Sjónarspil „Niðurrifið var magnað sjónarspil,“ segir Anna María sem skrásetti endalok Iðnaðarbankahússins.
Sjónarspil „Niðurrifið var magnað sjónarspil,“ segir Anna María sem skrásetti endalok Iðnaðarbankahússins. — Stilla/Jarðsetning
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hús Iðnaðarbankans við Lækjargötu reis á árunum 1959-1962 en rúmum fimm áratugum síðar var það jafnað við jörðu. Anna María Bogadóttir arkitekt skrásetti niðurrif byggingarinnar, sem hún segir mjög táknrænt, bæði með kvikmynd og á bók

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Hús Iðnaðarbankans við Lækjargötu reis á árunum 1959-1962 en rúmum fimm áratugum síðar var það jafnað við jörðu. Anna María Bogadóttir arkitekt skrásetti niðurrif byggingarinnar, sem hún segir mjög táknrænt, bæði með kvikmynd og á bók. Verkin bera hvort um sig titilinn Jarðsetning.

„Upphaflega fékk ég leyfi til þess að vera með kveðjuathöfn eða Jarðsöng. Það var haustið 2017 í aðdraganda niðurrifsins. Það var fyrsta skrefið í þessu ferli. Við hlustuðum á bygginguna og hún ljómaði og ómaði í hinsta sinn. Svo hófst niðurrifið skömmu síðar. Þá var ég orðin tengd byggingunni og fannst mikilvægt að fylgja henni til enda,“ segir Anna María.

Hún fékk kvikmyndagerðarmanninn Loga Hilmarsson, sem hafði tekið jarðsönginn upp, í lið með sér við að skrásetja niðurrifið. Næstu mánuði fylgdust þau með framkvæmdinni í samstarfi við Andrés Lyngberg sem stýrði henni fyrir hönd ABLtaks.

Varpar ljósi á endalokin

„Niðurrifið var magnað sjónarspil.“ Nú hvílir byggingin á nokkrum urðunarstöðum í nágrenni við höfuðborgina og segir Anna ótrúlegt magn efna hafa verið urðað.

Hún bendir á hvernig við erum vön viðburðum í kringum það þegar byggingar eru reistar. Líkön eru kynnt við mikla viðhöfn, fyrstu skóflustungum er fagnað og haldin eru reisugilli. Við veitum því hins vegar litla athygli þegar byggingar eru jafnaðar við jörðu. „Það var markmiðið að varpa ljósi á endalok þess sem við erum að kasta frá okkur. Mig langaði að veita endalokunum athygli og þakka fyrir.“

Anna segir bygginguna, sem reist var eftir teikningum Halldórs H. Jónssonar, hafa einkennst af ákveðnum glamúr en þó hafi hún verið stílhrein og áhersla lögð á notagildi. Hvítpússaðir fletir, sverar súlur, glerjaðar framhliðar og voldugur hringstigi hafi meðal annars einkennt hönnunina.

„Þessi bygging var hluti af heildstæðu skipulagi. Öll timburhúsin sem standa þarna í kring í dag áttu að víkja og allt átti að draga dám af alþjóðlegum módernisma. En það var líka andstaða við þetta skipulag og minna varð úr áætluðu niðurrifi. Þessi bygging var alla tíð umdeild en hugmyndafræðin sem hún ber með sér kom samt sterk inn í samfélagið og hefur verið ríkjandi.

Byggingin er táknmynd framfarahyggju eftirstríðsáranna sem ruddi burt því sem fyrir var. Þá var ríkjandi trúin á að uppsprettur jarðarinnar væru ótakmarkaðar ríkjandi og hraðinn að aukast. Fyrir mér varð þessi bygging fórnarlamb eigin hugmyndafræði.“.

Öllu tjaldað til

„Önnur ástæða fyrir því að mér finnst þessi bygging táknræn er að þetta er banki iðnaðarins. Iðnaðarbankinn er stofnaður 1953 og hann átti að efla handiðnað og ekki síður verksmiðjuiðnað. Öllu var tjaldað til við gerð þessa stórhýsis og því dæmi um vandað handverk í íslenskum iðnaði.

Það var margt táknrænt í endalokum þessarar byggingar varðandi kerfislegt hrun og svo er þetta líka bankahrun. Hún kjarnar svo ótrúlega margt í okkar samtíma sem við þurfum að kveðja og kveðja fallega.

Í sjálfu sér hefði ég viljað láta þessa byggingu standa. Hún er hluti af sögunni og vistvænustu byggingarnar eru auðvitað þær sem þegar standa. Í verkinu nota ég þessa byggingu sem tákn um hið byggða almennt og að hlúa þurfi betur að auði jarðarinnar.“ Með niðurrifi byggingarinnar séum við að kveðja ákveðna hugmyndafræði.

Það að gera bókverk um niðurrifið og jarðsetninguna segir Anna að hafi sprottið í kjölfarið og voru skrifin fyrst um sinn hluti af því að vinna myndina. Þegar tökum lauk fór hún að hugsa hvernig hægt væri að ramma myndina inn.

„Ég var einnig að skrifa um þetta fræðilega en fann ekki minn takt í verkinu í hefðbundnum fræðilegum farvegi. Svo fór ég í ritlistarbúðir til Guðrúnar Evu Mínervudóttur og komst þá á sporið með að nálgast þetta út frá mér sem manneskju. Ég hóf að skrifa um mína tilvist í hinu byggða, tengt lífi banka og bygginga almennt.“ Úr varð að hún leyfði myndinni að vera hrein sjónræn frásögn og raddirnar fengu pláss í bókinni.

Börn velferðarsamfélagsins

Anna segir Iðnaðarbankahúsið mikilvæga byggingu en hún hafi þó ekki verið hennar uppáhaldsbygging. Því hafi hluti af ferlinu verið að átta sig á því af hverju hún var svona upptekin af þessu niðurrifi. „Ég komst að því að ég er barn þessa formfasta velferðarsamfélags, hluti af módernískri arfleifð líkt og byggingin.“

Í bókinni, sem gefin er út af Angústúru í samstarfi við Úrbanistan og hönnuð af Snæfríði Þorsteins, mætast saga þessa húss, persónuleg frásögn og vangaveltur um hvaðan við sem samfélag erum að koma og hvert við stefnum.

Þótt Anna hafi ekki áður skrifað á sama hátt og í Jarðsetningu segist hún talsvert hafa nýtt bókmenntir við kennslu í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Hún hafi unnið með tengsl bókmennta og arkitektúrs og frásagnir sem felast í byggingarlist.

„Ég lærði menningarfræði og bókmenntir, ég kem úr heimi hugvísinda og flétta honum inn í mína arkitektúrpraxís. Mikilvægur hluti af arkitektúr er að teikna upp sögur sem við eigum eftir að lifa í,“ segir hún og bætir við að arkitektar þurfi að vera í samtali og miðla þekkingu sinni til þess að fleiri öðlist færni til að lesa og meta verðmæti í umhverfinu.

Kvikmyndin Jarðsetning verður sýnd í Bíó Paradís á morgun, sunnudaginn 27. nóvember, kl. 14:45 og aftur á miðvikudag 30. nóvember kl. 14.