Ólafur Jóhann Sigurðsson Þegar skáld deyja og fiðla þeirra hljóðnar verður líf okkar sem eftir sitjum fátækara, undraveröld mannsandans hefur smækkað. Aðrir deyja og lífið heldur sinn gang: Ungir bændur taka við að yrkja jörðina; sjómenn ráðast í auð rúm og verkafólk er ráðið í laus störf. Þótt einstaklinga sé sárt saknað, þá kemur maður í manns stað.

En það kemur ekkert annað skáld í stað þess sem kveður. Það yrkir ekkert nýtt skáld óortu ljóðin þess látna, og hálfunnin skáldsaga verður ekki kláruð af öðrum. Við hættum að bíða í eftirvæntingu eftir nýju verki, því við vitum að það verður aldrei skrifað. Með skáldi kveðjum við ekki aðeins einstakling heldur ákveðinn heim sem við vorum þátttakendur í.

Andlegt ríkidæmi þjóðarinnar er skáldi fátækara. Ólafur Jóhann Sigurðsson er allur. Skáld hins lygna Álftavatns, lyngása og brokmýra og nýgræðings í vorkaldri jörð, hefur lagt frá sér pennann fyrir fullt og allt. Þetta undursamlega næmi á litbrigði hrjóstrugrar jarðar, á ævintýrið og veruleikann og mannlegan hjartslátt, sem er allstaðar til staðar, er einstakt í íslenskum skáldskap.

Þótt Ólafur Jóhann hafi aldreiverið tekinn í tölu þjóðskálda, þá var þjóðin örlög hennar og saga sífellt viðfangsefni hans.

Vonlaus barátta heiðarbúans við náttúruöfl og fátækt, kreppan, rótleysið á mölinni og smán hinnar svívirtu og sviknu þjóðar ganga í gegnum skáldskap hans eins og rauður þráður. Allt þetta hjúpaði hann lýrískum undravef íslenskrar náttúru. Hjá þjóðinni sló hjarta hans, þar fann hann til, hér tók hann afstöðu.

Ólafur Jóhann var jafnvígur á skáldsögur, smásögur og ljóðagerð. Á seinni árum varð ljóðið, sem farvegur ljóðrænnar tjáningar og innileiks fyrirferðarmeira, í skáldskap hans.

Sumir sakna þess að Ólafur Jó hann skyldi ekki takast meira á við snarpar og hrikalegar andstæður, en sennilega hefur hin ljóðræna fiðla verið of viðkvæm, vefjaþræð irnir of fínir til að takast á við grófleik og hrotta stríðandi tíma.

Ég kynntist manninum Ólafi Jó hanni ekki fyrr en alllöngu eftir að ég hafði þekkt skáldið Ólaf Jóhann. Þá hafði hann í smíðum skáldsöguna Seið og hélog og ljóðabókin Virki og vötn lét hann aldrei í friði, eins og hann sagði mér. Um langan tíma hafði ekki komið skáldsaga fráhendi Ólafs og biðu lesendur hans fullir eftirvæntingar eftir þessari nýju skáldsögu.

Útkoma hennar var stórviðburður á íslenska bókamarkaðinum. Þá var og skollinn á heimur auglýs ingaprjáls og fjölmiðlar vöktuðu hvert fótspor!

Þeir tímar, þegar jákvæð umsögn Kristins E. dugði til að selja bók, voru liðnir. Það var Ólafi heitnum ekki auðvelt að laga sig að þessum breyttu aðstæðum, en útgerðin, einsog hann kallaði það, tókst vel, móttökurnar voru prýðilegar.

Í framhaldi af þessu árangursríka samstarfi var ákveðið að gefa út heildarútgáfu af verkum hans.

Á þessum árum áttum við saman marga samræðustund þar sem spjallað var um stjórnmál, útgáfumál, skáldskap og annað sem á fjörur okkar rak.

Einu sinni spurði ég hann, hvert verka hans væri honum kærast. Hann hikaði en svaraði síðan eftirnokkra þögn: "Hreiðrið - það stendur mér næst." Það mun þó vera "Bréf séra Böðvars" sem er hans þekktasta verk innanlands sem utan.

Ólafur Jóhann var sósíalisti að lífsskoðun, sem ásamt því veganesti, sem kreppan og sérstæðar aðstæður heimsmála gáfu ungum mönnum, mótaði afstöðu og lífsviðhorf hans.

Sigurganga nasismans í Þýskalandi hlaut að kalla á menningarlegt endurmat allra hugsandi manna. Háskinn og hyldýpið voru of nálæg til að hægt væri að komast hjá því að taka afstöðu. Þær vonir sem bundnar voru við hin ungu Ráðstjórnarríki, sem í senn var eina tilraunin til gera að raunveruleika síungan draum mannkyns um stéttlaust alþýðuríki, og harðasta andstaðan við Hitler-Þýska land hlaut að fylkja mönnum saman til nýrrar liðsskipunar. Hann var félagi í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og einna af höfundum Rauðra penna.

Ekki er mér kunnugt um hvort Ólafur Jóhann sat stofnfund Máls og menningar þann 17. júní 1937, en hann gerðist örugglega félagi þar það sama ár og í félagsráði var hann til æviloka.

Allt frá því að "Fjallið og draumurinn" kom út árið 1944 hafa öll hans helstu verk, að frátöldum tveimur ljóðabókum, komið út hjá Máli og menningu.

Fyrir hönd Máls og menningar vil ég hér að leiðarlokum þakka Ólafi Jóhanni fyrir samfylgdina, tryggð hans við félagið og frjótt samstarf í hálfan fimmta áratug.

Sjálfur þakka ég honum og konu hans, Önnu Jónsdóttur, einlæga og góða vináttu og mjög ánægjuleg kynni.

Aðstandendum öllum votta ég innilega samúð mína.

Þröstur Ólafsson