Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: "Frelsi er enginn lúxus heldur nauðsyn til þess að mannlegt samfélag geti blómstrað."

Í dag verður sendiráð Íslands í Varsjá opnað, á deginum þegar Íslendingar fagna því að hafa orðið fullvalda ríki árið 1918. Um svipað leyti, í árslok 1918, var sjálfstætt og fullvalda Pólland að rísa upp úr þeim molum þjóðríkjaskipunar sem lá eftir fyrri heimsstyrjöldina. Ísland viðurkenndi lýðveldið Pólland í janúar 1922 – fyrir réttri öld – og hófust diplómatísk samskipti formlega árið 1946.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa tengsl ríkjanna verið mikil og vaxandi á fjölmörgum sviðum. Þar ber einna hæst í mínum huga að mikill fjöldi fólks frá Póllandi og af pólskum uppruna hefur auðgað íslenskt samfélag með því að setjast hér að til lengri eða skemmri tíma. Nú búa ríflega 20 þúsund íbúar með pólskt ríkisfang á Íslandi og er langstærsti hópur erlendra ríkisborgara. Vitaskuld hefur einnig fjölgað hratt í hópi þeirra sem eru Íslendingar með pólskar rætur.

Raunverulegt frelsi ekki sjálfgefið

Íslendingar hafa blessunarlega aldrei þurft að horfast í augu við stríðshörmungar á borð við þær sem lita sögu Póllands en hin sterka sjálfstæðisþrá pólsku þjóðarinnar er tilfinning sem hreyfir við sambærilegum strengjum í íslenskum hjörtum. Samtöl mín við pólsk starfssystkin og pólskættaða vini og kunningja hafa sannfært mig um að milli þessara tveggja ólíku þjóða séu ákaflega sterkir strengir og að við eigum margt sameiginlegt þótt annað landið sé meðal þeirra fjölmennustu í Evrópu og hitt meðal hinna fámennustu. Einn þessara vina er borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek en hann hefur haft mikil áhrif á pólitíska afstöðu mína í gegnum tíðina. Bæði með því að lesa skrif hans og eiga við hann samtöl hef ég fengið glögga og dýrmæta innsýn í það hversu miklu máli það skiptir samfélög að búa við raunverulegt frelsi og að slíkt sé ekki sjálfgefið. Á meðan við Íslendingar höfum litið á frelsi og sjálfstæði sem ákaflega eftirsóknarverð markmið fyrir okkar samfélag, þá hefur baráttan fyrir frelsinu verið beinlínis lífsspursmál fyrir pólsku þjóðina. Frelsi er enginn lúxus heldur nauðsyn til þess að mannlegt samfélag geti blómstrað.

Það voru líka Pólverjar sem stóðu einna fremst í baráttunni gegn oki kommúnismans og stendur öll Evrópa í þakkarskuld fyrir það hugrekki sem til dæmis meðlimir Samstöðu sýndu á níunda áratuginum í baráttu gegn harðræði yfirvalda. Þá réð mórölsk forysta Jóhannesar Páls II., fyrsta pólska páfans, miklu í hinni hugmyndafræðilegu baráttu sem lauk með því að löndin í austurhluta Evrópu gátu markað sína eigin braut í átt að lýðræði, mannréttindum og réttarríki.

Pólland forysturíki

Pólland hefur verið með sendiráð á Íslandi frá 2013 og eru samskipti okkar á mörgum sameiginlegum vettvangi til fyrirmyndar. Það var þó ekki einungis til að uppfylla gagnkvæmnisreglu diplómatískra samskipta sem ég tók ákvörðun um opnun sendiráðs í Varsjá heldur blasir við að Pólland er eitt af forysturíkjum Evrópu í menningarlegu, pólitísku, vísindalegu og efnahagslegu tilliti. Sú djúpa virðing og vinátta sem ríkir milli Íslands og Póllands felur því í sér mikil verðmæti fyrir Ísland og það er með stolti sem ég tek þátt í að opna sendiráð okkar í Varsjá á deginum sem helgaður er íslensku fullveldi.

Höfundur er utanríkisráðherra.