í Reykjavík en flutti fljótlega ásamt fjölskyldu sinni í Tjarnarflöt í Garðabæ. Hann útskrifaðist sem byggingartæknifræðingur frá Tækniskólanum árið 1987. Kristján vann við járnabindingar og kom að rekstri byggingarfyrirtækja. Síðari ár var hann byggingarstjóri í fjölmörgum verkefnum.

Kristján verður jarðsunginn frá Garðakirkju í dag, 13. maí 2022. Hefst athöfnin klukkan 13.

Nú er pabbi farinn í sumarlandið. Líklegast að byggja fasteignir eða að sjá um byggingarstjórn á þeim. Hann er ábyggilega í gulum stígvélum, rifnum gallabuxum og flíspeysu með trillu og bindivír í hendi. Með járnaryð og mótaolíu frá toppi til táar. Alveg eins og hér. Hann spjarar sig ábyggilega vel hinum megin. Hann er nefnilega duglegur og ósérhlífinn. Samviskusamur með eindæmum, úrræðagóður, maður sátta og samninga, yfirdrifið heiðarlegur og heilt yfir frábær einstaklingur. Svoleiðis fólk spjarar sig hinum megin alveg einsog hér hjá okkur. Mjög margir tengja þessar lýsingar við pabba.

Hugsandi til baka þá eru fyrstu minningar mínar af pabba þær að hann er að svæfa mig og ég rígheld í puttann á honum og neita að sleppa. Á hverju kvöldi eru mamma og pabbi kysst góða nótt og þá finnur maður fyrir skeggbroddunum. Pabbi var já maðurinn. Ef maður vildi eitthvað þá spurði maður hann. Ef honum fannst eitthvað bogið við beiðnina þá átti maður að spurja mömmu. Þá var best að gefast bara strax upp. Þau voru gott teymi í uppeldinu á ólíkan hátt.

Þeir sem þekkja pabba hafa séð bílakostina hans þegar hann ók um á vinnustaðina. Fyrst var það Honda Civic sem honum tókst að halda á lífi í 17 ár en svo Toyota Yaris sem var 19 ára gamall þegar honum var fargað á þessu ári. Pabbi var nefnilega minimalisti. En án þess þó að ætla það neitt sérstaklega. Ég þurfti nokkrum sinnum að nota bíldrusluna og ég var aldrei öruggur um að komast lífs af. Hann stundaði það t.d. að þegar hlutir eins og púst og stuðarar voru að hrynja af bílnum þá tók hann bindivír og trillu og festi þetta upp. Svo skrölti í þessu við akstur og ég var bara að bíða eftir dauðanum í hvert sinn.

Pabbi var einhvern veginn svo nægjusamur. Hann langaði ekkert í dýra bíla, risasjónvörp eða dýran fatnað. Hann kaus mun fremur góða bók, helst notaða. Hann las mikið sérstaklega á jólunum þegar bækurnar streymdu til hans. Það vissu allir hvað átti að gefa honum og það var alltaf það sama. Bók, rauðvín eða sokkar.

Þrátt fyrir ofangreint lagði hann mikið á sig í vinnu. Stundaði alltaf rekstur og vann fyrir sjálfan sig. Fyrst með fjölskyldunni undir merkjum Járnbendingar og síðar JB Byggingarfélags. Síðar með öðrum en þar fór ég að vinna með honum þá nýútskrifaður úr lögfræði. Hann hreinlega sogaði mig með sér í þetta helsta áhugamál sitt. Samband okkar varð gríðarlega náið með mörgum símtölum á dag og svo var fundað í Tjarnarbrekkunni statt og stöðugt um ný og núverandi verkefni og framtíðina. Við þessi skemmtilegu fundarhöld gengum við mikið um gólf hvor á eftir hinum. Við tókum lítið eftir hlæjandi áhorfendum að þessu rugli. Ef annar var í símanum labbandi um gólf þá gekk hinn á eftir til að hlusta. Ef sá sem hlustaði fékk athyglisverðara símtal þá snérist leikurinn við. Það fyndna er að þegar pabbi var kominn í hjólastól þá breyttist þetta ekkert. Hann rúllaði stólnum á eftir mér og ég gekk svo á eftir honum. Þetta var eitthvað svo gaman að hafa svona sterkt áhugamál sameiginlegt.

Veikindi pabba hófust 2018 en allt fram á dauðadag sinnti hann sinni vinnu af samviskusemi. Eftir háalvarlegan fund á krabbameinsdeildinni á síðasta ári þá var hans helsta vandamál að netsamband á spítalanum væri lélegt. Hann hefði næstum því ekki náð að panta steypu fyrir strákana. Hann hætti ekkert að sinna sínum skyldum þó fárveikur væri. Hann hamaðist t.d. enn á ryksugunni í Tjarnarbrekku með óbærilegum hávaða. Svo endaði hann í hjólastól en reis uppúr honum og byrjaði aftur að ryksuga. Þrautseigjan var slík að viðurnefnið kakkalakkinn var farið að festast á hann. Lífsviljinn svo sterkur og það skyldi aldrei, aldrei gefist upp. Þetta er sama hugarfarið og hann hafði til vinnu. Veðurfar hafði t.d. engin áhrif á hans afköst í vinnu. Ásetningurinn var einbeittur og framleiðnin og þekkingin hans í ævistarfinu verður að mínu mati aldrei toppuð.

Pabbi skilur eftir sitt handbragð á yfir 300 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Einhverjir hafa nefnt mun hærri tölur. Járnabinding hans er inni í steypu í Egilshöllinni, Ráðhúsi Reykjavíkur, flugstöðinni, Gullinbrúnni, virkjunum og fleiri stöðum. Eitt af hans síðustu verkum sem byggingarstjóri var veitingastaðurinn Sjáland í Garðabæ sem er bygging sem mikill sómi er að í bænum og fyrir mig smá minnisvarði um hann. Mikil sköpun, þekking og reynsla hverfur með honum. Það er missir fyrir alla því hann átti mörg ár eftir í vinnu.

Með persónuleika sínum og verkum hefur pabbi áunnið sér alla þá miklu virðingu sem honum hefur hlotnast frá samferðamönnum sínum. Það hef ég fundið sterkt eftir mörg símtöl og samtöl frá andláti hans. Sem sonur hans er ég ótrúlega stoltur af honum og þakklátur fyrir að hafa átt svona fyrirmynd og fengið kennslu í gangi lífsins frá honum. Á sama tíma sakna ég hans gífurlega.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Ég gleymi þér aldrei og hlakka til að hitta þig hinum megin.

Þinn sonur


Sigurgeir.