11. mars 1995 | Aðsent efni | 486 orð

Gigtarrannsóknir og þjóðarhagur Gigtarfélag Íslands hefur komið á laggirnar

Gigtarrannsóknir og þjóðarhagur Gigtarfélag Íslands hefur komið á laggirnar Vísindaráði. Sveinn Indriðason segir Lionsmenn styrkja þessa starfsemi með sölu rauðrar fjöður síðar í þessum mánuði.

Gigtarrannsóknir og þjóðarhagur Gigtarfélag Íslands hefur komið á laggirnar Vísindaráði. Sveinn Indriðason segir Lionsmenn styrkja þessa starfsemi með sölu rauðrar fjöður síðar í þessum mánuði. Einn af hverjum fimm Íslendingum fær einhverntíma á ævinni gigt. Þetta er fólk á öllum aldri, allt frá börnum á fyrsta ári til gamalla. Meirihluti þeirra, sem fá alvarlega gigtarsjúkdóma er konur, eða þrjár á móti hverjum karlmanni.

Gigtarsjúkdómar eru kostnaðarsamir, en áætlað er að þeir kosti þjóðarbúið um 10 milljarða króna árlega. Í þessari upphæð er reiknað með læknishjálp hverskonar, lyfjum, þjálfun og vinnutapi. Þessir 10 milljarðar gera 40 þúsund krónur á hvert mannsbarn árlega. Þjáningin sem þessum sjúkdómum fylgir, stundum ævilangt, verður hinsvegar aldrei mæld eða í tölum talin.

Gigtarsjúkdómar eru ein algengasta orsök fötlunar og lætur nærri að um 2000 skráðir öryrkjar séu fatlaðir vegna gigtar. Þúsundir til viðbótar þurfa læknishjálp og þjálfun árlega. Læknishjálp og þjálfunarkostnaður til þessa fólks er hinsvegar mjög arðbær fyrir þjóðfélagið. Athuganir sýna, að hver króna, sem til þessa er varið, skilar sér fertugfalt til baka.

Til að styrkja sjálfsbjargarviðleitni gigtsjúkra hafa gigtarfélög lengi verið starfandi. Á hinum Norðurlöndunum eru þau hálfrar aldar gömul eða meira og svo er víðar um Evrópu.

Gigtarfélag Íslands var stofnað 1976 og hefur síðan stöðugt unnið að hverskonar fræðslu með fundahöldum og útgáfustarfsemi. Félagið kom upp gigtlækningastöð 1984 til að samhæfa læknishjálp, sjúkra- og iðjuþjálfun og fræðslu. Þar hefur safnast mikil reynsla og þekking.

Ef ég veit rétt, eigum við Íslendingar fleiri gigtlækna en nokkur önnur þjóð, miðað við fólksfjölda. Þeir hafa verið við framhaldsnám, bæði austan hafs og vestan, og hafa að loknu námi stundað rannsóknir, sem vakið hafa athygli erlendis. Með þeim hafa starfað erfðafræðingar og ónæmisfræðingar.

Gigtarfélag Íslands hefur komið á laggirnar Vísindaráði, sem hefur unnið að því að koma upp rannsóknastofnun í gigtarsjúkdómum í samvinnu við Háskóla Íslands og Landspítala.

Lionsmenn hafa víða lagt lið í heilbrigðismálum og hafa nú ákveðið að styrkja þessa starfsemi með sölu á rauðri fjöður dagana 31. mars og 1. apríl næstkomandi.

Mörg af stærstu verkum í íslenskum heilbrigðismálum hafa verið unnin með beinum fjárframlögum almennings. Framtak Lionsmanna tryggir að allt það fé, sem safnast kemur til skila í verkefnið. Þeir vinna öll sín verk í sjálfboðavinnu. Þeir hafa einnig tilnefnt fulltrúa í Vísindaráð Gigtarfélags Íslands til enn frekari tryggingar því að fénu verði vel varið.

Það má því ætla, að stutt verði í að slík rannsóknastofnun verði að veruleika.

Rannsóknir á gigtarsjúkdómum er trúlega hvergi betra að stunda en á Íslandi, því gigt er talin fylgja ættum. Manntöl eru til næstum þrjú hundruð ár aftur í tímann. Ættfræðiþekking er mikil og stöðugt koma út vandaðar skrár ætta. Læknisfræðiþekking er eins og best gerist erlendis, og því er raunhæft að álykta að gigtarrannsóknir íslenskra sérfræðinga verði eitt af því, sem hægt verður að flytja út í framtíðinni.

Höfundur er Lionsmaður og áhugamaður um gigt.

Sveinn Indriðason.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.