Kvikmyndin 100 ára Skemmtanir fyrir fólkið Eftir HJÁLMTÝ HEIÐDAL Árið 1895 telst vera fæðingarár kvikmyndarinnar og þar eru bræðurnir Auguste og Louis Lumiére brautryðjendur. Hér á landi eru það feðgarnir Þorlákur Ó.

Kvikmyndin 100 ára Skemmtanir fyrir fólkið Eftir HJÁLMTÝ HEIÐDAL Árið 1895 telst vera fæðingarár kvikmyndarinnar og þar eru bræðurnir Auguste og Louis Lumiére brautryðjendur. Hér á landi eru það feðgarnir Þorlákur Ó. Johnson og Ólafur sonur hans sem kynna þessa tækni, fyrst með hreyfanlegum skuggamyndum en "Edisons lifandi ljósmyndir" voru fyrst sýndar hér sumarið 1903.

ótt árið 1895 sé jafnan talið marka þau tímamót er kvikmyndin kom fram í þeirri mynd sem við þekkjum hana, ber ekki að líta svo á að hún sé ein einstök uppfinning; í rauninni er hún afsprengi margskonar tilrauna og flókinnar þróunnar. Allt frá upphafi sextándu aldar glímdu menn við frumatriði kvikmyndatækninnar; ljósgjafa, ljósnæm efni, tækni til að taka myndir og loks að sýna áhorfendum. Smásaman urðu til tæki og aðferðir sem runnu saman í einn farveg og kvikmyndir náðu almannahylli um sl. aldamót.

Forverar kvikmyndanna voru skuggamyndirnar. Litríkir sýningarmenn ferðuðust milli borga og bæja Evrópu á átjándu öld, þeir lífguðu uppá fásinnið með "töfralampanum" (Lanterna magica) og sýndu þakklátum áhorfendum frumstæðar handmálaðar skuggamyndir. Með hjálp ljósmyndatækninnar, sem þróaðist ört í upphafi nítjándu aldar, gátu skuggamyndamennirnir sýnt íbúum afskekktra þorpa sem stórborga undur veraldar, og sífellt færðust þeir í aukana og þar kom að þeir gátu sýnt hreyfanlegar skuggamyndir. Var þá stutt í tilurð eiginlegra kvikmynda.

Árið 1895 sýndu bræðurnir Auguste og Louis Lumiére í fyrsta sinn opinberlega uppfinningu sína er þeir nefndu "Cinématographe". Þar með var kvikmyndin komin til sögunnar. Tiltrú Auguste Lumiére á kvikmyndum var ekki mikil og taldi hann að um stundarfyrirbrigði væri að ræða og réð því áhugasömum mönnum frá því að leggja fé°í slíkan búnað.

Annar upphafsmaður kvikmynda, Thomas A. Edison, áttaði sig heldur ekki á möguleikum kvikmyndanna í upphafi. Hann taldi það nægja að sýna myndirnar í tæki sínu er hann nefndi "Kinetoscope", en í því tæki gat aðeins einn áhorfandi séð myndina hverju sinni. En Louis Lumiére hóf stórfelldan rekstur og sendi kvikmyndatökumenn víða um heim og á tæpum tveimur árum náði kvikmyndatæknin til allra heimshorna.

Margir uppfinningamenn kepptu á sama tíma að sama marki og Lumiérebræður. Nefna má Þjóðverjann Max Skladanowsky sem sýndi tæki sitt "Bioskop" opinberlega 1895. En tækni hans jafnaðist ekki á við hið snilldarlega "Cinématographe"-tæki Lumiére-bræðra. Það var ekki eingöngu notað til þess að taka myndir, með lítilli fyrirhöfn var hægt að breyta því í framköllunarvél og einnig sýningarvél. Kvikmyndatökumenn gátu þannig ferðast um með þessa einu vél, tekið myndir, framkallað og sýnt samdægurs. Þetta fjölhæfa undratæki frá árinu 1895 líkist að þessu leyti kvikmyndavélum nútímans; vídeómyndavélum sem nú eru orðnar almenningseign. Þær eru notaðar bæði sem upptöku- og sýningarvélar og eru til í milljónatali um allan heim.

SKUGGAMYNDASÝNINGAR Á ÍSLANDI

Ólafur Þ. Johnson sem stofnaði ásamt fleirum fyrsta kvikmyndafélagið á Íslandi árið 1903 sagði svo frá fyrstu kynnum sínum af kvikmyndum: "Þegar ég var í Kaupmannahöfn veturinn 1898, hafði ég séð lifandi myndir (kvikmyndir) sem þá voru sýndar þar í fyrsta sinn, sem eitt skemmtiatriði í Cirkus. Var ég strax ákaflega hrifinn af slíkum myndum, alveg gagntekinn og hugsaði mér þá strax að slíkt mundi slá í gegn heima." Ólafur átti ekki langt að sækja áhuga sinn á myndasýningum því faðir hans, Þorlákur Ó. Johnson, var frumkvöðull á þessu sviði sem fleirum. Á árunum 1883­1892 stóð hann fyrir skuggamyndasýningum á skemmtunum er hann hélt og nefndi ætíð "skemmtanir fyrir fólkið".

Þorlákur Ó. Johnsen kom víða við sögu sem brautryðjandi, m.a. í verslunarháttum og auglýsingum auk þess sem hann reyndi að vekja athygli útlendinga á Íslandi til ferðalaga. Þorlákur var búsettur erlendis í 17 ár, lengst af í Englandi, en flutti alkominn heim árið 1875. Skemmtanalíf Reykvíkinga var fátæklegt á þessum tíma og töluverður drykkjuskapur meðal verkafólks og sjómanna. Þorlákur vildi vinna gegn þessu og átti hann ásamt Matthíasi Jochumssyni o.fl. frumkvæðið að stofnun Sjómannaklúbbsins í október 1875, "hollan griðastað til menntunar og endurnæringar, þegar þeir væru í landi og annars hefðu lítinn þarflegan starfa með höndum" (Úr heimsborg í Grjótaþorp I, e. L.K., bls. 184).

Sjómannaklúbburinn leið undir lok eftir rúmlega tveggja ára starfsemi. En Þorlákur hélt áfram skemmtanahaldi og naut þar kynna sinna af slíkum alþýðuskemmtunum í Englandi. Hann var félagi í breska Landfræðifélaginu og þar sá hann hvernig skuggamyndir voru notaðar til skýringa á fyrirlestrum ferðalanga. Hann hóf skuggamyndasýningar í samstarfi við Sigfús Eymundsson ljósmyndara, en Sigfús sýndi skuggamyndir fyrst árið 1870. Samvinna þeirra stóð aðeins fyrsta árið en Þorlákur hélt sýningunum áfram einn í nokkur ár. Upphaf skuggamyndasýninga Þorláks birtist Íslendingum í blaðinu Ísafold þ. 19. desember 1883:

"Fyrir sveitamenn og aðra, er koma til Reykjavíkur um jólin og nýárið ­ þá verða sýndar á Hótel Ísland fallegar skugga myndir eða Panorama ­ í allt 150 myndir ­ bæði frá London ­ Ameríku ­ Edinborg ­ Sviss ­ París ­ Ítalíu ­ Afríku og fleiri löndum."

Í blaðinu Þjóðólfi þ. 15. nóvember 1884 var sagt svo frá þessum sýningum Þorláks: "Það eru skriðbyttumyndir með litum (landterna-magica-myndir) af fögrum mannaverkum, borgum, stórhýsum, einnig af viðburðum, sömuleiðis fagrar landslagsmyndir. Nokkrar myndir eru einlitar aðeins, og eru þær af innlendum byggingum eða landslagi ... Í vorum skemmtanalausa bæ er þetta fyrirtæki mjög þakkarvert og mun vafalaust fá aðsókn almennings eins og það á skilið."

Tilgangur Þorláks með myndasýningunum var bæði að skemmta og fræða. Hann lýsti þessu á eftirfarandi hátt í auglýsingu 2. desember 1891: "Fæstir af oss hafa ráð á að ferðast um heiminn og sjá alla þess undrahluti, en flestir hafa ráð á að afla sér slíks fróðleiks fyrir fáeina aura með því að sækja slíkar myndasýningar. Ég hef nú um nokkur undanfarin ár flutt landa mína, er sótt hafa slíkar sýningar, víðs vegar ... Og nú, kæru landar, opna ég fyrir yður enn nýja veröld með nýjum myndum, sem koma með Lauru og sem ég sýni í stóra salnum á Hótel Ísland."

Jólin 1889 sýndi Þorlákur það sem hann kallaði "hreyfanlega mynd" og munu það vera fyrstu kvikmyndirnar sem sýndar voru hér á landi. Ekki voru það þó kvikmyndir eins og við þekkjum þær því þetta voru eftir því sem best er vitað skuggamyndir sem hægt var að sýna nokkrar saman og mynda hreyfingu með ýmsum tilfæringum. Þorlákur hætti sýningum sínum 1892. Heilsa hans var tekin að bregðast um þetta leyti og varð hann að mestu óvinnufær til dauðadags árið 1917.

FYRSTA KVIKMYNDAFÉLAGIÐ

Kvikmyndir voru sýndar í fyrsta sinn á Íslandi sumarið 1903 er hingað komu tveir Norðmenn með "Edisons lifandi ljósmyndir". Urðu sýningar þessar fjölsóttar. Haustið 1903 stofnaði Ólafur Þ. Johnson ásamt Magnúsi Ólafssyni ljósmyndara o.fl. fyrsta kvikmyndafélagið undir nafninu O. Johnson & Co. en árið 1906 var nafninu breytt í Íslenska lifandimyndafélagið. Varðveitt er bréf þar sem Ólafur lýsir aðferðum er þeir beittu við sýningarnar í Bárubúð:

Sýningunum stjórnaði Magnús Ólafsson aðallega, en með aðstoð minni. Hans Hoffmann stjórnaði Grammófóninum, sem var gríðarlega stór með trekt, og ennfremur stjórnaði hann ýmsum tiltektum okkar í sambandi við sýningarnar ... svo sem að framleiða brimhljóð, þegar stórfellt brim var sýnt, sem að gerðist þannig að heilmiklu af samankrulluðum umbúðapappír var nuddað eftir gólfinu bak við sýningartjaldið. Fallbyssuskot voru einnig "framleidd" í sambandi við sjóorrustu Rússa og Japana við Port Arthur, þannig að endi á panel-borði var látinn skella upp að vegg og mynduðust þannig skot og drunur." En ekki gengu sýningarnar áfallalaust í upphafi eins og eftirfarandi lýsing úr bréfi sýnir:

"Á sunnudaginn var myndasýning. Það voru lifandi myndir. En þær mistókust alveg því þeir sem sýndu voru ekki æfðir í því. Sumar myndirnar komu á höfði, sumar á hliðinni en verstar voru þær sem voru hálfar." (Saga Reykjavíkur e. G.F., F.b. bls. 458)

1906 eru Ólafur og félagar byrjaðir að taka kvikmyndir og sýna. Í 55.tbl. Lögréttu segir frá því að Íslenska lifandimyndafélagið hafi sýnt leikna mynd í Bárubúð. Þar segir jafnframt að myndin sé tekin af þeim sjálfum og "ein af þeim er af Jóni Jenssyni og er leikurinn sá að hann dettur þar hverja byltuna á fætur annari, rís upp úfinn og sár, kemur inn aftur, en aldrei til annars en detta".

Sýningarljósið var gasljós, og var gasið framleitt á staðnum með miklum tilfæringum. Stundum þraut gasið í miðri sýningu og urðu Ólafur og félagar "í slíkum tilfellum, kanski eftir tæpan hálftíma, að hætta sýningum um stund, eða þangað til okkur hafði tekist að framleiða meira gas ... var þá spilað á grammófóninn á meðan til þess að halda öllu gangandi. Yfirleitt þekktum við alls ekki neitt inn í þessi ljóstæki, en okkur hafði verið sagt að fara afar varlega, einkum með Etherlampann, sem orsakað gæti næga sprengingu til að sprengja þakið af Bárunni" (Bréf Ó.Þ.J.). Allan tímann sem á sýningunum stóð voru Ólafur og félagar hans því með lífið í lúkunum, því ekkert mátti út af bregða svo ekki kviknaði í öllu saman. Fór reyndar svo að lokum árið 1907 að það kviknaði í filmunni hjá þeim og hættu þeir þá starfseminni. Seldu þeir Vilhelm Knudsen á Akureyri "allt úthaldið". Árið 1906 eru starfandi tvö félög er sýna kvikmyndir í Reykjavík því 2. nóvember það ár var Reykjavík Biograftheater stofnað (síðar Gamla bíó). Forsvarsmenn beggja félaganna hófu kvikmyndatökur árið 1906; má því að telja það ár upphafsár íslenskrar kvikmyndagerðar.

Heimildir: David Robinson: World Cinema 1885­1980 Erik Barnouw: Documentary, A History of the Non-Fiction Film. Erlendur Sveinsson: Punktar úr íslenskri kvikmyndasögu og Kvikmyndir á Íslandi í 75 ár. Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur 1870­1940, fyrri hluti. Lúðvík Kristjánsson: Úr heimsborg í Grjótaþorp. Ólafur Þ. Johnson: óbirtar endurminningar og bréf 1948. Robert Sklar: Film, an International History of the Medium. Roger Manvell: The Film and the Public.

Auglýsingaplakat fyrir ferðabíó frá aldamótaárinu 1900. Hér er verið að sýna mynd af skrúðgöngu hers, sem var vinsælt myndefni þá, en stjórnandi framan við tjaldið sýnir að hljómsveit lék undir.

Þorlákur Ó. Johnson, f. 1838, d. 1917. Hóf skuggamyndasýningar á Hótel Íslandi árið 1883.

Ólafur Þ. Johnson, f. 1881, d. 1958. Stóð að stofnun Íslenska lifandimyndafélagsins, fyrsta kvikmyndafélagsins á Íslandi, árið 1903.

Skuggamyndir Þorláks Ó. Johnson. Í Þjóðminjasafninu eru varðveittar um 90 skuggamyndir sem Þorlákur sýndi. Sigfús Eymundsson ljósmyndari var félagi Þorláks fyrsta árið, hann tók flestar myndirnar er sýndu Ísland og íslenska muni. Erlendu myndirnar keypti Þorlákur á ferðum sínum í Englandi. Kassinn með skuggamyndum Þorláks var í vörslu Þorvalds Thoroddsen jarðfræðings og geymdur í safni hans sem gefið var Þjóðminjasafninu við andlát Þorvalds.

Frá Krísuvík (eftir enskri ferðabók) Handmáluð skuggamynd úr safni Þorláks Ó. Johnson.

Vopnafjörður, skuggamynd úr safni Þorláks Ó. Johnson. Ljósm. Sigfús Eymundsson.

Auglýsing frá Þorláki Ó. Johnson.

Louis Lumiére

Sýningarmaður á ferðalagi með skuggamyndavélina á bakinu 1895.