Magnea Hrönn Örvarsdóttir fæddist 3. janúar 1972. Hún lést 17. ágúst 2022.

Foreldrar hennar eru Erla Kristín Gunnarsdóttir, f. 14. nóvember 1945, og Örvar Sigurðsson, f. 28. október 1945.

Bróðir hennar er Gunnar, f. 8. september 1966.

Börn Magneu eru Lúkas Örvar Blurton, f. 7. maí 2001, og Indíana Líf Blurton, f. 14. júlí 2003. Faðir þeirra er Richard Lee Blurton, f. 1. október 1972.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku Magga Hrönn.

Þá fór þetta á endanum svona.

Síðan ég frétti af ótímabæru andláti elsku vinkonu minnar hefur hugurinn leitað til baka til tíma sem virðist nú einhvern veginn órafjarri en samt svo nýliðinn og til menningar sem virðist í dag framandi ef ekki beinlínis fjandsamleg fólki.

Samt lifir því miður enn í glæðum þessarar menningar.

Við Magga velktumst um á þessum tíma og í þessari menningu á menntaskóla- og háskólaárunum. Menningu sem gaf lítið fyrir velferð kvenna, hvað þá ungra kvenna. Ég nefni þetta fyrir samhengi við lífshlaup elsku Möggu minnar því fólk verður fíkninni ekki að bráð í tómarúmi. Ekki af því bara.

Að þessu sögðu þá fór það samt ekki fram hjá neinum sem kynntist Möggu á þessum árum að þarna fór manneskja sem var bjart yfir og átti framtíðina fyrir sér.

Alveg frá því að ég kynntist Möggu og þar til yfir lauk fylgdist hún vel með tískustraumum. Þær mæðgur deildu þessu áhugamáli og fóru gjarnan saman að versla - enda voru þær alla tíð mjög samrýndar.

En jafnvel þótt Magga sjálf hafi stundum virst ónæm fyrir því þá kallaði stíliserað sem og náttúrulega fagurt útlit hennar einfaldlega á
athygli fólks. Hún átti sér framandi rætur og stakk því alltaf áberandi í stúf við okkur lágvaxna veðurbarða hangikjötsfólkið.

Magga var líka krítísk á hvað hún las og hlustaði á og bara yfirhöfuð svo einlæglega forvitin um tíðarandann og samferðafólk sitt að ég man ekki eftir stund með henni sem var ekki hlaðin samtölum um lífið og tilveruna, tónlist og tísku. Minningar um óteljandi bíó- og tónleikaferðir, djamm á 22 og Kaffibarnum - kaldar pítsur og ferð á Aðalvídeóleiguna á Klapparstíg á sunnudögum.

Ég man þennan tíma sem tíma spennu og tilhlökkunar yfir því næsta sem við ætluðum að gera eða hláturskasti yfir því sem við vorum nýbúnar að afreka. Framtíðin var um það bil að bresta á og allt virtist okkur fært.

Á þessum tíma tók Magga að sér ýmis fjölmiðlastörf enda ætlaði hún sér alltaf að skrifa eða starfa við eitthvað skapandi.

Þessi tími háskólaáranna og ferill hennar í fjölmiðlum lifði alltaf mjög sterkt með henni og hún talaði oft um hann með söknuði. Oft var hreinlega eins og hún væri jafnvel enn þar. Þetta var greinilega tími sem hún mat mikils og er gott að hugsa til þannig.

Því auðvitað var Magga ekki bara harmsaga. Eftir hana stendur heimspekiritgerð úr háskólanáminu, hún ritstýrði Stúdentablaðinu um miðbik tíunda áratugarins við góðan orðstír auk þess sem eftir hana liggur fjöldi fjölmiðlaumfjallana sem að finna má á timarit.is.

Það er þessi tími og þessi ferill sem verður minnisvarðinn minn um eldkláru og hæfileikaríku vinkonu mína sem ég hef saknað svo lengi.

Við Magga héldum alltaf einhverju sambandi eftir háskólaárin en ábyrgðin við að eignast börn og fullorðnast tók eðlilega við og tíminn fór í annað.

En það var líka í kringum þennan tíma, um og upp úr aldamótum, sem var eins og Magga hefði flækt sig eða fest sig í einhverju sem hún gat ekki útskýrt eða fundið rótina að.

Eftir á að hyggja er eins og hún hafi verið í einhvers konar gíslingu - undir álögum einhvers sem hún gat svo aldrei losað sig frá. Og jafnvel þótt hún þráði ekkert heitar en að losna barst henni aldrei sú hjálp sem hún hefði þurft.

Með tímanum urðu álögin sífellt þyngri og sjáanlegri hverjum sem vera vildi. Það fór ekki á milli mála að elsku Magga Hrönn var að hverfa frá okkur og það hefur verið þyngra en tárum taki að sjá yndislega vinkonu verða undir í baráttunni við þau öfl sem á endanum lögðu hana.

Svo nú er ekki annað í boði en að líta svo á að elsku Magga Hrönn hafi loksins losnað undan álögunum - að andi hennar sé nú frjáls. Það er eina huggunin gegn þessum harmi.

Þjáningum hennar er lokið og hún hefur nú verið lögð til hinstu hvílu.

Megi hún hvíla í friði.

Magga Hrönn hefur alltaf átt stað í hjarta mínu og ég held áfram að sakna hennar.


Börnum Magneu sem og fjölskyldunni allri og öðrum aðstandendum votta ég mína innilegustu samúð.

Sara Stef.