Ingibjörg Emma Emilía Indriðadóttir - viðb

Ingibjörg var fædd á Breiðabólstað í Vatnsdal. Hún fluttist ung með foreldrum sínum að Blönduósi þar sem hún ólst upp ásamt fjórum systkinum sínum. Um tvítugt fór Ingibjörg til starfa í Reykjavík og síðar austur í Mýrdal þar sem hún giftist Þorláki Björnssyni, bónda í Eyjarhólum, 1937. Ingibjörg og Þorlákur bjuggu í Eyjarhólum þar til 1974 að þau létu búið í hendur Björns sonar síns. Fluttust þau þá að Selfossi þar sem þau áttu heima að Heiðarvegi 10. Þorlákur lést 1987. Síðustu árin eftir að heilsan hafði bilað var Ingibjörg á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi þar sem hún naut góðrar umönnunar og hlýju góðs starfsfólks.

Ingibjörg og Þorlákur eignuðust átta börn, sem eru öll á lífi nema tveir synir. Auk þess ólu þau upp son Ingibjargar, sem látinn er fyrir allmörgum árum. Afkomendur þeirra eru alls orðnir 46 talsins. Þar af eru 42 á lífi. Það er fyrir hönd okkar systkinanna, maka okkar og barna að ég skrifa þessi fátæklegu orð í minningu hennar.

Búskaparárin í Eyjarhólum voru ekki auðveld. Það var ekki áhlaupaverk að ala upp níu börn og annast stórt heimili við þær aðstæður, sem voru í þá tíð. Þótt íbúðarhúsið hafi verið byggt á fyrstu hjúskaparárum pabba og mömmu var ekki mikið pláss fyrir þann barnafjölda, sem brátt fyllti það. En auk okkar systkinanna voru oft á bænum unglingar sem komið var í sveit. Komu sumir þeirra ár eftir ár og héldu tryggð við mömmu lengi eftir það. Þægindi voru lítil, ekki rafmagn eða rennandi vatn. Bera þurfti kol í hús til upphitunar og matseldar og sækja varð vatn í brunn til neyslu og þvotta. Þau voru ófá sporin hennar mömmu, sem fóru í slíka aðdrætti einkum áður en elstu börnin komust svo á legg að þau gætu létt nokkuð undir. Ómæld var sú vinna sem þurfti til að fæða og klæða þennan stóra barnahóp. Aðstæður og efni leyfðu ekki annað en að klæðnaður væri heimaunninn eins og kostur var. Þær stundir sem ekki fóru í að sinna daglegum húsverkum voru notaðar til sauma og prjóna. Þær flíkur sem við systkinin klæddust fram til unglingsára höfðu flestar orðið til í höndum móður okkar að öllu eða einhverju leyti og margar eru þær orðnar prjónapeysurnar frá ömmu, sem yljað hafa og glatt börn okkar.

Við þessar aðstæður varð starfsvettvangur mömmu fyrst og fremst við heimilið, uppeldi og umönnun barnanna. Lítill tími var aflögu fyrir hana til að sinna útiverkum þó hún sýndi það fyrstu búskaparárin að hún væri vel liðtæk til þeirra. Stundir til að sinna hugðarefnum voru ekki margar. Þær sem gáfust voru notaðar til að hlúa að gróðri og rækta blóm. Mamma hafði mikið yndi af blómum og döfnuðu þau í umsjá hennar og var eins og hún skynjaði með undraverðum hætti hvers hvert og eitt þeirra þarfnaðist til vaxtar og viðgangs. Auk blóma voru ljóð henni hugleikin. Hún hafði dálæti á ljóðum Davíðs Stefánssonar en að öðru leyti var kveðskapur og kvæðagerð hugðarefni hennar eins og fleiri ættingja hennar, sem margir voru virkir í kvæðamannafélaginu Iðunni. Hún mun eins og sumir þeirra hafa átt létt með að binda orð sín í ljóðstafi þótt hún flíkaði því ekki en kunni mikið af vísum og kveðlingum, sem við börnin fengum notið þótt flest sé það nú gleymt.

Mamma var ekki mannblendin og átti ekki stóran hóp vina eða kunningja en þau vináttubönd sem hún batt voru traust. Hún var dul í skapi og flíkaði lítt tilfinningum sínum en vinátta hennar og hlýja gagnvart þeim sem hún hleypti nærri sér var einlæg og eðlislæg. Þeirra eiginleika nutu ekki síst tengdasynir hennar og tengdadætur, sem bundust henni einlægum vináttuböndum og hin mörgu barnabörn hennar sem voru ætíð aufúsugestir hennar fyrst í sveitinni og síðar á Heiðarvegi 10 á Selfossi. Þar hafði hún eignast samastað þar sem hún gat sinnt blómunum sínum innan dyra og utan og þar áttu barnabörnin athvarf sem aldrei var lokað og þar var alltaf skilning að finna. Öll minnumst við með þakklæti jólaboðanna sem hún hélt á jóladag ár hvert eftir að hún fluttist að Selfossi og svo lengi sem heilsa hennar leyfði. Það var kappsmál okkar allra, barna sem fullorðinna, að komast í þetta jólaboð.

Að leiðarlokum kveðjum við góða móður og einlægan vin og þökkum henni samfylgdina.

Indriði H. Þorláksson.