Klara Baldursdóttir var fædd í Reykjavík 22. janúar 1951. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu á Gran Canaria 4. júní 2025.

Hún var dóttir hjónanna Hansínu Helgadóttur, f. 1914, og Baldurs Jónssonar, f. 1915. Þau eignuðust fimm börn og var Klara næstyngst systkinanna en þau eru: 1) Edda, f. 1937, d. 2018, og hennar börn eru: Baldur Hans, Anna Klara, Hreinn og Orri. 2) Jón Baldur, f. 1941, d. 2004, hans börn eru Ásta Steina og Bryngeir. 3) Arnljótur, f. 1947, d. 1997, hans dóttir er Björk Berglind. 4) Klara, f. 1951, d. 2025, hennar synir eru Eiríkur og Jordi Hans. 5) Björk, f. 1955, hennar börn eru Daði Baldur og Helga Björk.

Klara ólst upp í Kópavogi, Reykjavík og Mosfellssveit á unglingsárum. Árið 1973 giftist hún Francisco Casadesus sem var frá Tossa de Mar á Spáni og hófu þau búskap þar. Árið 1975 flytja þau til Gran Canaria og þar fæðast synir þeirra tveir og bjuggu Klara og Cisco þar alla sína tíð og ráku saman veitingastaðinn Cosmos sem alla tíð var þekktur sem Klörubar. Francisco lést 2021 og Klara þann 4. júní sl.

Minningarathöfn um Klöru fór fram 7. júní 2025 á Gran Canaria.

Útför Klöru fer fram í dag, 15. júní 2025, í Tossa de Mar, á Spáni.

Hún Klara frænka á Kanarí er dáin.

Þegar ég fékk símtalið frá Björk systur þinni að morgni 4. júní, að þú elsku móðursystir mín og stóra frænka, værir dáin, þá var eins og tíminn stöðvaðist. Um huga minn fór þessi hugsun: Nei nei, það getur ekki verið. Þú sem varst bara hress seinni partinn í gær þegar Eiríkur sonur þinn fór aftur í flug til Íbísa, eftir að að hafa skotist til þín nokkrum dögum áður, þegar þú þurftir að fara á spítalann, en varst komin heim aftur. Miklu hressari og leist bara vel út á símamyndinni - eins og þú varst oftast ásýndar: sólbrún og geislandi af heilbrigði.

Hún Klara var kát að eðlisfari og strax sem krakki hafði hún sterkar skoðanir og fór sína eigin leið í lífinu. En á þann milda hátt að þó flestir færu í aðra átt, þá var samt svo auðvelt að samþykkja hennar skoðanir. Hún fór t.d. í bíó með vinkonu sinni sama kvöldið og flest allir Íslendingar í Reykjavík voru heima að horfa á fyrstu útsendingu Ríkissjónvarpsins, þegar það byrjaði hérna um árið.

Það var alltaf fjör og gaman í návist Klöru, hvort sem var inni á heimili ömmu Hansínu og afa Baldurs í Reykjavík, eða á Sauðárkróki, þegar Klara dvaldi þar á sumrin. Ekki síst þegar ég fékk að vera með henni og krakkagenginu á Ægissíðunni að kippa upp nokkrum gulrótum og jarðaberjum úr matjurtagörðum nágrannanna eða að hringja dyrabjöllum í hverfinu og hlaupa svo í felur og fylgjast með þegar komið var til dyra, eða bara að hanga fyrir utan sjoppuna á Neshaganum forðum. Þetta voru allt dýrðardagar í minningunni.

Síðar meir á æviskeiði okkar, þegar við Klara hittumst tvö eða með fleiri ættingjum, var Klara dugleg að rifja upp spaugileg atvik frá krakka- og unglingsárunum, t.d. eins og söguna sem hún sagði stundum um systkinin tvö með brúna pokann sem mættu gömlu forvitnu konunni sem var að hnýsast um hvað væri í pokanum - segi ekki meira um það hér.

Þótt Klara væri orðin fullorðin og ráðsett kona, setti hún sig gjarnan í karakter, greiplaði munninn og hermdi eftir áhugaverðum persónum sem hún samdi inn í leikþætti sína á Sauðarkrókssumrunum. Stundum líkti hún einnig eftir raunverulegum persónum úr ættinni, og allir viðstaddir veltust úr hlátri. Já, þannig var þetta mjög oft - Klara Baldursdóttir hefði eflaust sómt sér vel sem atvinnuuppistandari. Alltaf var gaman að vera í návist Klöru.

Þegar Klara var á tíunda ári, þá ákváðu foreldrar hennar að flytja til Spánar í nokkur ár, sér til heilsubótar og fjölskyldunni til ánægju. Þetta var árið 1960. Þau fóru út með þrjú yngri börnin af fimm sem enn bjuggu heima: Arnljót, sem var elstur, Klöru, sem var í miðjunni, og Björk, sem var fjórum árum yngri en Klara. Þau settust að í litlum dásamlegum strandbæ í Katalóníu á norður Spáni, sem heitir Tossa De Mar. Þar voru hæg heimatökin, því nokkrum árum áður hafði Magnús Kristjánsson, frændi þeirra, flutt þangað. Hann var sonur Klöru Helgadóttur, systur Hansínu, mömmu Klöru, faðir hans var Kristján Magnússon, listmálari frá Ísafirði. Magnús frændi, eins og hann var gjarnan kallaður, var líka listamaður og stofnaði nokkrum árum áður sína eigin fjölskyldu í Tossa, með ungri blómarós að nafni Dólaris. Þau höfðu nýlega stofnað Hótel Heklu, sem er staðsett á frábærum útsýnisstað á kastalahæðinni rétt ofan við bæinn. Svo Klara og fjölskylda komu sér fljótt notalega fyrir með faglegri aðstoð frá Magnúsi frænda sem var öllum hnútum kunnugur á staðnum.

Dvöl fjölskyldunnar í Tossa var lengst af spennandi, heilsusamleg og skemmtileg. Klara upplifði þarna nýja menningu sem greip hana strax og fylgdi henni alla tíð síðan. Klara lærði tungumálin fljótt, bæði spænskuna sem fullorðnir töluðu utan heimilis og var það opinbera tungumálið en einnig lærði hún katalónsku, sem fjölskyldurnar í bænum og krakkarnir töluðu sýn á milli heima við. Klara, eins fjörug og félagslynd hún var að eðlislagi, ófeimin við ókunnuga, eignaðist skjótt stóran vinahóp og vakti að sjálfsögðu athygli drengjanna í bænum. Einn þeirra var Fransisco Casa Desus, sem varð síðar æskuást hennar og eiginmaður til lífstíðar.

Klara og fjölskyldan öll undu hag sýnum vel þarna í framandi menningunni á Spáni og góða veðurfarinu, í þessum notalega fiskibæ, sem þá var á góðri leið að verða að listamannanýlendu. Þar sem ýmist listafólk víðsvegar úr Evrópu var byrjað að flykkjast til bæjarins á sumrin.

Þarna dvöldu þau í góðu yfirlæti í um tæp tvö ár og var eitt víst að heimför til Íslands var ekki efst á dagskránni. En þarna í miðri sælu gerðist hið óvænta, Klara smitaðist af berklum eftir að hafa drukkið ógerilsneydda mjólk sem var seld í bænum af fjölskyldu sem átti tengsl við kúabú í nágrenninu. Sýkingin var talin alvarleg. Bakterían réðst meðal annars á innanverðan hálsinn, svo eftir nákvæma skoðun læknanna á Spáni var talið ráðlegast að fara með Klöru sem fyrst til meðhöndlunar hjá íslenskum sérfræðingum.

Strax og komið var til Íslands fór Klara í skurðaðgerð á hálsi, sem heppnaðist vel og svo tók við langtíma lyfjameðferð til að fjarlægja bakteríuna úr blóði hennar. Klara þurfti að vera með umbúðir á hálsinum til öryggis í marga mánuði á eftir. Þegar Klara hafði náð sér eftir veikindin kom hún tvö sumur í röð til okkar á Sauðárkrók, þá 13 ára gömul. Hún réði sig í vist hjá Eddu eldri systur sinni, eins og það var kallað þá. Hún skyldi passa tvö yngri systkini sumarlangt, og líta einnig eftir mér, þá 8 ára gamall, á meðan foreldrarnir voru vinnandi.

Þessi tvö sumur með Klöru á Króknum, voru mestu ævintýrasumur sem ég hef lifað. Klara, félagslind sem hún var, og alltaf með nýjar hugmyndir, heillaði brátt krakkana í Nyrðri bænum á Sauðárkróki. Flest allar stelpurnar á hennar reki urðu strax vinkonur hennar og strákarnir fengu líka að vera með í fjörinu. Það var farið í leiki úti flesta daga og heilu leikritin voru samin spontant á staðnum. Það er ekki ólíklegt að margir þeirra framandi leikja sem Klara kenndi okkur hafi komið frá krökkum sem hún lék við í Tossa De Mar á Spáni, en ég veit líka að marga þeirra samdi hún sjálf. Já, það voru sett upp útileikhús daglega og við yngri krakkarnir fengum líka að vera leikarar til jafns við hina eldri. Ég man að það sem var vinsælast, hét eitt pund af smjöri og var nafninu snarlega breytt á Króknum í eitt pund af skyri.

Hún Klara frænka mín var að mínu mati stórkostlegur persónuleiki. Hún var réttsýn, góðviljuð og gestrisin og umfram allt hjálpsöm. Ég veit að ófáir Íslendingar geta tekið undir það.

Spánn togaði fast í Klöru og ekki liðu mörg ár, þar til hún fór aftur til Tossa til langdvalar, þá án foreldra og fjölskyldu, aðeins 16 ára gömul, þá orðin sjálfráða eins og lög leyfðu þá. Jú, Magnús frændi og fjölskyldan hans sem hafði stækkað hratt voru á staðnum og því auðfengnara að fá leyfi að fara. Klara hafði sjálf útvegað sér vinnu við afgreiðslu í apóteki áður en hún fór til Tossa. Ekki spillti það að Klara kunni þarna ung nokkur tungumál, auk íslenskunnar, en kunni nú líka bæði þýsku og ensku auk spænskunnar og katalónsku. Það vafðist fátt fyrir Klöru Baldursdóttur, ef hún ætlaði sér eitthvað, þá lét hún drauminn rætast, svo einfalt var það.

Í Tossa biðu ævintýrin hennar en nú sem ung kona. Hún hitti aftur gömlu vinina sem hún þurfti svo snöggt að skilja við nokkrum árum áður, og auðvitað hitti hún aftur Fransisco. Þau urðu ástfangin og fljótlega fór Klara að vera heimagangur hjá fjölskyldu hans. Klara féll strax vel inn í fjölskyldu Fransiscos með sitt ferska yfirbragð og hlýja viðmót og svo sakaði nú ekki að hún talaði tungumálið þeirra reiprennandi.

Þau Klara og Fransisco fóru fljótlega út í sumarbisnes og ráku saman Bonti Bar, og fljótlega komu þau líka að hluta til að rekstri diskóteksins Sívas með Hóse, eldri bróður Fransiscos. Á þessum stöðum báðum var mikið fjör. Sumarlangt. Ég undirritaður á einstaklega góðar minningar frá þessum tíma þegar Klara bauð mér að dvelja hjá sér í nokkrar vikur sumarið sem ég var að verða 17 ára. Þarna var Klara rúmlega 22 ára gömul og komin í rekstur og vinnandi langt fram á nótt, en samt gaf hún sér tíma til að sinna mér og leiðbeina, yngri frænda sínum, hvernig lífið gekk fyrir sig þarna paradísarbænum hennar Tossa. Klara fór fljótlega líka að vinna sem fararstjóri fyrir ferðaskrifstofuna Sunnu sem var með sumarleyfisferðir á Loret De Mar, á Costa Brava ströndinni. Síðar fór hún til Mallorka sem fararstjóri um tíma og svo nokkrum árum síðar til Gran Kanarí, um það leiti sem íslenskir ferðamenn fóru að sækjast þangað.

Ekki leið á löngu þar til þau Klara og Fransisco fluttu til Kanarí þar sem ferðaþjónustan blómstrar mun meiri hluta ársins heldur en norðar á Spáni og Mallorka. Fransisco fór brátt í veitingarekstur og Klara sinnti fararstjórn fyrstu árin. Að fáum árum liðnum keyptu þau húsnæði í Jumbó Centrum, sem þá var að byggjast upp og stofnuðu þau saman Resturant Cosmos ásamt öðrum íslenskum hjónum (Gunnu og Þór) en að nokkrum árum liðnum keyptu Klara og Fransisco þau Gunnu og Þór úr rekstrinum og Klara kom þá á fullu inn í rekstur Cosmos, og hætti svo fararstjórastörfunum í kjölfarið.

Eftir að Klara byrjaði að vinna á Cosmos var staðurinn fljótt kallaður Klörubar af Íslendingum. Þau rúm 40 ár sem Klara bjó á Gran Canarí leituðu til Klöru margir Íslendingar sem þurftu aðstoð í hinum ýmsu málum þegar þurfti að fást við opinbera kerfið, s.s. vegna slysa, veikindi eða dánartilvik. Aldrei neitaði Klara nokkurri slíkri hjálparbón hvort sem það væri á kvöldin, nóttunni, eða á frídögum, Klara brást ávallt við og leysti málin farsællega eins og hægt var hverju sinni, og tók hún aldrei neitt gjald fyrir veitta aðstoð. Þannig var Klara innréttuð. Hún eignaðist ótrúlega marga vini, sem nú sakna hennar mikið, það veit ég.

Um hjálpsemi Klöru við Landann eru til endalausar sögur og sagnir, en þær verða ekki tíundaðar hér, en verða sagðar annarstaðar.

Elsku Klara frænka, ég mun alltaf minnast þín með trega í huga, en jafnframt með mikilli gleði og þakklæti yfir að hafa fengið að vera frændi þinn og verið þér samferða marga kafla í lífi mínu og þínu. Ég veit að synir þínir Jordi Hans og Eiríkur syrgja þig sárt og Geraldín kona Eyríks, og börn þeirra þau Kianna, Klóey og hann Einar litli munu sakna þín sárt.

Minningu þinni verður haldið á lofti fyrir barnabörnin þín. Þau munu fá að kynnast ömmu sinni í gegnum okkur, fjölskyldu hennar og vini.

Þinn frændi og ævarandi vinur,

Baldur Úlfarsson Stykkishólmi.