17. mars 1995 | Fasteignablað | 1087 orð

SMIÐJAN Hegningarhúsið við Skólavörðustíg Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er

SMIÐJAN Hegningarhúsið við Skólavörðustíg Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er eitt þeirra húsa, sem byggð voru úr tilhöggnum og hlöðnum steini. Þetta hús á sér merkilega byggingarsögu, sem Bjarni Ólafsson greinir frá í máli og myndum. ið...

SMIÐJAN Hegningarhúsið við Skólavörðustíg Hegningarhúsið við Skólavörðustíg er eitt þeirra húsa, sem byggð voru úr tilhöggnum og hlöðnum steini. Þetta hús á sér merkilega byggingarsögu, sem Bjarni Ólafsson greinir frá í máli og myndum.

ið Skólavörðustíginn standa tvö eða þrjú gömul hús sem byggð hafa verið úr tilhöggnum og hlöðnum steini. Annað þeirra, sem stendur vinstra megin götunnar ef gengið er upp eftir Skólavörðustíg, það var oft kallað "Steinninn" í daglegu tali fyrr á árum. Hitt húsið stendur neðar við götuna á hægri hönd þegar gengið er upp brattann, það er nú verslun eða sýningarsalur.

Tunga okkar er oft fundvís á nöfn sem fara vel í munni. Þannig virðist mér ofur eðlilegt að þetta virðulega hús sem reist var við Skólavörðustíginn úr tilhöggnum steini væri nefnt "Steinninn".

Lengi hefur húsið Steinninn verið nefnt Hegningarhúsið við Skólavörðustíg en þar var um árabil dómsalur Hæstaréttar Íslands í vesturenda efri hæðar og í austurenda á sömu hæð var Bæjarþing Reykjavíkur háð og í þeim sal gengu Reykvíkingar til kosninga fyrr á árum.

Tugthúsið

Að einhver hafi verið settur í Tugthúsið táknaði eitthvað hræðilegt þegar ég var drengur. Mér er ekki vel ljóst hvenær nafnið Steinninn festist í tungunni. Gæti verið að það hafi verið á árunum 1940 til 1950. Stundum var rætt um þessi alvarlegu mál og ógnvekjandi atburði á unglingsárum mínum. Þá heyrði ég stundum nefnda "Svörtu Maríu" sem var stór lögreglubíll sem var frambyggður Ford . Vörubílsgrind sem byggt var yfir hér á landi sem stóran langferðabíl (rútu). En í sambandi við nafnið á þessu húsi þá má vel vera að það hafi verið nefnt þessu nafni í daglegu tali alveg frá byggingu þess.

Hjörleifur Stefánsson arkitekt er vel fróður um gömul hús á landinu. Gömlu húsin í Reykjavík hefur hann rannsakað sérstaklega.

Meðal þeirra húsa er Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og vann hann ritgerð með teikningum um byggingu þess.

Hjörleifur gaf mér góðfúslega leyfi til að lesa ritgerð þessa. Þar er mikinn fróðleik að finna um aðdraganda að byggingu hússins, staðarval, efnistöku og margt fleira sem áhugavert er í sambandi við þetta hús.

Í sambandi við áform yfirvalda um byggingu hússins hafi hlutverk hússins frá upphafi átt að vera margþætt, eins og raunin varð í langan tíma. Þar segir Hjörleifur einnig að stefnt hafi verið að því að þetta skyldi vera ráðhús ,fangelsi og hegningarhús til skammtíma geymslu manna sem veita þyrfti gistingu til einnar nætur o.s.frv.

1871-1872

Húsið var byggt að miklu leyti 1871 og lokið við frágang þess 1872. Yfirsmiður var danskur maður að nafni F. Bald og sá er stjórnaði stein og múrverkinu var einnig danskur að nafni Lúders. Hann settist síðar að í Reykjavík og bjó hér í mörg ár. En um F.Bald er rétt að geta þess að hann var ráðinn yfirsmiður við byggingu alþingishúss 1880 og hafði með sér marga stein og múrsmiði til Íslands í það sinn. Þessi byggingameistari F.Bald byggði fjöldamörg hús víða um landið.

Það tók nokkurn tíma að yfirvöld kæmust að niðurstöðu um teikningu af fyrirhuguðu hegningarhúsi. Loks var samþykkt að byggja húsið eftir teikningu Klentz og að ráða hann sem byggingarmeistara en hann fékk áðurnefnda byggingameistara í sinn stað. Húsið er nokkurnveginn í upprunalegri gerð ennþá. Hæstaréttar salurinn hefur að vísu verið stúkaður niður í smærri einingar með léttbyggðum skilveggjum en vel má sjá stærð hans ennþá.Eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd sem ég tók af götuhlið hegningarhússins er aðalhúsið tvílyft, efri hæðin hefur fimm glugga á götuhlið en neðri hæðin fjóra glugga og dyr í miðju. Út frá báðum endum aðalhússins ganga lægri álmur sem vegfarendur gefa að jafnaði lítinn gaum af því að hliðarálmurnar eru í hvarfi bak við rúmlega mannhæðarháan hlaðinn steinvegg sem er umhverfis lóð hússins. Þegar grafið var fyrir vestari álmunni reyndist það mikill halli á grunninum að ákveðið var að þar skyldi byggður kjallari undir.

Ólík áferð

Ég vil benda fólki sem á leið framhjá húsunum sem ég hefi verið að nefna í smiðjugreinunum undanfarið á að skoða þessi hús, hvernig þau eru gerð. Úthliðar þeirra hafa mikil áhrif á fegurð þeirra og endingu.

Hinn 3. mars s.l. birtist mynd í smiðjugrein af húsinu nr. 3 við Bankastræti. Ég þarf að skjóta hér inn leiðréttingu á því sem þar sagði um hver byggði það hús, en það var Sigmundur Guðmundsson prentari sem lét reisa það og seldi það nokkru síðar Sigurði Kristjánssyni bóksala. Í nefndri grein sagði ég Sigurð hafa látið byggja húsið, það er rangt. Á myndinni sem birtist 3.mars má sjá ólíka hleðsluáferð, með allt öðru yfirbragði en því sem við sjáum hér á myndinni af hegningarhúsinu. Ef við göngum svo niður að alþingishúsinu sjáum við þriðju gerðina. Vert er að gefa húsagerðinni gaum til skoðunar. Hegningarhúsið er 9-10 árum eldra en alþingishúsið. Í safni til iðnsögu Íslendinga "Steypa lögð og steinsmíð rís" segir höfundur þeirrar bókar Lýður Björnsson eftirfarandi við mynd af hegningarhúsinu, bls.45:"Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Það er meðal annars hlaðið úr glerjuðum hraunhellum, sem hafa staðist veðrun betur en grásteinninn."

Innanhúss

Ein af þeim myndum, sem fylgja þessari grein, er tekin inni í Bæjarþingsstofu af bogadregnum hliðardyrum sem lögmenn gengu um. Við þessar dyr sér á upphækkun palls sem er í gólfinu. Hinir bogadregnu gluggar og boginn yfir dyrunum byggist á ævafornri byggingar aðferð á hlöðnum veggjum. Steinarnir í hinum hlaðna boga sporna saman gegn því að veggurinn springi yfir gluggaopinu. Á sumum hlöðnum veggjum, eins og t.d. í húsinu Bankastræti 3 er höggvinn til einn nógu langur og nógu sterkur steinn til þess að bera uppi þungann yfir glugga eða dyraopinu.

Eins og áður segir voru bæjarstjórnarfundir haldnir í þessu húsi og kjörfundir. Þarna er komið inn í gamalt og virðulegt hús þar sem alvara ríkir og margir munu hafa gengið þar um dyr með nokkurn kvíða í brjósti.

Uppi á stigapallinum stendur gamall trébekkur undir glugganum sem er beint yfir útidyrunum. Pallurinn hefur sem sé verið biðstofa.

Ljósmyndir/Bjarni Ólafsson Hegningarhúsið vð Skólavörðustíg. Þar var um árabil dómsalur Hæstaréttar í vesturenda efri hæðar og í austurenda á sömu hæð var Bæjarþing Reykjavíkur háð. Í þeim sal gengu Reykvíkingar til kosninga fyrr á árum.

Þessi mynd sýnir hringstiga sem liggur frá inngangi upp að "Bæjarþingstofu" og fyrrum Hæstarétti.

Dyrnar að þingsal bæjarþingsstofunnar gömlu. Beint á móti þessum dyrum var gengið inn í Hæstarétt.

Þessi mynd er tekin inni í Bæjarþingsstofu af bogadregnum hliðardyrum sem lögmenn gengu um. Við þessar dyr sér á upphækkun palls sem er á gólfinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.