Ólafur Jóhann Sigurðsson rithöfundur Það er mönnum einsog Ólafi Jó hanni sem íslenskar bókmenntir eiga orðstír sinn að þakka. Höfundum með hæfileika til að skapa eftirminnilegan skáldskap úr sínum viðfangsefnum og þar að auki kraft og áræði til að helga sig allan jafn ójarðnesku fyrirbæri og bókmenntirnar eru. Enda er svo að sjá, þegar litið er yfir verkaskrá Ólafs Jó hanns, að hann hafi snemma verið ráðinn í að skrifa hvað sem það kostaði; sextán ára var hann þegar fyrsta bókin kom á markaðinn, og svo fylgdu tvær í viðbót á næstutveimur árum. Innan við þrítugt hafði hann skrifað ekki færri en níu bækur, og þar á meðal nokkrar sem verða að teljast til merkari bókmenntaverka þessa tímabils: Fjallið og draumurinn, þessi fjögur hundruðsíðna skáldsaga frá 1944; Litbrigði jarðarinnar frá 1947, sem kannski mætti kalla unglingabók þótt hugtakið væri varla þekkt þá; í það minnsta gæti metnaður höfundarins verið allri greininni fyrirmynd, enda hefur bókin verið þýdd og gefin út víða um heim. Þá er ekki síður ástæða til að minnast á smásagnasöfnin þrjú: Kvistir í altarinu, frá '42, Teningar í tafli, frá '45 og Speglar og fiðrildi, frá '47. Í þessum bókum er að finna perlur sem verða að teljast með því besta sem skrifað hefur verið af smásögum á íslensku; þar á meðal má nefna sögur sem flestir af minni kynslóð hafa kynnst á leið í gegnum skólakerfið og gerðu mörgum þá píslargöngu léttbærari, sögur einsog Hengilásinn, um sveitadrenginn sem fer með aleiguna í kaupstaðinn til að kaupa helst allt í veröldinni en kemur út með einn hengilás sem hann hefur ekkert að gera við, eða sagan Reistir pýramídar um það þegar Friðmundur Engiljón, vitrasti smiður í heimi, kemur á bæinn tilað smíða nýja hlöðu og nýtt fjós, og kennir sveitapiltinum í leiðinni að skilja dularfyllstu byggingarlist jarðarinnar.

Þetta var á einhverjum mestu umbrotatímum Íslandssögunnar, tímum hernámsins sem linnti svoekki þegar stríðinu lauk; árunum þegar endanlegur sigur vannst í fullveldisbaráttunni, sigur sem þó var örlítilli beiskju blandinn vegnaþess að ýmsum þótti sem erlent stórveldi, og ekki það menningarlegasta, vildi jafnharðan kaupa það frelsi sem þjóðinni áskotnaðist, og það sem verra var: margir hérlendis virtust reiðubúnir að selja allt sem borgað yrði fyrir með dollurum. Þessi barátta, baráttan fyrir varðveislu sjálfs þjóðernisins, setti mjög mark á skoðanir og verk Ólafs Jó hanns, einsog sjá má af hinum stóra sagnaflokki hans sem hófst með Gangvirkinu, '55 og lauk svo með Seiður og hélog '77 og Drekar og smáfuglar '83. Þótt þetta varnarstríð fyrir varðveislu gamalla gilda tæki stundum á sig þá myndað verið væri að agnúast út í nú tímann sjálfan, og að hrakspár margra góðra höfunda og menningarvita um örlög þjóðar og tungu rættust ekki, sem betur fer, þá má hinu ekki gleyma að við værum eflaust verr stödd í þeim efnum ef jafn skilvirkir baráttumenn og Ólafur Jóhann hefðu ekki gefið þessum málum gaum.

Ég get ekki sagt að ég hafi kynnst Ólafi Jóhanni persónulega. Við hittumst aðeins einu sinni. Það var í maí fyrir þremur árum, Rithöfundasambandið efndi til samkomu sem kallaðist Dagur ljóðsins, í fyrsta sinn, og daginn fyrir samkomuna uppgötvaðist að það hafði gleymst að póstleggja boðsmiða tilnokkurra heiðurs- og mektarmanna, þar á meðal Ólafs Jóhanns. Ég var yngsti maðurinn í stjórninni og var gerður út af örkinni ásamt tveimur öðrum álíka grænjöxlum til að fara og afhenda þessa boðsmiða persónulega. Hjá Ólafi Jó hanni við Suðurgötuna fengum við skemmtilegar móttökur; hann varí aðra röndina hinn þverasti, vildi ekki sjá þennan boðsmiða og hafði uppi hæðnisorð um þann hégóma og þá fordild að lesa hástöfum yfir heilan bíósal einhver ljóð, sem væru í eðli sínu best til þess fallin að njóta í einrúmi. Á hinn bóginn var hann höfðinglegur heim að sækja, bauð okkur bláókunnugum til stofu, reiddi kaffi og konfekt og skemmti okkur með sögum lengi kvölds.

Ég hef hér aðeins getið um brot af verkum Ólafs Jóhanns, og ég læt einnig öðrum eftir að tíunda viðurkenningar sem hann hlaut, af ýmsu tagi. Ég nefni það eitt að það var Rithöfundasambandi Íslands til mikils sóma að hafa hann sem heiðursfélaga undanfarin ár. Sem formaður þeirra samtaka, og sem óbreyttur lesandi og aðdáandi verka Ólafs Jóhanns kveð ég hann með söknuði og votta aðstandendum samúð.

Einar Kárason