14. mars 1995 | Íþróttir | 573 orð

Hver er hann þessi ALEXANDER ERMOLINSKIJ hjá Skallagrími? Leist ekkert á liðið í

Hver er hann þessi ALEXANDER ERMOLINSKIJ hjá Skallagrími? Leist ekkert á liðið í upphafi ALEXANDER Ermolinskij hefur leikið mjög vel með liði Skallagríms í þeim tveimur leikjum sem liðið hefur leikið í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik.

Hver er hann þessi ALEXANDER ERMOLINSKIJ hjá Skallagrími? Leist ekkert á liðið í upphafi

ALEXANDER Ermolinskij hefur leikið mjög vel með liði Skallagríms í þeim tveimur leikjum sem liðið hefur leikið í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Það hefur stundum verið sagt um Ermolinskij að hann sé vanmetnasti erlendi leikmaðurinn hér á landi, en þetta er þriðja tímabilið sem hann leikur með Borgnesingum. Miðað við hvernig hann hefur leikið í úrslitakeppninni er örugglega eitthvert sannleikskorn í því. Ermolinskij er 35 ára gamall og kemur frá Rússlandi, bænum Vologda sem er 500 kílómetra norður af Moskvu. Hann er kvæntur Ludmilu og eiga þau tvo syni, Andrew sem er 14 ára og Pavel sem er 8 ára og hafa þeir báðir mikinn áhuga á körfuknattleik.

að var ekki leikinn körfuknattleikur í heimabæ Ermolinskijs en hann fékk þó fljótlega áhuga á íþróttinni og lék með sterku liði sem varð meistari í Rússlandi. Síðan lá leiðin til Búdapest í Ungverjalandi þar sem hann lék í tvö ár með Honved, sama liði og Tómas Holton núverandi þjálfari Skallagríms lék með, en Ermolinskij hóf að leika með liðinu árið eftir að Tómas hélt heim. En hvers vegna kom Ermolinskij til Íslands?

"Ég veit það eiginlega ekki. Við kunnum vel við okkur í Búdapest, það er falleg borg en félögin þar geta ekki gert mikið fyrir leikmenn sína. Við kunnum mjög vel við okkur hér í Borgarnesi og erum jafnvel að íhuga að setjast hér að. Strákarnir hafa fallið vel inn í allt hér og eiga marga vini. Það er ekki ólíklegt að ég haldi þá áfram að leika með Borgnesingum, en annars veit maður það aldrei, það gæti alveg eins farið svo að ég léki með einhverju öðru liði. Það er mjög gaman að leika hér í Borgarnesi, áhorfendur standa vel við bakið á okkur."

Voru engin vandræði að venjast íslenska vetrinum?

"Nei, alls ekki. Veðráttan hér er ekki ósvipuð því sem var heima, nema hvað hérna er oft talsvert meiri vindur. Við áttum því ekki í neinum erfiðleikum með að venjast veðráttunni."

Er þetta besta tímabilið þitt hér á landi?

"Það er nú það. Það er dálítið erfitt að meta það. Ég lék vel fyrsta árið mitt hérna og í fyrra svona upp og ofan en í vetur hefur þetta gengið ágætlega, sérstaklega í síðustu tveimur leikjum."

Hvernig leist þér á þegar þú komst fyrst til Borgarness?

"Mér leist eiginlega engan vegin á þetta. Það er kannski of fast að orði kveðið að segja að það hafi verið hræðilegt, en mér leist satt best að segja alls ekki á liðið á fyrstu æfingunum í ágúst. Henning var ekki með og þetta voru bara kornungir strákar, og allir litlir. En eftir mánaðar tíma eða svo breyttist afstaða mín. Þegar keppnistímabilið hófst sá ég að við vorum með ágætis lið, þrátt fyrir að margir leikmenn væru smávaxnir. Það er raunar það sem háir íslenskum körfuknattleik, hæðin. Þegar ég lék í Sovétríkjunum voru sex eða sjö leikmenn stærri en ég, en hér er ég eini leikmaðurinn sem nær tveimur metrum, en ég er 2,06 metrar."

Hefur þú leikið einhverja landsleiki?

"Ég lék í ein tvö til þrjú ár í úrvalsliði Rússlands og var meðal annars fyrirliði um nokkurt skeið. Ætli þetta hafi ekki verið eitthvað um 40 landsleikir sem ég lék."

Morgunblaðið/Bjarni

ALEXANDER Ermolinskij er mikið í íþróttamiðstöðinni; leikur með meistaraflokki og þjálfar yngri flokk hjá félaginu.

Eftir

Skúla Unnar

Sveinsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.