Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir var fædd á Gillastöðum í Reykhólasveit 8. júlí 1936. Ragna lést 21. febrúar 2025 á Dvalarheimilinu Barmahlíð í Reykhólasveit.

Móðir hennar hét Hermína Ingvarsdóttir og faðir hennar hét Eyjólfur Sveinsson. Hún átti fjögur systkini, þau eru Gyða, Ingvar, Stella og Sverrir  sem er jafnframt sá eini eftirlifandi af systkinahópnum.
Fyrri eiginmaður Rögnu var Ingimar Guðjónsson og eignuðust þau Guðjón Ingva Ingimarsson, f. 1960, d. 1961, Kristvin Ingva Ingimarsson, f. 1962, giftur Guðrúnu Geirsdóttur og eiga þau tvær dætur, og Leif Dag Ingimarsson, f. 1965, d. 1985, hann skilur eftir sig eina dóttur, Sigurðu Kristínu Leifsdóttur og tvö barnabörn.

Seinni eiginmaður Rögnu var Hilmar Albert Albertsson og eignuðust þau Albert Hilmarsson, f. 1968, hann á fjögur börn og eitt barnabarn, Hjört Hilmarsson, f. 1970, giftur Kolbrúnu Diego og eiga þau fjögur börn og sex barnabörn, Ásdísi Lilju Hilmarsdóttur, f. 1974, á hún tvö börn, Signar Kára Hilmarsson, f. 1975, giftur Unu Guðnýju Pálsdóttur, eiga þau tvö börn og Hermínu Huld Hilmarsdóttur, f. 1980, gift Þóri Karls Karlssyni og eiga þau tvo drengi.

Útför fór fram 1. mars 2025.

Ragna er fædd og uppalin í sveit, og átti fjögur systkini. Henni fannst hún í raun vera svolítið einkabarn, því fimm til átta ára aldursmunur var á milli systkinanna. Mamma gætti þess alltaf að hafa barnapíu tilbúna fyrir yngsta barnið, sagði hún í blaðaviðtali í kvennablaðinu Veru árið 1989.


Foreldrar hennar, Hermína og Eyjólfur, voru um margt ólík og hún vandist því að tekist var á um andstæð sjónarmið á heimilinu og stóð þá oftar en ekki með móður sinni. Hún fann alla tíð fyrir sterkri samlíðan með konum og tók síðar virkan þátt í kvennabaráttu síns tíma, var jafnvel aðeins á undan sinni samtíð í því.

Bærinn sem þau bjuggu í var gamall baðstofubær með torfi við gafla. Um 1950 byggði faðir hennar síðan steinhús. Eftir stríðið varð hins vegar mikill uppgangur í sveitinni og margt breyttist á stuttum tíma svo að eldri kynslóðinni þótti nóg um, sagði Ragna. Móðuramma hennar bjó á heimilinu og var hún mjög hænd að henni hún brá aldrei skapi og sagði að börn ættu ekki að lesa Íslendingasögurnar, því að þær væru um eintóm illmenni. Samt var það svo að Egilssaga varð uppáhaldsbókin hennar Rögnu og hún svaf með hana undir koddanum fyrst eftir að hún varð læs.

Skólagangan fór fram í farskóla, einn til tvo mánuði á hverjum vetri. Eftir fermingu fór Ragna til systur sinnar í Hafnarfirði og var hún einn vetur í skóla hjá nunnunum þar. Þar var margt öðruvísi en hún átti að venjast en henni fannst gott að vera þar og hafði alltaf sterkar taugar til kaþólskrar trúar eftir þessa dvöl, og tók þá trú um miðjan aldur. Þegar hún var 17 ára gömul fluttist hún svo til Reykjavíkur og gerðist vinnukona þar. Þar lærði hún enn nýja siði. Hún hafði það vegarnesti að heiman, bæði frá foreldrum sínum og Agli Skallagrímssyni, að maður ætti alltaf að standa á sínu; en það þótti víst farsælla í höfuðborginni að vera sveigjanlegur til að eignast vini. Eftir árið í Reykjavík fór hún í Húsmæðraskólann á Blönduósi og síðar lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem hún vann á heimili íslenskra hjóna.

Að loknu ævintýrinu í útlöndum kom hún heim og trúlofaðist fljótlega Ingimar Guðjónssyni. Þau eignuðust þrjá syni: Guðjón Ingva, Kristvin Ingva og Leif Dag. Guðjón Ingvi lést einungis eins árs gamall og Leifur Dagur lést af slysförum tvítugur að aldri. Það var Rögnu þung og sár lífsreynsla. Hún og Ingimar skildu síðar og um tíma var hún einstæð móðir. Þá var hún um tíma ráðskona í Reykhólasveit og leit þar síðari eiginmanninn, Hilmar Albert Albertsson, fyrst augum. Hann vann þar á þungavinnuvélum og henni leist bara ekkert á útganginn á honum. Það var ekki fyrr en þau hittust síðar í Grundarfirði, þegar hann var búinn að skola af sér, eins og hún orðaði það, að hún féll fyrir honum. Saman eignuðust þau Albert, Hjört, Ásdísi Lilju, Signar Kára og Hermínu Huld. Hilmar lést þann 10. júní árið 2022.

Hilmar og Ragna bjuggu fyrst um sinn í Reykjavík og þar kom Ragna að stofnun Rauðsokkuhreyfingarinnar; mætti þá eitt sinn í rauðum sokkabuxum að skúra á Landakoti og þótti heldur róttækt. En viðhorfsbreytingar lágu í loftinu og bjartsýnin var í fyrirrúmi.

Árið 1973 fluttust hún og Hilmar til Ísafjarðar og hófu búskap á Kirkjubóli þar í grennd. Þar varð hún vör við huldufólk og alls kyns vætti sem hún hafði alltaf opinn hug fyrir. Árin fjögur í sveitinni voru góður tími í minningunni en síðar fóru þau á flakk og stoppuðu mislengi á hverjum stað. Þau fluttust frá Reykjavík til Vestmannaeyja og þaðan í Stóra-Langadal á Skógarströnd og eftir það fluttust þau meðal annars á Gillastaði og síðar í Stykkishólm, þaðan á Patreksfjörð og að lokum á Akranes; voru þá með annan fótinn á Patreksfirði og hinn á Akranesi, með búsetu á báðum stöðum. Á Stykkishólmsárunum dundi sú ógæfa yfir að sonur Rögnu Leifur Dagur fórst í vélhjólaslysi í Dýrafirði. Söknuðurinn var sár og hún leitaði huggunar í trúnni og í ljóðagerð, sem hún hafði alltaf fengist við. Hún gaf síðar út ljóðabókina Utan vegar til minningar um son sinn og í þeirri von að ljóðin hennar gætu orðið öðrum til huggunar; bókin hennar hefur verið þýdd á ensku.

Þegar horft er yfir ævi Rögnu skynjar maður sterkt þá tíma sem hún er sprottin úr. Hún stóð föstum fótum í gamla tímanum, í lífinu til sveita og kunni að meta kyrrð þess og nánd við náttúruna; henni fannst t.d. hvergi betra að eiga börn en þar. En hún skynjaði jafnframt sterkt tímann sem fram undan var og kvennabaráttan kallaði konur til nýrrar hugsunar. Hún var alla tíð lesandi og skrifandi og lagði mikið upp úr því að mennta sig; fór í háskólanám um fimmtugt og lærði þjóðháttarfræði og gaf að auki út fjölda bóka um ævina. Fyrsta bókin kom út 1966, Hin gömlu kynni og fleiri sögur, og á næstu áratugum komu út ljóðabækur, smásagnasöfn og barnabækur. Hún skrifaði líka fyrstu íslensku draumaráðningabókina, þ.e. bók sem ekki var byggð á þýðingum. Síðasta bók hennar, Alþýðuskáld, kom út í desember síðastliðinn.

Hún Ragna kunni líka að bjarga sér hún gat hreinlega reddað öllu. Hún töfraði fram mat þó að öðrum þætti lítið til: kartöflubollur, lummur og grautar og alls kyns saft sem börnunum þótti eðaldrykkur. Hún var þróttmikil og rökföst í hugsun en líka með stórt hjarta og opinn faðm sem rúmaði alla sem til hennar leituðu; hvort sem það voru menn eða dýr, með fjóra fætur eða fleiri, nú eða verur af öðrum heimi. Kettir skipuðu þó sérstakan sess í hennar huga og var hún eini heiðursfélagi Villikatta Vesturlands sem setja velferð flækingskatta í forgang.

Hún var mikil fjölskyldukona, eiginkona, móðir og amma en líka sterkur og einstakur karakter og skarðið er stórt fyrir skildi þegar hún fellur frá.

Ragna er nú gengin um hinar síðustu dyr á þeirri vegferð sem lífið er. Hún geymdi þá trú í hjarta sér að þar biðu hennar þau sem á undan hefðu farið; ættingjar hennar og vinir, börn hennar og systkini og síðast en ekki síst hann Hilmar. Og það er huggun í slíkri trú. Allt það þakklæti sem bundið er lífi hennar er gott vegarnesti í þá ferð sem fram undan er.

...

Elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma við söknum þín mikið og geymum allar hlýju minningar um þig í hjörtum okkar.

Þín börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn,

Ásdís Lilja Hilmarsdóttir.