Elín Magnúsdóttir fæddist á Hverfisgötu 67 í Reykjavík 23. maí 1931. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 17. nóvember 2022. Foreldrar hennar voru Kristinn Magnús Halldórsson bifreiðarstjóri, f. í Reykjavík 26. október 1905, d. í Reykjavík 16. september 1967, og Jóna Kristín Sigurðardóttir, f. í Götuhúsum á Stokkseyri 23. september 1908, d. í Reykjavík 19. maí 1993. Elín var næstyngst fjögurra systra. Elst Valgerður, f. 16. ágúst 1928, d. 21. maí 2005. Sigríður, f. 3. október 1929, d. 26. október 2018. Yngst er Gíslína, f. 4. febrúar 1941.

Elín giftist 16. september 1954 Sigurði Gunnarssyni bifreiðarstjóra, f. 16. september 1929, d. 22. október 2012. Foreldrar Sigurðar voru hjónin Helga Oddsdóttir og Gunnar Ólafsson.

Þau eignuðust eina dóttur, Kristínu, f. 14. nóvember 1954. Kristín er gift Rúnari Geirmundssyni, f. 19. nóvember 1954. Synir þeirra eru Sigurður Rúnarsson, f. 19. mars 1974 og Elís Rúnarsson, f. 15. nóvember 1981.

Börn Sigurðar og Guðnýjar Örnu Sölvadóttur Beck eru Stefán Elís, f. 20. júlí 2000 og Arna Rut, 19. september 2005

Elís er kvæntur Katrín Erlu G. Gunnarsdóttur og eru börn þeirra þrjú. Móey Marta, f. 29. júlí 2012, Flóki Freyr, f. 27. ágúst 2015 og Bára Sóley, f. 19. mars 2019.

Elín ólst upp í Reykjavík og bjó þar alla sína ævi. Hún hóf snemma að starfa við saumaskap og vann við það fag mestalla sína starfsævi. Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hennar.

Kær móðursystir mín, Elín Magnúsdóttir, er látin, 91 árs að aldri. Hún átti langt og farsælt líf að baki. Ella var ein af þeim manneskjum sem jafnan hafa yfir sér áru gleðinnar, umlukin blíðu. Þó gustaði af henni ef þurfti. Frægt varð í fjölmiðlum fyrir örfáum árum þegar misindismaður réðst að henni á Lindargötunni þar sem hún bjó síðustu árin og ætlaði að ræna hana töskunni. Hún barði hann á burt með hækju sinni og rak svo flóttann upp á Hverfisgötu!

Ella frænka, fædd 1931, var næstyngst fjögurra systra sem ólust upp hjá foreldrum sínum í örlítilli þakíbúð á Hverfisgötu 67, sem öll var undir súð. Herbergin voru tvö, annað lítið, og tvær systranna sváfu þar ásamt afa og ömmu og tvær á dívönum í stofunni. Gangur milli herbergjanna þjónaði sem eldhús, og matur var borinn fram á örlítið borð þar sem tveir gátu hæglega setið, en þrír tæpast. Lengi frameftir þurfti að klöngrast niður brattan stiga á klósett, sem var kamar í bakgarðinum. Í hann var jafnan sparkað til að meindýr hefðu sig hæg. Þegar ég kom til sögu var sú bylting orðin að örlitlu salerni hafði verið komið fyrir í skáp aftan við eldhúsborðið. Það var svo lítið að tólf ára drengur gat varla staðið þar uppréttur. Afi, Kristinn Magnús Halldórsson af Fremri-Hálsætt, varð snemma óvinnufær vegna alvarlegs fótarmeins, og amma, Kristín Sigurðardóttir frá Götuhúsum á Stokkseyri, framfleytti heimilinu sem vinnukona á heimilum broddborgaranna og hafði misjafnar sögur að segja. Meðan þær voru í æsku kom poki með varningi fyrir jólin frá borginni og bréfi frá sjálfum borgarstjóranum. Það var fátækrahjálpin.

Við þessar fátæklegu aðstæður undu sér þó allir vel. Þetta örlitla heimili var miðdepill í sístækkandi fjölskyldu, þar sem gervöll fjölskyldan mætti á sunnudögum í rjómapönnukökur hjá ömmu og sögur og glens hjá afa. Hann var fæddur sagnamaður, og systurnar erfðu frásagnargáfuna. Það var stórkostlegt að sitja með þeim gegnum áratugina og hlusta á þær segja frá hinu stórmerkilega samfélagi sem hrærðist í og undir yfirborði Skuggahverfisins. Allar fjórar voru eldskarpar, minnugar, og listnæmar. Engin þeirra komst til mennta, sumar þó í kvöldskóla í myndlist, og allar fóru eins fljótt út á vinnumarkaðinn og þær gátu. Þetta var saga fátæks fólks á þeim tíma.

Elín varð annáluð saumakona, lofuð fyrir handbragð sitt, og stundum benti hún mér á löggur þeysa fram hjá á mótorfákum sínum og sagði gáskafull: Sérðu leðurgallana ég saumaði þá! Hjá ýmsum fyrirtækjum sem framleiddu fatnað voru henni fengin vandasömustu verkefnin, bæði leðurgallar löggunnar og einkennisbúningar flugmanna og lögregluþjóna, sem þá voru virðulegustu og flottustu flíkur á Íslandi. Þarftu ekki einkennisbúning? sagði hún þegar ég varð fyrst ráðherra. Ég get saumað hann.

Skuggahverfið var hennar heimur. Þegar hún hleypti heimdraganum, og fór að búa með eiginmanni sínum, Sigurði Gunnarssyni, bílstjóra hjá H.Ben, fór hún ekki lengra en yfir götuna, beint á móti íbúð foreldra sinna. Í næsta hús flutti systir hennar, Sigríður, með manni sínum, Andrési Bjerkhoel Adolfssyni, og einkadóttur þeirra Hjördísi. Allan barnaskólann, áður en ég var sendur til uppeldis hjá aðventistum á Hlíðardalsskóla, kom ég nánast dag hvern til afa og ömmu, fór á Borgarbókasafnið og tók svo rúntinn yfir til Siggu frænku og svo Ellu frænku. Kristín einkadóttir Elínar og Sigurðar var næstum jafnaldri minn og kær leikfélagi öll bernskuárin. Þetta voru góð ár á vesturmörkum Skuggahverfisins.

Ellu frænku á ég skuld að gjalda frá menntaskólaárum mínum. Nokkurra ára uppstytta varð þá milli mín og foreldra minna þegar ég fór að efast um lífsskoðanir þeirra og þann heim sem Morgunblaðið, biblía heimilisins, færði þar inn dag hvern. Ég bjó þá um tveggja ára skeið í lítilli kytru á efstu hæð í Eskihlíð, innan um fyrstu farandverkamenn Arabaheimsins hér á landi. Þegar sumarhýran var uppurin á vori útlíðandi voru stundum engir endar til að ná saman. Þegar svartast gerði í álinn var alltaf hægt að líta inn hjá Ellu frænku, sem gaf mér að borða, bjó stundum um mig í stofunni, og sendi mig með nesti út í nýjan dag. Aldrei hef ég þakkað það nógsamlega en geri nú.

Skuggahverfið var Ellu frænku svo kært að þangað flutti hún aftur í íbúðir aldraðra við Lindargötu, bjó þar í sama húsi og Gíslína systir hennar og naut alla tíð sérlega góðrar umhyggju Stínu dóttur sinnar og manns hennar, Rúnars útfararstjóra, og þeirra afkomenda. Þegar hún dó bjó hún því nokkur hundruð metra frá staðnum þar sem hún fæddist og ólst upp. - Einstaklega væn kona er nú horfin á vit áa sinna og bið ég alla góða vætti að blessa minningu hennar. Við Árný sendum afkomendum hennar og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.


Össur Skarphéðinsson.