Guðmundur Friðrik Sigurðsson fæddist í Hafnarfirði 28. júní 1946. Hann lést á Spáni 11. október 2022.

Foreldrar hans voru Jóna Sigríður Gísladóttir, f. 24.6. 1923, d. 27.1. 2020, og Sigurður Magnús Guðmundsson, f. 30.1. 1923, d. 8.8. 2010. Eftirlifandi systkini Guðmundar Friðriks eru Axel, Valgerður, Ragnheiður, Björg og Aðalheiður Dóra.

Guðmundur kvæntist 14. maí 1995 Kristínu Halldóru Pálsdóttur, f. 14. maí 1945, d. 10. september 2020.

Guðmundur var áður kvæntur Bryndísi Torfadóttur. Sonur þeirra er Jónas Hagan, f. 5.11. 1969, giftur Jóhönnu Sævarsdóttur, f. 25.10. 1985. Saman eiga þau tvær dætur, Maríu Íseyju, f. 24.12. 2007, og Evu Sóleyju, 14.12. 2014. Af fyrra hjónabandi á Jónas þrjár dætur, Bryndísi Thelmu, f. 22.9. 1994, og tvíburana Særúnu Björk og Kristínu Önnu, f. 14.9. 2001.

Með Ásu Jónsdóttur eignaðist Guðmundur Friðrik soninn Magnús Friðrik, f. 10.2. 1985. Hann er giftur Becky Guðmundsson, f. 14.4. 1981, dóttir þeirra er Sólveig Ása f. 8.11. 2017.

Guðmundur lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands og starfaði fyrir Flugleiðir í Danmörku áður en hann lauk löggildingu til endurskoðanda. Hann starfaði sem endurskoðandi mestan sinn starfsferil. Guðmundur var virkur í félagsstörfum, sér í lagi fyrir íþróttafélagið Hauka í Hafnarfirði og Golfklúbbinn Keili, ásamt stjórnarstörfum fyrir Handknattleikssamband Íslands og Golfsamband Íslands. Guðmundur var sömuleiðis félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar.

Guðmundur verður jarðsunginn frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 3. nóvember 2022, klukkan 15.

Elsku yndislegi tengdapabbi minn er fallinn frá.

Fréttir af andláti hans komu eins og þruma úr heiðskíru lofti enda hann staddur í góðu yfirlæti í golfferð á Spáni með góðum vinum sínum og væntanlegur til okkar í Florida eftir aðeins nokkra daga. Afaherbergið uppábúið og uppáhaldssúkkulaðiísinn tilbúinn í frystinum.
María og Eva biðu spenntar eftir því að taka á móti honum og sérstaklega ungi golfarinn, golfaraafsprengið hún María sem ætlaði að sýna afa sínum glæsilega nýja æfingasvæðið og spila loksins hring bara þau tvö saman á Lake Nona.

Minningarnar hrannast upp og þakklæti er mér efst í huga. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman, þakklát fyrir hlýjuna, sögurnar, stuðninginn, allar dásamlegu samverustundirnar með þeim hjónum hvort sem það var á Íslandi eða erlendis.

Þakklát þér, elsku Guðmundur, fyrir að gefa mér sálufélaga minn og ástina í mínu lífi.

Gamlárskvöld fékk nýja meiningu fyrir mér þegar ég kynntist Guðmundi og Kristínu. Fondúveisla langt fram eftir kvöldi á fallega skreyttu langborðinu í huggulegu borðstofunni, þar sem veglegi rósavöndurinn sem Guðmundur færði Kristínu sinni á hverju ári skartaði sínu fegursta.
Athöfnin þar sem upplifanir á liðnu ári sem stóðu upp úr hjá hverjum og einum í fjölskyldunni voru þuldar upp fyrir allan hópinn, alveg sama hve gamall maður væri. Skemmtilegur siður sem þau hjónin stýrðu meðan á borðhaldi stóð og vakti jafnvel meiri tilhlökkun heldur en áramótaskaupið sjálft!

Ómetanlegt.

Heimsókn þeirra hjóna til okkar er við bjuggum í Frakklandi 2012. Sú ferð var að þeirra sögn algjörlega ógleymanleg en þetta var í fyrsta sinn sem þau hjónin fóru saman til útlanda án þess að taka golfsettin með.
Áhugaverð upplifun þar sem við Jónas vorum fararstjórar og allur tími dagsins nýttur í að skoða sig um, upplifa menninguna, borða góðan mat og skála fyrir lífinu. Skemmtileg tilbreyting frá golfvellinum.

Þegar ég hitti Guðmund og Kristínu fyrst áttaði ég mig fljótt á því að golfíþróttin var eitthvað sem ég þyrfti klárlega að lesa mér til um til þess að geta tekið þátt í umræðunum við matarborðið. Ég var fljót að læra nöfnin á þeim helstu í PGA og þóttist hafa áhuga á öllum þeim golfsjónvarpsútsendingum sem í boði voru í stofunni.
Það leið ekki á löngu þar til ég var farin að skoða kylfur og slá eina og eina fötu í leyni í von um að ná þessum tækniatriðum með hraði og geta farið að spila með tengdó sem fyrst.

En það er einmitt Guðmundi og Kristínu að þakka að ég fékk golfbakteríuna svokölluðu og ég hugsa til þeirra beggja í hvert einasta skipti sem ég stend á fyrsta teig hvort sem það er á Íslandi eða í Florida.
Ég sé þau fyrir mér, Kristín að segja Guðmundi til og Guðmundur að dásama hvert högg hjá Kristínu.

Ekki þessa sveiflu, Guðmundur! er setning sem heyrðist stundum koma frá Guðmundi sjálfum þó sveiflan væri jafnvel í fínu standi og höggið lengra en ég hefði getað óskað mér.

Allir golfhringirnir í Florida sem við fjögur spiluðum saman. Púttkennslan hjá Kristínu og jákvæða hrósið frá Guðmundi á hverri einustu holu þó ég vissi alveg að sum höggin mín voru alveg ferlega léleg þá fann hann alltaf eitthvað jákvætt til að segja mér.

Mikið óskaplega á ég eftir að sakna allra þessara stunda okkar mikið og græt þær sérstaklega fyrir barnabörnin öll sem fengu alltof stuttan tíma.

Lífið eftir andlát Kristínar reyndist Guðmundi mjög erfitt og reyndum við okkar besta að létta undir. Sorgin er margslungin og engin leið að vita hvernig og hve lengi hún dvelur svo þungt á manni.
Ég er þó einna þakklátust fyrir þann tíma sem við fengum saman í sorginni og það að geta verið til staðar.

Betri tengdaföður er erfitt að finna. Mikið óskaplega er það sárt að kveðja þig, elsku Guðmundur minn, en huggun að hugsa til þess að yndislega Kristín þín, ástin í lífi þínu, tekur á móti þér með heitum faðmi.

Þín tengdadóttir,
Jóhanna Sævarsdóttir.

Jóhanna Sævarsdóttir