Íbókinni "Manngerðir hellar á Íslandi" er langur kafli um Rútshelli, enda telst hann til merkari húsa á Íslandi, höggvinn út af mönnum, ævaforn og ríkur af sögum. Þegar bókin var skrifuð hafði þessi tvískipti hellir um langt skeið verið fullur af heyi og jarðvegi og því erfitt að rannsaka hann.
Forn smiðja

í Rútshelli

Eftir HALLGERÐI GÍSLADÓTTUR og ÁRNA HJARTARSON

Rútshellir er ein af okkar alskemmtilegustu minjaperlum og líklega elsta hús af manna höndum gert sem nú stendur uppi á Íslandi.

Íbókinni "Manngerðir hellar á Íslandi" er langur kafli um Rútshelli, enda telst hann til merkari húsa á Íslandi, höggvinn út af mönnum, ævaforn og ríkur af sögum. Þegar bókin var skrifuð hafði þessi tvískipti hellir um langt skeið verið fullur af heyi og jarðvegi og því erfitt að rannsaka hann.

Sumarið 1992 lét Magnús Eyjólfsson bóndi á Hrútafelli hreinsa út úr báðum hlutum hellisins og gafst þá færi á að skoða hann og mæla. Hér verður vakin athygli á mannvirkjum í þeim hluta hellisins sem Stúka heitir og gengur hornrétt á aðalhellinn norðanverðan. Smiðir Stúku virðast hafa byrjað nokkkuð norðan við aðalhellinn og höggvið sig síðan upp með honum og yfir hann. Þannig myndast bálkur sem þjóðsagan kallar svefnrúm Rúts og á honum er gat niður í hinn hlutann. Það áttu fjandmenn Rúts að hafa gert til að geta vegið hann í rúminu. Hafi menn á annað borð búið í hellinum var ekki verra að sofa þarna en víða annars staðar. Gatið í "rúmbotninum" gaf loftræstingu sem vart mun hafa veitt af meðan kynt var undir afli á neðri hæðinni en eins og vikið verður að síðar er smiðjubúnaður klappaður í gólf Stúku. Það mun þó ekki einsdæmi að smiðjur hafi verið inni í híbýlum manna því að í Áslákstungu, Innri-Þjórsárdal, hefur smiðjubúnaður fundist í endanum á fornri skálarúst.

Rútshelli er lýst í a.m.k. þremur 18. aldar heimildum, fyrst í Jarðabókinni frá 1703 og í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar segir að hann sé höggvinn af manna höndum í fornöld og að stundum hafi menn búið í honum áður fyrr. Þar er einnig fyrst prentuð þjóðsagan um Rút sem gerði hellinn og fjandmenn hans sem þá "hefur gengið í munnmælum mann fram af manni" eftir því sem þeir Eggert segja. Hún er til í mörgum gerðum og er til skýringar innanbúnaði hellisins og örnefnum í nágrenninu. Þriðja heimildin er Sýslulýsingar 1744-1749. Í 19. aldar ritum er einnig víða minnst á Rútshelli. Í greinargerð sr. Ólafs Pálssonar um fornleifar frá 1818 er honum lýst og þar eru sérstaklega nefndar höggnar holur í gólf Stúku.

Svo stiklað sé á stóru í sögu Rútshellis, þá birtist þessi innanbúnaður aftur í lýsingu frá 1936, en þá komu hingað nokkrir þjóðverjar á vegum Ahnenerbe, sem var einskonar vísindastofnun á vegum nasistaflokksins undir forræði Heinrichs Himmlers og hluti af SS-sveitum hans. Þjóðverjarnir höfðu einkum áhuga á að rannsaka íslenskar hofrústir. Meðal þeirra var dr. Walter Gehl, háskólamenntaður maður í norrænum fræðum. Ekki er að orðlengja að í Rútshelli þóttust þeir finna heiðið hof. Stærri hellirinn var samkomustaðurinn, í Stúku var dýrum fórnað og lýsir Gehl innanbúnaði þar, m.a. þríhyrndum fórnarstalli sem höggvinn var í móbergið.

Eftir að Magnús á Hrútafelli hreinsaði út úr hellinum komu þessi mannvirki í ljós. Fremst í Stúku eru þrjár holur sem auðsæilega eru þær sömu og sr. Ólafur Pálsson lýsir í skýrslu sinni frá 1818. Þar er einnig þríhyrnda móbergsupphækkunin á gólfinu og ummerki öll nákvæmlega eins og sjá má í grein dr. Gehls hins þýska frá 1939. Hann taldi að hér hefðu blót átt sér stað í heiðnum sið. Goði byggðarlagsins stjórnaði athöfnum. Fórnardýr var leitt að fórnarstallinum þríhyrnda, bandi var smeygt í berghaldið og dýrið reyrt með hálsinn þétt við steininn. Höfuðslagæðin lá þá yfir holunni, sem Gehl giskaði á að væri hlautbolli. Dýrið var skorið og blóðið flæddi í bollann og út um skarðið eða rennuna í barmi hans og niður í ferningslaga holuna á gólfinu, í hinni stóð öndvegissúla. Beint yfir bollanum og deyjandi dýrinu lá ósýnileg "töfralína" milli tákna sem rist eru í veggj báðum megin. Frammi í veislusalnum sat fólkið sem að blóti kom við snarkandi langelda á gólfi og beið þess að kjötið yrði fært fram til steikingar. Þetta sáu Gehl og félagar hans fyrir sér í Rútshelli sumarið 1936. Þeir áttuðu sig hins vegar ekki á að hellirinn var af manna höndum ger.

Smiðja forn

Sr. Ólafur Pálsson hafði allt aðrar hugmyndir en hér að ofan er lýst. Hann segir að í móbergsgólf Stúkunnar séu "holur sem sagt er að sé "nóstokkur Rúts, aflgröf hans, steðjastæði hans". Og í skýrslunni teiknar hann holurnar upp, raunar afar illa og án mælikvarða en þó sést vel hvað er hvað. Nóstokkur var ker eða ílát sem notað var til að snöggkæla og herða járn við smíðar. Aflgröf var sæti smiðsins og steðjastæði, sem stundum var nefnt steðjaþró, var til að skorða niður steðja. Í þessum orðum felst að Stúkan hafi verið smiðja, og þar sem steðjastæðið er á upphækkaðri móbergsklöpp, sem skilin hefur verið eftir í gólfinu þegar hellirinn var höggvinn, má ljóst vera að þarna hafa menn strax í upphafi hugsað sér að gera smiðju.

" A Ð S ETJAST Í A FLGRÖF"

Orðið aflgröf er athyglisvert. Í afmælisriti Sigurðar Þórarinssonar, Eldur er í norðri, er grein eftir Kristján Eldjárn sem hann nefnir "Að setjast í aflgröf", en þar lýsir hann smiðjunni í Stöng í Þjórsárdal. Orðið kemur fyrir í Þiðriks sögu af Bern þar sem Velent sest í aflgröf og smíðar hníf. Utan orðabóka, sem skýrðu orðið ekki öðruvísi en sem gróf fyrir framan afl fann Kristján það einungis á tveimur stöðum hjá annálariturum seinni alda. Bæði eru dæmin rituð á fyrri hluta 18. aldar, annað er í uppskrift af gömlum söguþætti þar sem segir af manni sem sest í aflgróf og smíðar nagla, hitt segir frá manni á Eyrarbakka sem varð bráðkvaddur í aflgróf árið 1724. Skýrsla sr. Ólafs er þriðji staðurinn. Nýlega benti Þór Magnússon þjóðminjavörður okkur á tvær heimildir í viðbót. Rit er nefnt De divetis artibus, talið vera frá 12. öld og eftir þýskan mann, Þeófílus að nafni. Þar segir meðal annars frá því hversu skuli gera málmsmiðju. Í undirkafla, "Sæti verkamanna", segir svo: "Síðan skal grafa gröf innan við glugga, 3ja feta langa og 2ja feta breiða, eitt og hálft fet frá gluggaveggnum og beint út frá honum. Klæða skal gröfina allt um kring með borðum, tvö þeirra sem eru gegnt glugganum eiga að ná hálft fet upp fyrir gröfina. Á þau skal festa borði sem er þrjú fet á annan veginn en tvö á hinn og liggur yfir gröfina og er yfir hnjám mannanna sem sitja í henni og þvert á þá." Í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar er þáttur af Þorsteini sterka í Krossavík sem fæddur var rétt fyrir aldamótin 1800. Þar segir um smiðju á Eyjólfsstöðum á Völlum. "Þar stóð stór drepsteinn úti fyrir smiðjudyrum. Gryfja var í gólfinu, hæfilega djúp til að sitja á brún hennar þegar lúð var járn á steini þeim." Smiðjan kemur við sögu vegna aflrauna Þorsteins sem kastaði steininum í aflgröfina og þreif hann síðan upp aftur. Nærri eldstæðinu í smiðjunni í Stöng er ferstrend þró eða kassi. Öðru megin við hana er steðjastæði en hinu megin er aflangt móbergsker. Kristján telur með vissu að þetta sé nóstokkur og varpar fram þeirri kenningu að þróin í miðið sé aflgröf, og að orðatiltækið "að setjast í aflgröf" vísi til þess að járnsmiðurinn hafi setið við iðju sína með fæturna ofan í þrónni. Þessi kenning Kristjáns var dregin í efa á sínum tíma. Ofannefnd dæmi til viðbótar þeim sem hann færði fram virðast sanna svo ekki verður um villst að tilgáta hans var rétt. Svipaðar steinþrær af stærð og gerð hafa fundist í smiðjubúnaði í öðrum fornum bæjarrústum svo sem á Þórarinsstöðum á Hrunamannaafrétti og í Sandafelli og Áslákstungu innri í Þjórsárdal.

Hið forna vinnulag í smiðjunum virðist hafa verið að gera alla hluti á gólfinu. Á seinni öldum breyttist þetta og þá fór að tíðkast að hafa eldstæðið, aflinn, á upphlöðnum grjótbálki og þá stóð smiðurinn að verki sínu eða sat á stól. Sömu þróun má sjá varðandi mateldstæði. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær þetta gerist en í smiðjum sem hafa verið rannsakaðar hafa ekki fundist yngri þrær en frá því á 12. öld. Í smiðju sem Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur gróf upp í Kópavogi og talin er vera frá því nálægt 1500 er aflinn enn á gólfinu, þó að því leyti frábrugðinn eldri öflum að þar er dálítil hleðsla við eina hliðina. Þar er hins vegar ekki aflgröf. Vafalítið hefur ferill smiðjuaflsins frá gólfi og upp í þá hæð sem síðar varð vanalegust verið mjög misjafn eftir landshlutum og aðstæðum. Dæmi eru einnig til af eldhúsum með eldstæði niður við gólf á síðustu öld þó að upphækkaðar hlóðir hafi þá löngu verið vanalegastar. Af ofannefndum heimildum má hins vegar ráða að smiðjuafl á gólfi með aflgróf hafi verið þekkt fyrirkomulag á einhverjum stöðum fram í byrjun 19. aldar.

Þegar litið er á uppdrátt af smiðjunni í Stöng kemur í ljós nær nákvæmlega sama afstaða steðjastæðis, nóstokks og aflgrafar og er í Rútshelli. Auk þess eru öll mál áþekk. Ekki sér lengur neitt fyrir eldstæðinu í Stúku, það hefur verið í seilingarfjarlægð við aflgröfina, líklega rétt við steðjasteininn. Einnig vantar reksteininn sem notaður var til að grófhamra á heitan málminn. Hugsanlega kæmi eitthvað fleira í ljós ef hleðslur í Stúkumunna yrðu teknar upp. Það vantar líka stromp á þessa smiðju og myndi ýmsum þykja nokkur missmíði. Ekki er víst að það hafi komið að sök því smíðastaðurinn er fast við hellismunnann og vegna opsins á milli hellanna hefur verið sæmileg loftræsting við smíðarnar þegar dregið var frá báðum dyrum. Þá má minna á að í öðrum manngerðum helli sem sannanlega var smiðja, helli Myllu-Kobba á Stórubrekku í Fljótum, var ekki heldur strompur.

Rútshellir er ein af okkar alskemmtilegustu minjaperlum og líklega elsta hús af manna höndum gert sem nú stendur uppi á Íslandi. Og eina uppistandandi hús hérlent með forna smiðjufyrirkomulaginu sem að ofan er lýst - og jafnvel þó að víðar væri leitað.

RÚTSHELLIR. Sagan um Rút í Rútshelli er til í mörgum afbrigðum. Samkvæmt Ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld var Rútur jötunn sem gerði hellinn til að hafa öruggt vígi fyrir fjendum sínum. Þeir komust hins vegar í neðri hellinn, brutu gat á loftið sem var undir svefnbálki Rúts og vógu hann þar í gegn með spjótum sínum. Í öðrum gerðum sögunnar kom Rútur að óvinum sínum þar sem þeir voru að höggva gatið, elti þá uppi og drap þá. Eru mörg örnefni sem vísa til þessara drápa. Hellirinn er höggvinn inn í móbergshöfða, sem gengur fram úr hlíð Hrútafells rétt ofan þjóðvegar skammt frá samnefndum bæ.

Ljósmyndir:Hallgerður GísladóttirÚR STÆRRI hellinum. Hér sá Walter Gehl fyrir sér að blótveislur hefðu verið haldnar í heiðni. Gríðarlega mörg lítil berghöld eru á veggjum hér. Magnús Eyjólfsson bóndi á Hrútafelli hefur getið sér til að þau hafi verið notuð til að strengja t.d. húðir á veggi til að gera hellinn vistlegan.

NÓSTOKKUR, steðjastæði og aflgröf í Stúku.

ÚR STÆRRI hellinum á meðan hann var enn fullur af heyi.