Arnbjörg Sigurðardóttir fæddist í Hafnarfirði 25. nóvember 1952. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 10. september 2022 eftir stutt veikindi.

Arnbjörg var dóttir Sigurðar Lárusar Árnasonar, f. 23.10. 1921, d. 5.3. 1969 og Jólínar Ingvarsdóttur, f. 1.11. 1924, d. 10.12. 2004. Bræður Arnbjargar voru Árni Vilberg, f. 8.10. 1945, d. 13.1. 2019, og Ingvar Jóhann, f. 23.12. 1949, d. 2.4. 1963.

Eftirlifandi eiginmaður Arnbjargar er Ástgeir Þorsteinsson, f. 6.9. 1950.

Arnbjörg og Ástgeir eignuðust þrjú börn: 1) Sigurveig, f. 25.1. 1976, búsett í Kaupmannahöfn. Eiginmaður hennar er Erlingur Örn Bartels Jónsson og synir þeirra eru Karl Matthías Bartels, f. 2013 og Jóhann Ágúst Bartels, f. 2018. 2) Lína Dögg, f. 20.5. 1980, búsett í Reykjavík. Eiginmaður hennar er Barry Lennon og synir þeirra eru Thomas Lennon, f. 2013 og Nói Lennon, f. 2018. 3) Sigurður, f. 30.3. 1982, búsettur á Selfossi. Eiginkona hans er Harpa Kristín Hlöðversdóttir og börn þeirra eru Arnbjörg Ýr, f. 2007, Ingvar Hrafn, f. 2010 og Álfheiður Edda, f. 2014.

Arnbjörg ólst upp á Hólabraut í Hafnarfirði og gekk í Lækjarskóla og síðar Flensborg. Að skólagöngu lokinni bjó hún um tíma í París og á Mallorca á Spáni. Fljótlega eftir heimkomu kynntist hún eiginmanni sínum, Ástgeiri Þorsteinssyni, og gengu þau í hjónaband á tvítugsafmælisdegi Arnbjargar í nóvember 1972. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau á Öldugötunni í Reykjavík og árið 1977 fluttu þau á Selfoss, þar sem þau bjuggu til ársins 1989. Þaðan lá leiðin í Bakkahverfið í Breiðholtinu og í byrjun árs 1996 fluttu þau að Suðurgötu 96 í Hafnarfirði þar sem þau hafa búið alla tíð síðan.

Arnbjörg starfaði við hin ýmsu verslunar- og þjónustustörf, meðal annars á Hótel Sögu og Tösku- og hanskabúðinni. Hún rak verslunina Skógluggann í Hafnarfirði um tíma. Fyrir u.þ.b. 20 árum hóf hún störf í Sundlaug Suðurbæjar í Hafnarfirði og síðustu árin þar til hún veiktist starfaði hún í Rokku í Fjarðarkaupum.

Líkt og móðir hennar var Arnbjörg var mikil hannyrðakona og naut fjölskyldan góðs af hæfileikum hennar. Hún var alltaf með eitthvað spennandi á prjónunum, hvort sem það voru kjólar eða ullarsokkar á barnabörnin. Arnbjörg var engin kyrrsetukona, þrátt fyrir allar setustundirnar yfir prjónunum, því hún synti flesta daga og fór í langa göngutúra með hundinn Garúnu, sem þau hjónin tóku að sér síðasta haust. Arnbjörg var mikill tónlistarunnandi og síðustu ár fór hún reglulega á tónleika m.a. með Sigur Rós, Todmobile og Baggalút með börnum sínum. Undanfarin ár eyddu þau hjónin drjúgum hluta sumarfrísins keyrandi um landið með hjólhýsið sitt. Barnabörnin áttu og hug og hjarta Arnbjargar. Þau voru alltaf velkomin í styttri og lengri heimsóknir og amma sá alltaf til þess að það væri apaís í frystinum og Sæmundur í sparifötum í skúffunni, svo þau hefðu eitthvað að gæða sér á.

Útför Arnbjargar fer fram í dag, 22. september 2022, kl. 13 frá Hafnarfjarðarkirkju.

Elsku hjartans mamma mín.

Ég á svo erfitt með að skilja það að nú sitji ég hér og skrifi um þig minningargrein. Í nóvember í fyrra dansaði ég með ykkur pabba í brúðkaupinu mínu. Mér finnst bæði sárt og erfitt að skilja þetta. Ég sem hélt að við ættum eftir allan heimsins tíma og að í nóvember næstkomandi myndum við fagna 70 árunum þínum og 50 ára brúðkaupsafmæli ykkar pabba. Allt í einu er allt breytt og lífið búið að taka nýja stefnu.

Veikindi þín komu okkur öllum í opna skjöldu. Þú sem aldrei kvartaðir og varst alltaf sú sem hélt áfram sama hvað. Mér finnst samt gott að hugsa til þess að þú hafir fengið að kveðja fljótlega eftir að heilsan var algjörlega farin enda var það ekki þinn stíll að liggja fyrir og vera upp á aðra komin. Eins sárt og það var að kveðja var ég einnig þakklát að þú fengir þína hvíld þegar svona var komið.

Ég á svo ótal margar góðar minningar um þig, elsku mamma, að ekki verður hægt að telja upp hér nema brotabrot. Þú varst kletturinn minn en líka besta vinkona mín. Ég man varla eftir því að hafa ekki átt við þig í það minnsta eins og eitt símtal dag hvern eftir að ég fluttist heim til Íslands árið 2011. Símtölin okkar voru auðvitað ekki um neitt oftast nær en það var bara svo gott að heyrast og tala um ekki neitt merkilegt. Á meðan ég bjó í Hollandi létum við netpóstana duga og einstaka skype-samtöl en ég fann strax þegar ég var flutt heim hvað það var gott að geta hringst á hvenær sem var og það gerðum við líka óspart þú og ég. Ég á eftir að sakna þess svo mikið að geta ekki hringt aðeins í þig, elsku mamma, þó ekki sé nema bara til þess að segja þér frá einhverju fyndnu sem valt upp úr Nóa á leiðinni í leikskólann þann morguninn. Við áttum líka ófá skemmtileg kvöld saman yfir góðum drykk þar sem við gátum hlegið og dansað endalaust. Hvaða mamma tekur fullan þátt í gæsun dóttur sinnar og fer í karókí með fullorðinni dóttur sinni? Það gerðir þú, elsku mamma, en ekki hvað.

Þú studdir mig í einu og öllu en varst líka alltaf tilbúin að leiðbeina mér og gagnrýna þegar þér fannst þörf á því. Ég vissi alltaf að ég gæti stólað á þína hreinskilni. Eins og til dæmis þegar ég var að leita að brúðarkjól og ég kom í Suðurgötuna að sýna þér enn einn kjólinn sem ég var handviss að væri sá rétti. Þú sagðir strax hreint út að þér þætti þessi kjóll engan veginn vera sá rétti fyrir mig. Það var líka alveg rétt hjá þér þegar upp var staðið. Þú varst okkar stoð og stytta þegar ég fór í viðbótarnám verandi í fullri vinnu og með lítið barn. Alltaf tilbúin að passa Thomas okkar og hvetja mig áfram sama hversu þreytt ég var og við það að gefast bara upp á þessu námi og hreinlega hætta bara. Þið pabbi hvöttuð mig áfram alveg þangað til ég útskrifaðist sem fjölskyldufræðingur tveimur árum síðar og ég er ykkur ævinlega þakklátt.

Þó að ég væri orðin fullorðin kona og móðir sjálf þá hættir þú aldrei að vera mamma mín. Þegar ég hafði til dæmis fengið ítrekaðar ælupestir sem enginn annar á mínu heimili fékk endaði það þannig að þú hreinlega mættir heim til mín á mánudagsmorgni og heimtaðir að ég færi á bráðamóttökuna. Mér fannst það algjörlega út í hött enda var ég bara með ælupest! Þú hélst nú ekki og að nú þyrfti bara að skoða þetta nánar. Þú gafst þig ekki og fórst með mig á bráðamóttökuna. Þar kom svo í ljós að gallblaðran mín var handónýt og sýkt. Ég þurfti að liggja inni í nokkra daga í bið eftir aðgerð og alla dagana komstu til mín og gladdir mig með bók eða tímariti, elsku mamma mín. Næstsíðustu nóttina sem þú lifðir sat ég yfir þér á spítalanum. Nóttin var erfið og þú fórst ítrekað í andnauð seinni hluta nætur. Þú hættir samt aldrei að vera mamma mín. Alla nóttina varstu að huga að mér. Athuga hvort mér væri kalt, hvort ég þyrfti kannski sæng eða hvort ég hefði náð að sofna eitthvað. Á meðan þú varst að berjast við að ná andanum gafstu þér tíma til þess að huga að mér. Elsku mamma, þú varst einfaldlega sú allra besta, alltaf.

Þú og Barry minn áttuð líka einstaklega gott og hlýtt samband. Þú tókst honum opnum örmum frá fyrsta degi og hlúðir að honum eins og hann væri þinn eigin sonur. Þið gátuð endalaust grínast saman og þú lagðir þig alla fram við að kenna honum íslensku og áttir klárlega stóran þátt í því að hann lærði íslenskuna ásamt pabba. Mér þótti alltaf vænt um sambandið ykkar Barrys og hann á eftir að sakna þín sárt, það veit ég.

Mér fannst þú alltaf heimsins besta amman í öllum alheiminum. Þú elskaðir og dýrkaðir drengina okkar Barrys sem og öll hin barnabörnin þín. Thomas og Nói vissu fátt skemmtilegra en að koma á Suðurgötuna til ömmu og afa enda voru þeir þá í allra fyrsta sæti og dekrað við þá út í eitt. Þið Thomas minn áttuð líka algjörlega einstakt samband þar sem hann er eldri og fékk lengri tíma með þér. Söknuðurinn hans er sár en ég veit líka að hann á allar fallegu minningarnar um þig til þess að ylja sér við. Við Barry munum líka vera dugleg að halda minningu þinni á lofti með því að tala um þig og segja drengjunum okkar frá þér. Þannig munu þeir ekki gleyma elsku dýrmætu ömmu.

Elsku mamma, nú þarf ég víst að kveðja þig og það geri ég með miklum trega því mig einfaldlega langar ekki til þess. Þó ekki væri nema bara eitt símtal í viðbót eða einn kaffibolli með þér yfir prjónunum þar sem þú aðstoðar mig við nýjasta prjónaverkefnið mitt. Það eru þessir einföldu hlutir sem ég á eftir að sakna allra mest. Lífið með þér var bara svo skemmtilegt og ég hreinlega kann ekki á lífið án þín. Það mun taka tíma að læra á þetta nýja líf en ég veit innst inni að þú verður alltaf áfram hjá mér á þinn einstaka hátt. Það verður bara í öðru formi. Svo sagði Thomas mér líka um daginn að ég gæti alveg hringt í þig en þá bara svona í þykjustunni. Kannski á ég eftir að gera það. Hver veit. Eitt veit ég fyrir víst að ég ætla aldrei að gleyma þér og ég ætla alltaf að halda áfram að hlæja og njóta lífsins því það er það sem þú hefðir viljað. Þú hættir aldrei að hlæja eða grínast undir lokin sama hvað. Ég ætla að taka það með mér út í lífið því eitt er víst að hlátur er bæði nærandi og læknandi.

Sofðu rótt, elsku mamma, og vertu dugleg að halda áfram að njóta hvar sem þú ert. Við hittumst svo aftur þegar að því kemur. Það er ég viss um.

Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þín dóttir,

Lína.

Lína Dögg Ástgeirsdóttir