Glóðaglóð LEIKLIST Halaleikhópurinn ALLRA MEINA BÓT Hala-leikhópurinn: Allra meina bót. Höfundar: Patrekur og Páll. Tónlist: Jón Múli Árnason. Leikstjóri: Edda Guðmundsdóttir.

Glóðaglóð LEIKLIST Halaleikhópurinn ALLRA MEINA BÓT Hala-leikhópurinn: Allra meina bót. Höfundar: Patrekur og Páll. Tónlist: Jón Múli Árnason. Leikstjóri: Edda Guðmundsdóttir. Leikendur: Kristinn Guðmundsson, Jón Marteinsson, Kolbrún Kristjánsdóttir, Baldvin Sigurðsson, Jón Eiríksson, Árni Salomonsson, Ingólfur Birgisson o.fl. Halanum, Hátúni 12, Reykjavík Frumsýning 10. mars.

HALA-leikhópurinn er iðinn við að skemmta sér og öðrum. Síðan leikhópurinn var stofnaður fyrir tæplega þremur árum (haustið 1992) með það að markmiði "að iðka leiklist fyrir alla", hafa verið sýnd fjögur leikrit og haldinn fjöldi námskeiða fyrir félagsmenn leikhópsins, en þeir eru um fimmtíu talsins. "Allra meina bót" er fimmta verkið sem leikhópurinn sýnir og fyrsti söngleikurinn.

Edda Guðmundsdóttir leikstjóri hefur starfað mikið með leikhópnum og leikstýrði m.a. uppfærslu hans á leikritinu "Rómeo og Ingibjörgu" sem Hala-leikhópurinn sýndi 1993 og var í senn áhrifarík og eftirminnileg sýning.

Í Allra meina bótum er róið á önnur mið. Hér er skopið í fyrirrúmi, hið góðlátlega grín sem afhjúpar strax höfunda sína, Patrek og Pál, svo glittir óumdeilanlega í Jónas Árnason og Stefán Jónsson. Og þegar ljúfir tónar Jóns Múla (sem er orðinn svo hagvanur í vitund Íslendinga að ekki þarf að segja hvers son hann er) hljóma þá fer um mann notaleg tilfinning, góðagóð.

Leikararnir standa vel fyrir sínu og það var gaman að sjá aftur í nýjum hlutverkum og á framfarabraut þá Jón Eiríksson, Árna Salomonsson og Kristinn Guðmundsson. Og best var að sjá hvernig unga fólkið, frítt og þokkafullt, leggur leikhópnum lið og auðgar hann, þau Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir og Baldvin Jón Sigurðsson.

Ég átti góða kvöldstund í Halanum og hlakka til að sjá hvað leikhópurinn færir fram næst.

Breiddin innan hans hefur augljóslega aukist og áhrifa reynslunnar er þegar farið að gæta. Eftir sýningu var Steindór Hjörleifsson gerður fyrsti heiðursfélagi Hala-leikhópsins, en hann hefur fylgst með starfi hans frá upphafi og safnaði fyrir ljósabúnaði sem vígður var við frumsýningu. Jón Múli var líka kallaður upp og þeir Steindór sögðu nokkrar góðagóðar sögur.

Þeim var klappað hlýlega lof í lófa og ég þóttist greina í klappinu þakklæti fyrir að hafa haldið uppi, áratugum saman, þessu hvíta laki sem hver þjóð vefur utan um vitund þegna sinna svo þeir ærist ekki í víðáttu reynslunnar og heitir menning.

Guðbrandur Gíslason

Morgunblaðið/Jón Svavarsson