AKUREYRARBRÉF Á GÓU Á botni breðans Við býsnumst yfir því slælegum snjómokstri, en Leifur Sveinsson telur okkur hollt rifja upp við hvaða skilyrði forfeður okkar bjuggu. I. KLUKKAN 15.00 laugardaginn 4. mars hefur Freydís sig til flugs undir öruggri...

AKUREYRARBRÉF Á GÓU Á botni breðans Við býsnumst yfir því slælegum snjómokstri, en Leifur Sveinsson telur okkur hollt rifja upp við hvaða skilyrði forfeður okkar bjuggu. I. KLUKKAN 15.00 laugardaginn 4. mars hefur Freydís sig til flugs undir öruggri stjórn Úlfars Henningssonar flugstjóra og er stefnan tekin á Akureyri. Flogið er yfir Vallárdalinn í Esju, en hann liggur þvert yfir Esjuna frá suðri til norðurs yfir í Blikdalinn. Það rifjast upp fyrir mér eggjatökuferð í dal þennan í maí 1949. Eftirtekjan var rýr, 6 menn fundu 35 svartbaksegg, enda veturinn 1949 einn sá snjóþyngsti í mörg ár, varpsvæðið mest megnis snævi hulið. Fokkerinn ber hratt yfir, ísi lagt Meðalfellsvatnið blasir nú við og minnist ég þá ánægjulegra veiðiferða með föður mínum sumarið 1935. Næst fljúgum við yfir Reynivallaháls og þá kemur upp í hugann hestaferðalag með Páli Briem og Guðmundi Áka Lúdvikssyni árið 1965, Svínaskarð-Reynivallaháls-Síldarmannagötur-Skorradalsvatn-He stháls-Ferjukotsbakkar.

Skorradalsvatn er auðvitað allt ísi lagt, svo og Reyðarvatn, sem Grímsá rennur úr, og minnist ég þá skemmtilegra laxveiðidaga með Indriða frænda mínum Níelssyni um Jónsmessuna á því fagra sumri 1974, 1100 ára þjóðhátíðarsumrinu, þegar allur gróður var 5 vikum á undan venjulegu árferði. Baula gnæfir ægifögur í vestri, en nú sé ég kunnuglegt fjall, Strútinn, en í kringum hann riðum við Fáksfélagar í júlí 1968, þegar við fórum Húsafellshringinn suður Kaldadal til Þingvalla.

Ég á tvær myndir af Strútnum, olíumálverk eftir Jón Stefánsson og vatnslitamynd eftir Mugg. Einstæð myndverk að allri gerð. Um Strútinn kvað Sigurður Eiríksson hagyrðingur, sem lengi var vinnumaður í Kalmanstungu:

Lyngs við bing á grænni grund

glingra og syng við stútinn

þvinga ég slyngan hófahund

hring í kringum Strútinn.

Nú fljúgum við í 17.000 feta hæð (5.185 m) og sjáum allt norður í Hrútafjörð, en nú fer skyggnið að minnka og er við eigum þriðjung leiðarinnar til Akureyrar eftir, þá þrýtur það alveg.

Lendingin tekst vel og nú ganga farþegar frá borði. Nokkur stórmenni eru með, helst þeirra Stebbi í Lúdó, Gunnar Landsbréfastjóri og Jón Baldvin, en í furðufuglaflokknum erum við bara tveir, Örn Samsöluleikari Árnason frá Hrísey og ég. Elli Kára, bílstjóri minn norðan heiða, ekur okkur hjónum í gegnum snjógöngin í Akureyrarjökli heim í Tjarnarlund.

II.

Á botni breðans

Í jólalesbók Morgunblaðsins 1956 er saga eftir Gunnar Gunnarsson, sem hann nefnir: "Á botni breðans." Sagan fjallar um fjölskylduna í Grundarkoti í Héðinsfirði er líður að jólum. Höskuldur bóndi hafði farið sjóleiðis í kaupstaðarferð til Siglufjarðar, en Guðný húsfreyja bíður hans heima með börnin tvö, Árna litla 8 ára og Guðnýju litlu 4 ára. Ellefu dögum fyrir jól fennir bæinn í kaf. Höskuldur nær ekki heim fyrir aðfangadagskveld, en þannig lýsir Gunnar því: "Aðfangadagskvöldið bar upp á tilsettum tíma. Guðnýjarnar báðar og Árni komu sér fyrir í básnum hjá Skjöldu: Skelfing getur beljugrey verið dýrmæt skepna fullkominn er enginn mannfagnaður, þar sem ekki er einhver fjórfætlingur nálægur."

Í 19 daga berjast móðir og börn fyrir lífi sínu, moka, moka, ný og ný þrep, styrkja þekjuna, sem var farin að svigna óhugnanlega. Guðný húsfreyja sagaði niður borðin, sem þau áttu og setti undir þekjuna. Útlitið var svart. Bunan í bæjarlæknum varð grennri og geljulegri með hverjum deginum sem leið. Stödd á þrettánda þrepinu þóttust þau sjá, að ljósið á lýsiskolunni aflitaðist. Þá var skammt í kraftaverkið: "Vetrardagurinn kom yfir þau eins og reiðarslag, þegar loksins harðfennisskánin rofnaði og hrundi á þau ofan. Þrepin urðu þá eftir allt saman ekki nema fimmtán. Sigurinn vannst á nýársdag og upp frá þeirri stundu vissu þau þrjú það öðrum mönnum fremur hvað heiti þessa dags hefur að geyma. Höskuldur bóndi hafði aftur á móti komið úr kaupstaðarferðinni eftir 20 daga og ekki fundið bæinn sinn. Hann skundar að næsta bæ, Vatnsenda að sækja hjálp, en í millitíðinni tekst heimafólkinu að grafa sig upp úr fönninni. Gunnar Gunnarsson yngri teiknaði frábæra mynd, sem birtist með grein föður hans í Jólalesbókinni, en þar skunda Höskuldur og Vatnsendamenn í átt til fólksins í Grundarkoti.

Þessi saga úr Héðinsfirði hefur sótt mjög á mig í vetur þegar snjórinn hefur vaxið hér dag frá degi og má nú svo heita hér á Akureyri, að kominn sé einn samfelldur Akureyrarjökull í hinn friðsæla bæ.

Langt er þó í land, að húsin hér á Akureyri sé að fenna í kaf, en snjóruðningstæki uppi á þökum hafa ekki sést á Akureyri fyrr en í vetur. Héðinsfjörður mun hafa farið í eyði um miðja öldina, u.þ.b. 1950. Nokkrar jarðir eru þó nýttar til sumardvalar og veiði er stunduð í Héðinsfjarðarvatni. Tveir fjallvegir liggja úr dalnum til Siglufjarðar, Hestsskarð og Hólsskarð. Um Fossabrekkur var gömul alfaraleið úr Héðinsfirði til Ólafsfjarðar.

Okkur er hollt að rifja upp við hvaða skilyrði forfeður okkar bjuggu, er við býsnumst yfir því, að ekki sé mokað daglega snjónum af gangstéttunum, eða snjóbræðslan sé slöpp í nokkra tíma.

III.

Nú er að ljúka fjögurra daga dvöl okkar hjóna hér á Akureyri. Ekkert lát er á snjókomunni, Súlurnar hafa verið í felum mest allan tímann, þetta stórkostlega fjall, sem blasir við úr stofuglugga okkar. Við höfum hlýtt á tvenna tónleika, Snjótittlingasinfóníu við Þingvallastræti og baritonsöngvara frá Álandseyjum í safnaðarheimili Glerárkirkju.

Ég var bergnuminn af fuglasöngnum, svo ég mátti mig ekki hræra meðan hundrað snjótittlingar sungu í einni Alaskaösp. Vonandi lifa þessir vinir mínir hinn harða vetur af, en hann hefur verið þeim erfiður.

Kaffivélin hefur sig til flugs kl. 16.00. Ég sting mannbroddunum í vasann og slepp óskaddaður úr Akureyrarjökli, en oft minntist ég orða Tómasar Guðmundssonar, þegar hálkan var mest: "Elsku Drottinn, núna var ég nærri dottinn."

Höfundur er lögfræðingur og býr ýmist á Akureyri eða í Reykjavík.

"Dettu ekki þó þú hallist, séra Matthías." (Sigurhæðir og Akureyrarkirkja.)

Greinarhöfundur við afgreiðslu Morgunblaðsins á Akureyri.

Þessi mynd birtist í Jólalesbók Morgunblaðsins 1956 með sögu Gunnars Gunnarssonar, "Á botni breðans".