KAFFI SJÓNARHORN Sennilega er fæstum ljóst að kaffið hefur nánast jafn mikið vægi í heimsviðskiptum og olían. Eins og olían drífur áfram vélar, eykur kaffið fólki þrótt.

KAFFI SJÓNARHORN Sennilega er fæstum ljóst að kaffið hefur nánast jafn mikið vægi í heimsviðskiptum og olían. Eins og olían drífur áfram vélar, eykur kaffið fólki þrótt. Margrét Þorvaldsdóttir kannaði sögu þessa eðal-drykkjar sem hressir bæði líkama og sál enda hafður um hönd hvenær sem tækifæri gefst.

KAFFIHÚS hafa risið upp eins og gorkúlur á undanförnum árum hér í höfuðstaðnum og virðast þau njóta mikilla vinsælda fólks á öllum aldri sem hittist þar gjarnan og ræðir málin. Kaffihús eru ekkert nútíma fyrirbrigði, Charles 11 Englandskonungur fyrirskipaði árið 1675 að þrjú þúsund kaffihúsum í landinu skyldi lokað, þar sem þetta væru fundarstaðir þar sem alið væri á uppreisnaranda borgaranna. Hann varð að afturkalla skipan sína nokkrum dögum síðar vegna kröftugra mótmæla fólksins.

Kaffið fyrst ræktað á 7. öld og þótti snemma ómissandi

Kaffi var fyrst ræktað í Yemen á 7. öld. Ein sagan hermir að arabískur "mullah" hafi veitt athygli geitum sem hlupu fullar af fjöri um holt og hæðir eftir að hafa étið lauf og ávexti af ákveðnum runnum. Hann fékk hugmynd og gerði úr þessu blöndu sem hann gaf munkum sínum til að halda þeim vakandi á stundum íhugunar á kvöldin.

Kaffidrykkur náði mikilli útbreiðslu á á sautjándu öld í Mið-Austurlöndum, í Persíu og Tyrklandi og í Evrópu og Ameríku. Kaffið þótti ómissandi við félagslegar athafnir. Hjá mörgum þjóðum var kaffi notað til að sýna gestum hve velkomnir þeir voru. Bedúínar helltu t.d. aðeins fjórum sopum af kaffi í bollann í einu. Að fylla lítinn bolla var merki um að gestinum bæri að tæma bollann og fara síðan.

Kaffihús urðu vinsælli en bænahús - lokun fyrirskipuð

Kaffihús urðu mjög vinsæl, þau urðu jafnvel vinsælli en moskurnar og leiddi það til þess að í Mekka var fyrirskipað að loka skyldi öllum kaffihúsum árið 1511, í Kaíró árið 1534 og í Konstantínopel, nú Istanbul, voru þau bönnuð af mörgum trúarsöfnuðum. Ítalir urðu fyrstir Evrópubúa til að nota kaffi um 1660 og þaðan barst það fljótlega um alla Evrópu og voru kaffihús opnuð um alla álfuna. Þau urðu fljótlega svo vinsæl, sem samkomustaðir þjóðfélagslegrar-, bókmenntalegrar- og pólitískrar umræðu og þóttu bjóða upp á svo opinskáa umræðu, að yfirvöld urðu mjög óróleg. Þá var það að Charles II Englandskonungur fyrirskipaði lokun kaffihúsanna, en varð að taka skipunina til baka þegar almenningur mótmælti.

Evrópubúar hófu kaffirækt í Ameríku og Asíu

Evrópubúar urðu síðan mjög iðnir við að koma upp kaffirækt í löndum annars staðar í heiminum. Hollendingar hófu kaffirækt á eynni Jövu. Louis XIV Frakklandskonungur fékk landa sinn Desclieux til að kynna kaffið í nýja heiminum. Hann var sendur með græðlinga kaffitrésins til Ameríku og kom hann til eyjarinnar Martinique árið 1772. Græðlingar voru síðan fluttir þaðan til landa í Mið- og Suður-Ameríku, þar á meðal til Brasilíu sem hefur orðið eitt helsta framleiðslulandið, þar eru nú framleidd um 1.5000.000 tonn af kaffi á ári.

Kaffi var fyrst flutt til Íslands á 18. öld

Innflutt voru 20 kg af kaffi 1760 - en 1976 tonn árið1994

Hingað til lands var kaffið ekki flutt inn fyrr en á 18. öld. Árið 1760 eru tæp 20 kg af kaffi flutt inn á vegum Hólmsverslunar (í Reykjavík). Jón Aðils sagnfræðingur telur að sá innflutningur hafi e.t.v. tengst iðnverksmiðjunum í Reykjavík. Innflutningurinn jókst hægt. Árið 1772 eru flutt inn um 50 kg, en 1779 er innflutningurinn orðinn um 1.600 kg, en þá eru heldri bændur sagðir vera farnir að venjast góðgætinu. Kaffið varð ekki aðeins drykkur góðbænda heldur alls þorra fólks og hefur verið það síðan. Á síðasta ári voru flutt inn 1.976 tonn af kaffi fyrir 535,1 milljón króna, samsvarar það 7,6 kg af kaffi á hvert mannsbarn í landinu.

Kaffiiðnaðurinn þróaður til að mæta auknum gæðakröfum

Kaffiiðnaðurinn hefur verið þróaður til að mæta kröfum hinna ýmsu þjóða sem setja fram mismunandi gæðakröfur. Þjóðverjar vilja t.d. bragðmilt kaffi, Frakkar vilja aftur á móti hafa það dökkt og sterkara. Pólverjar vilja bragðmikið kaffi og Spánverjar vilja ekki aðeins ekta kaffi heldur einnig kaffi úr baunum sem hafa verið úðaðar örlitlum sykri í brennslu. Það vekur athygli að í Vestur-Evrópu er kaffineyslan mest á Norðurlöndum, Hollandi og Belgíu eða allt að 13 kg á mann, í Englandi er hún 3,5 kg, í Frakklandi og á Ítalíu er hún 5 kg, minnst er kaffineyslan í Tyrklandi, aðeins 1 kg á mann.

1 mynd