Bændasamtök Íslands Ari Teitsson kosinn formaður ARI Teitsson, ráðunautur hjá búnaðarsambandi S-Þingeyinga, var í gærkvöldi kosinn formaður Bændasamtaka Íslands, en það nafn hefur verið valið nýjum sameinuðum samtökum bænda.

Bændasamtök Íslands Ari Teitsson kosinn formaður

ARI Teitsson, ráðunautur hjá búnaðarsambandi S-Þingeyinga, var í gærkvöldi kosinn formaður Bændasamtaka Íslands, en það nafn hefur verið valið nýjum sameinuðum samtökum bænda. Ari hlaut 22 atkvæði af 39 í kosningu milli hans og Hauks Halldórssonar, fyrrum formanns Stéttarsambands bænda, en hann hlaut 16 atkvæði í kosningunni. Einn atkvæðaseðill var auður.

Í fyrri umferð formannskosninganna, sem var óhlutbundin, hlaut Ari 18 atkvæði, Haukur 12 atkvæði og Jón Helgason, fyrrum formaður Búnaðarfélags Íslands, hlaut 9 atkvæði.

Á þessum fyrsta ársfundi hinna nýju bændasamtaka var í gærkvöldi kosið á milli þess að kalla samtökin Bændasamtök Íslands eða Búnaðarfélag Íslands, og auk þess var kosið um hvort kalla skyldi ársfund samtakanna Búnaðarþing eða aðalfund. Samþykkt var með 27 atkvæðum gegn 12 að nefna samtökin Bændasamtök Íslands, og með 28 atkvæðum gegn 11 var samþykkt að kalla ársfundinn framvegis Búnaðarþing.

Erfið verkefni framundan

Þegar úrslitin í formannskjörinu lágu fyrir sagði Ari Teitsson að Búnaðarþingsfulltrúa biðu erfið verkefni á næstu dögum og bændur landsins biðu eftir tillögum frá Búnaðarþingi um hvað gera skuli. Haukur Halldórsson sagði að hann myndi veita nýkjörnum formanni allan þann stuðning sem hann gæti í því starfi sem framundan væri.

Morgunblaðið/Árni Sæberg

ARI Teitsson, nýkjörinn formaður Bændasamtaka Íslands, tekur við árnaðaróskum frá Hauki Halldórssyni, til hægri á myndinni, eftir að úrslitin í formannskjörinu lágu fyrir í gærkvöldi.