Sódómu vel tekið vestra SÓDÓMA Reykjavík, kvikmynd Óskars Jónassonar, fær frábæra dóma og hæstu einkunn í nýjasta hefti tímaritsins Entertainment Weekly, útbreiddu vikuriti sem fjallar um alla helstu þætti bandaríska skemmtiiðnaðarins.

Sódómu vel tekið vestra

SÓDÓMA Reykjavík, kvikmynd Óskars Jónassonar, fær frábæra dóma og hæstu einkunn í nýjasta hefti tímaritsins Entertainment Weekly, útbreiddu vikuriti sem fjallar um alla helstu þætti bandaríska skemmtiiðnaðarins. Sódóma er nýlega komin út á myndbandi á Bandaríkjamarkaði og ber þar nafnið Remote Control, Fjarstýringin. Dómurinn, sem hér fer á eftir, birtist í ramma sem er sérstaklega ætlaður til að vekja athygli lesenda á athyglisverðum myndum sem hætt væri við að hlytu ella takmarkaða útbreiðslu.

Ísland er best þekkt í heimi alþýðumenningarinnar fyrir tilgerðarlegar rokkhljómsveitir en rekur af sér slyðruorðið með myndinni Remote Control," segir í upphafi umfjöllunarinnar. Myndin er í anda After Hours og fjallar um náunga sem reynir að hafa upp á fjarstýringu móður sinnar ­ þeirri sem myndin dregur nafn sitt af ­ en lendir í slagtogi og útistöðum við treggáfaða glæpamenn og síðhærða rokkara. Þrátt fyrir að myndin sé textuð getur maður ekki haft augun af skjánum þar sem samansafn furðufugla hitar hlaupkalla á mælaborði, reynir að finna síðustu Spur Kóla-flöskuna og gerir örvæntingarfulla leit að sementi til að steypa utan um fæturnar á einhverjum. Lærdómurinn sem draga má af myndinni er þessi: Helstu töffararnir meðal amerískra kvikmyndagerðarmanna eiga enn á hættu að þegar stíll er annars vegar verði valtað yfir þá af fólki sem býr við myrkur í nokkra mánuði á ári."

Sódómu er gefin hæsta einkunn, A. Þá einkunn hlýtur aðeins eitt þeirra 11 nýju myndbanda sem til umfjöllunar eru í þessu hefti tímaritsins; Rauðu skórnir, hin sígilda mynd Michael Powells og Emerics Pressburgers frá 1948.