Klængur biskup og dómkirkjan í Skálholti Eftir ERLEND SVEINSSON Miðaldadómkirkjurnar á Hólum og í Skálholti voru menningarog byggingarsöguleg afrek og miklu stærri en núverandi kirkjur þar.

Klængur biskup og dómkirkjan í Skálholti Eftir ERLEND SVEINSSON Miðaldadómkirkjurnar á Hólum og í Skálholti voru menningarog byggingarsöguleg afrek og miklu stærri en núverandi kirkjur þar. Það var Klængur biskup Þorsteinsson sem réðist í þessa þriðju kirkjubyggingu í Skálholti á tímabilinu 1153-1159 og kostnaðurinn samsvaraði 1600 kúgildum.

ygging stóru íslensku miðaldadómkirknanna, fyrst á Hólum og síðan í Skálholti, hlýtur að teljast eitt af meiri háttar undrum íslenskrar sögu og menningar. Þessi stórbrotnu mannvirki virðast hins vegar ekki vera ofarlega í hugum okkar nútíma íslendinga enda fátt eitt, sem komið getur ímyndunarafli okkar á flug í þessu sambandi. Ef ekki væri fyrir rannsóknir Harðar Ágústssonar listmálara og fræðimanns, sem hefur gert þessu efni skil í stórmerkum bókum sínum, virðist ekki margt vera í þjóðararfi okkar, sem ýtir undir umhugsun um þessa stórkostlegu umgjörð kristnihalds og samfélagsmótunar þjóðarinnar á miðöldum. Af lestri Sturlungu og biskupasagna fæst einungis takmörkuð, brotakennd mynd af þessari horfnu kirkjuveröld. Væru þessar kirkjur uppistandandi á okkar dögum, má telja næsta fullvíst að þær drægju að sér hópa pílagríma og ferðamanna líkt og stóru miðaldadómkirkjur Evrópu, sem voru að rísa um líkt leyti, gera nú. Þær myndu jafnframt greiða okkur leið að hinu dulúðarfulla, mér liggur við að segja "óskiljanlega" kaþólska miðaldasamfélagi Íslendinga, sem fæddi okkur og fóstraði sem þjóð í fimm aldir. Hér á eftir og í tveimur næstu Lesbókum birtast hugleiðingar, sem sprottnar eru upp úr undirbúningi að gerð kvikmyndaþríleiks í tilefni af þúsund ára kristnitökuafmælinu og tvöþúsund ára fæðingarafmæli Frelsarans um næstu aldamót en þessi myndaflokkur hefur m.a. það markmið að gefa innsýn í heim stóru íslensku dómkirknanna á miðöldum. Þessum hugleiðingum er ætlað að gefa tilfinningu fyrir baksviði byggingafræmkvæmdanna um miðja tólftu öld. Við sjáum grilla í stórbrotið mannlífsdrama og tengsl við hræringar í hinum kristna heimi, sem kraumar af endurnýjuðum krafti um þetta leyti. Stuðst er við heimildir svo langt sem þær ná en þar sem þeim sleppir er hugmyndarfluginu gefinn laus taumurinn. Það var fimmti biskupinn í Skálholti, Klængur Þorsteinsson, biskup 1152-1176, sem hafði forgöngu um að láta reisa stóru miðaldadómkirkjuna í Skálholti, þriðju kirkjubyggingu staðarins, sem reist var á tímabilinu 1153 til ca 1158/59. Hörður Ágústsson telur að þurft hafi um 3-5 ár til að reisa kirkju á borð við kirkju Klængs, sem kemur heim og saman við þá staðreynd að Nikulás ábóti, sem tók þátt í vígslu kirkjunnar kom til landsins úr suðurgöngu um 1154/55 en hann lést 1159.

MIKILS METINN REYKNESINGUR Á HÓLUM

Klængur Þorsteinsson, biskup, hefur verið álitinn fæddur um 1105. Hann var af ætt Reyknesinga og var faðir hans Þorsteinn Arnórsson en móðir Þorkatla, dóttir Ara Þorgilssonar á Reykhólum. Höfuðból ættarinnar er Reykjahólar á Barðaströnd. Ekki verður þessi ætt talin til höfuðætta á dögum Klængs, þegar Haukdælir og Oddaverjar bera ægishjálm yfir aðrar ættir landsins. Lýsing Hungurvöku á útliti Klængs undirstrikar þá persónutöfra sem hann hefur haft til að bera. Þar segir að hann hafi verið "Vænn maður að áliti og meðalmaður að vexti, kviklegur og skörulegur og alger að sér. Um hæfileika Klængs og menntun segir að hann hafi verið ritari góður og hinn mesti lærdómsmaður. Hann var málsnjallur og öruggur að vinfesti og hið mesta skáld. Búinn visku og málsnilld. Honum voru og landslögin í kunnara lagi. Það var Reyknesingurinn Þorkatla, móðir Klængs, sem kom honum í Hólaskóla 12 vetra gömlum, "á hendi fólginn Jóni biskupi af móður sinni til fræðináms", eins og segir í Jóns sögu, þar sem hann er talinn upp fyrstur, þegar kemur að því að segja frá lærisveinum á Hólum. Honum er síðan lýst þannig að hann hafi orðið "hinn besti klerkur og var lengi síðan sæmilegur kennimaður í Hólakirkju, hinn mesti uppihaldsmaður kristninnar, predikandi fagurlega guðs orð undir stjórn og yfirboði tveggja Hólabiskupa, Ketils og Bjarnar. Hafði hann marga vaska lærisveina undir sér, ritandi bækur margar og merkilegar". Í nemendahópnum á Hólum eru menn, sem síðar eiga eftir að koma við sögu Klængs, þeirra á meðal er Hreinn, sem Klængur skipaði ábóta að Þingeyrum og Björn Gilsson, síðar biskup á Hólum. Svo virðist sem Klængur sé á Hólum allt þar til hann er valinn Skálholtsbiskupsefni eða frá því um 1117 til 1151.

LÍFSNAUTNAMAÐURINN

Um leið og farið er viðurkenningarorðum um hinn mesta uppihaldsmann kristninnar, sem predikaði guðs orð svo fagurlega og hafði marga vaska lærisveina undir sér, þá stenst höfundar Jóns sögu ekki þá freistni að minna á hina hliðina á persónu Klængs, lífsnautnamanninn. Segir frá því í tengslum við baráttu Jóns helga gegn klámfengnum skemmtunum fólks í dansi og vísnakveðskap: "Þat er sagt að hinn heilagi Jón biskup kom at einn tíma er einn klerkur, er Klængur hét og var Þorsteinsson, er síðan varð biskup í Skálaholti, las versabók þá er heitir Ovidius de arte. En í þeirri bók talar meistari Ovidius um kvenna ástir og kennir með hverjum hætti menn skulu þær gilja og nálgast þeirra vilja. Sem hinn sæli Johannes sá og undir stóð hvað hann las, fyrirbauð hann honum að heyra þess háttar bók og sagði að mannsins breyskleg náttúra væri nógu framfús til munúðlífis og holdlegrar ástar, þó að maður tendraði eigi sinn hug upp með saurligum og syndsamlegum diktum. Hér eru ef til vill forsendur fyrir því, að Klængur skyldi hafa fallið í þá freistni að eignast barn með náskyldri frændkonu sinni, Yngvildi Þorgilsdóttur. Hér var um svonefnt frændsemisspell hið meira að ræða, sem varðaði ekki aðeins við kirkjulög heldur einnig landslög. Til að átta sig á persónu Klængs og gjörðum síðar á ævinni, jafnvel þegar fjallað er um byggingu dómkirkjunnar, skiptir máli að gera sér grein fyrir, hvenær hann eignaðist þetta barn sitt, biskupsdótturina Jóru, sem svo var kölluð. Um það eru hins vegar skiptar skoðanir hjá fræðimönnum, sem ársetja fæðinguna allt frá 1150 og fram yfir 1161. Sumir telja að Klængur og Yngvildur hafi gifst, aðrir að Yngvildur hafi verið fylgikona Klængs og enn aðrir taka ekki afstöðu til sambúðar þeirra. Verður nánar vikið að þessu efni í næstu grein. Því má hins vegar bæta við lýsingu lífsnautnamannsins, að hann var skáld gott og getur Snorri hans í Háttatali. En mikilfenglegastur er hann á biskupsstóli þar sem hann hafði "veislur fjölmennar og stórar fégjafir við vini sína, er bæði voru margir og göfgir, að þar þurfti nálega ógrynni fjár til að leggja", eins og segir í Hungurvöku. Og hæst risu veisluhöld þessi við vígslu dómkirkjunnar nýju er Klængur bauð um 840 manns að neyta dagverðar, auk þess að leysa virðingarmenn á braut með stórum gjöfum. Þótti staðarmönnum þetta gert meir af stórmennsku en fullri forsjá en sagnaritarinn réttir við hlut Klængs með eftirfarandi framtíðarsýn: "Viljum vér og það ætla að hans rausn muni uppi vera, meðan Ísland er byggt".

MEINLÆTAMAÐURINN

Það sem gerir persónu Klængs svo áhugaverða eru andstæðurnar í fari hans, lífsnautnamaðurinn er jafnframt meinlætamaður: "Klængur biskup var meinlátsamari í mörgu lagi en aðrir biskupar höfðu verið í vökum og föstum og klæðabúnaði. Hann gekk oft berfættur um nætur í snjóum og frostum. Þessu hátterni er lýst í Hungurvöku sem ákveðnu einkenni Klængs í samanburði við háttu annarra biskupa, ekki er sagt að hann hafi hneigst að þessu hátterni er leið á biskupsdóminn, eins og sumir fræðimenn vilja vera láta. Sveinbjörn Rafnsson skilur það t.d. svo, að þessi háttur hans hafi ekki komið upp fyrr en eftir 1173, þ.e. eftir að honum hafði borist erkibiskupsbréf, sem svar við ósk hans sjálfs um að fá að draga sig í hlé, sökum vanheilsu, sem var tilkomin vegna meinlætalifnaðarins. Það verður að teljast nokkuð seint að tala um breytingu á lifnaðarháttum Klængs eftir 1173, þegar hann er orðinn ófær til biskupsstjórnar hvort eð var. Nærtækara er að líta svo á að meinlætalýsingin, eins og hún er sett fram í Hungurvöku, eigi við um biskupstíð Klængs. Hún dregur fram sérstöðu persónu hans í samanburði við aðra biskupa en þegar þessari lýsingu sleppir er þráður ævisögunnar tekinn upp að nýju með setningunni: "Þá er Klængur hafði tíu vetur biskup verið þá andaðist Björn biskup að Hólum ..." o.s.frv. Meinlætalifnaðurinn tilheyrir skv. þessu hinni almennu persónlýsingu biskupsins og fer vel á því að skilja hana sem andstæðu í fari hans gagnvart rausnarskapnum við kirkjusmíðina og veisluhöldin og fjárútlátin vegna vina sinna og ölmusumanna.

ENDURREISNIN FYRRI

Dómkirkja Klængs var reist á miðri svonefndri endurreisnaröld hinni fyrri, þegar kristindómurinn gekk í gegnum mikla sjálfsskoðun og sjálfsgagnrýni, jafnframt því sem efling kristninnar var efst á baugi um allan hinn kristna heim. Liður í þeirri eflingu var bygging kirkna, sem útheimti gríðarlega fjármuni. Þetta er tíminn, þegar allar helstu kirkjubyggingar Evrópu eru að rísa af grunni, þegar kirkjurnar eru stærstu hús borga og bæja og tækni- og verkfræðikunnátta mannsins rís hæst í hönnun og smíði kirkna með uppgötvun hinnar gotnesku byggingatækni. Því hefur verið haldið fram, að bygging stærstu dómkirknanna í Evrópu á þessu tímabili verði einungis jafnað til geimferðaáætluna nútímans, bæði hvað varðar hugvit og fjármögnun. Á sama tíma koma fram stefnur í kristindóminum, sem hafna öllu fjármálavafstri og boða afturhvarf til fátæktar frumkristninnar, hins postulega lífernis, og mynda andhverfu við allt fjármálavafstrið í kringum kirkjubyggingarnar. Siðakröfur kirkjunnar fara vaxandi, kirkjulagasetning eflist og krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er sett á oddinn. Þessar hræringar ná út til Íslands með stofnun erkibiskupsstóls í Niðrósi, sem stofnsettur er sama sumarið og verið er að höggva viðinn í norsku skóglendi í stöpla og sperrur hinnar nýju dómkirkju Klængs í Skálholti. Það gefur dómkirkjubyggingu hans því vissa táknræna merkingu, að hún skuli rísa í kjölfar stofnunar erkibiskupsdæmisins nýja, stoðirnar eru norskar en þekju- og grindarviðurinn íslenskur, biskupakirkjurnar greinar á einum og sama stofni erkibiskupsdæmisins. Það er í sjálfu sér ekki loku fyrir það skotið að hinn nývígði erkibiskup hafi gefið Klængi viðinn af þessu tilefni og verður nánar vikið að því í næstu grein. Klængur og bygging dómkirkju hans í Skálholti er þannig á mörkum tveggja skeiða í kirkjusögunni og endurspeglar þessar hræringar.

ATORKUMAÐURINN

Atorkumanninum Klængi, sem réðist í það stórvirki að láta það verða sitt fyrsta verk á biskupsstóli að reisa nýja dómkirkju, er ágætlega lýst, þegar segir frá því, að honum hafi verð lagið að vinna mörg verk samtímis: "Sú var hans iðja öll senn að kenna prestlingum og ritaði og söng saltara og mælti þó allt það er nauð bar til". Þótt Klængur hafi hugsanlega þegið stórvið að gjöf í Noregi er kirkja hans reist með gífurlegum fjárútlátum heima á biskupsstólnum á sama tíma og fátæklingarnir streyma þar að til að njóta ölmusugæða biskupsins og haldnar eru stórveislu og gjafir gefnar. "Svo þótti skynsömum mönnum sem öll lausafé þyrfti til að leggja, þau er til staðarins lágu í tíundum og öðrum tillögum," segir í Hungurvöku og ekki er örgrannt um, að söguritaranum blöskri útgjöldin. Hér reyndi því mjög á útsjónarsemi og atorku framkvæmdamannsins. Þegar dómkirkjan var fullbyggð (að Klængi látum) er talið að hún hafi verið um 48,5 metra löng, um 22 metra breið um stúkurnar og hæð hennar um 13,5 metrar. Bygging þessarar miklu kirkju var fjármögnuð með tíundum staðarins, peningaframlögum höfðingja, sjálfboðavinnu fátæklinga og hvers kyns yfirbótarverkum. En hvernig fer Klængur að og hvað hefur hann á bak við sig, þegar hann steypir sér út í þessa amk. 1.600 kúgilda fjárfestingu, sem bygging stærsta timburhúss á Norðurlöndum, já hugsanlega í Evrópu, hefur kostað? Og hvernig stendur hann sjálfur að vígi að hefjast handa um slíka stórframkvæmd inni á valdsvæði Haukdæla og Oddaverja, aðkomumaðurinn að norðan. Skyldi valdastaðan geta sagt okkur eitthvað til um byggingu kirkjunnar?

VALDASKIPTINGIN UMHVERFIS KLÆNG 1150

Frá upphafi kristnitöku og fram á daga Klængs biskups höfðu Haukdælir verið auðugasta og valdamesta ætt landsins og Skálholt undirstaða auðs þeirra og valds. Haukdælir stofnuðu biskupsstólinn um einni öld fyrir biskupstíð Klængs (1056) og lögðu honum til jörð og kirkju, sem þeir nutu sjálfir góðs af. Þeir komu á tíund og stofnuðu skóla í Haukadal, þar sem þeir menntuðu presta, sem þeir réðu yfir. Fyrstu tveir byskupar landsins voru Haukdælirnir Ísleifur (1056-1080) og sonur hans Gissur (1082­1118) en bróðir Gissurar, Teitur Ísleifsson stjórnaði skólahaldinu í Haukadal. Gissur lét reisa nýja kirkju (30 m langa) þegar hann tók við biskupstign og hefur þá látið rífa um 80 ára gamla kirkju afa síns. Gissur var í raun eins konar ókrýndur konungur landsins um sína daga. Þegar kom að því menn vildu fjölga biskupsdæmum og fá annan biskup fyrir Norðurland réðu Haukdælir mestu um valið. Voru fyrstu tveir Hólabiskuparnir tengdir Haukdælum fjölskylduböndum en næstu tveir voru skjólstæðingar þeirra. Skálholtsbiskupar nr. 3 og 4. þeir Þorlákur og Magnús voru einnig skjólstæðingar Haukdæla. Þegar kom að því að velja fimmta Skálholtsbiskupinn höfðu Haukdælir komið sér upp biskupsefni í þriðja lið frá Ísleifi, sem var Hallur Teitsson, sonur skólameistarans í Haukadal. Hallur, sem var annálaður menntamaður, hlaut biskupskjör 1149. Hélt þetta afabarn fyrsta biskups landsins samsumars utan til að taka biskupsvígslu. Leiða má líkur að því að sonur hans Gissur hafi verið með í för, en Haukdælaþáttur Sturlungu segir að Gissur hafi oft farið af landi brott "ok var betr metinn í Róm en nokkur íslenskur maður fyrr honum af mennt sinni og framkvæmd. Honum varð víða kunnigt um suðurlöndin og þar af gerði hann bók þá er heitir Flos pereginationis. (Ferðablóm)". Gissur var prestvígður og síðar lögsögumaður. Það mætti ef til vill hugsa sér að þessi ummæli um "heimamanninn" í Róm gefi til kynna að hann hafi getað beitt áhrifum sínum þar til þess að faðir hans yrði vígður af páfa eða hlyti áheyrn hjá honum og blessun. A.m.k. er Hallur á bakaleið á pílagrímsveginum frá Róm, þegar hið óvænta gerist að hann deyr í Trekt (Utrecht) í Hollandi. Það er þó ekki útilokað að vígslan hafi átt að verða í Lundi á heimleiðinni frá Róm. Hverju sem því líður þá er ekki fjarri lagi að Rómarferðin hafi haft það markmið að auka enn frekar veg hins verðandi biskups og þar með virðingu og veldi Haukdæla.

HAMINGJUHJÓLIÐ SNÝST

Engin leið er að geta sér til um, hvernig eða nákvæmlega hvenær Gissuri hefur borist fréttin um lát föður síns í Trekt. Ef til vill hefur dánarfregnin ekki borist honum til eyrna fyrr en hann var kominn til Noregs sumarið 1152, þ.e. einu ári eftir lát föðurins. Þar er þá staddur kennari og dómkirkjuprestur frá Hólum í Hjaltadal, Klængur Þorsteinsson, nývígður biskup í stað föður Gissurar og er að láta fylla tvö skip af stórviði til að hafa með sér út til Íslands, þar sem hann hyggst láta það verða sitt fyrsta verk að rífa niður kirkju þeirra Haukdæla og byggja nýja kirkju á grunni hennar, miklu stærri. Þessi atburðarás hlýtur að hafa verið meiriháttar áfall fyrir Haukdælina og þá sérstaklega Gissur Hallsson. Hamingjuhjól þeirra hefur snúist gjörsamlega þeim í óhag, þannig að þeir missa ekki aðeins einn ágætasta mann ættarinnar, Hall Teitsson, sem var á leið með að taka við mikilvægsta embætti landsins, heldur tekur við embættinu maður, sem þeir hafa engin tök á og byrjar embættisferil sinn á því að sýna þeim í tvo heimana með því að rífa niður kirkju þeirra og byggja nýja miklu stærri. Hvort Gissur hefur á þessum tíma séð fyrir afleiðingar þessara umskipta fyrir valdastöðu ættarinnar er ekki gott að segja. Hitt varð staðreynd að upp frá þessu misstu Haukdælir smám saman tök sín á Skálholti og þar með forystuhlutverk sitt á Íslandi sem þeir höfðu haft undanfarna heila öld. Oddaverja undir forystu Jóns Loftssonar áttu héðan í frá eftir að bera höfuð og herðar yfir aðrar höfðingjaættir Íslands næstu hálfa öldina og gott betur. Hér verða því þáttaskil og það raunar í margföldum skilningi.

BARÁTTA UM VÖLD

Gissuri hefur vafalaust verið efst í huga, þegar hann kemur til Noregs og sér hvers kyns er að ná tangarhaldi á Klængi. En hvernig? Og er ekki jafnvíst að Klængur hafi gert sér grein fyrir því, þegar hann kom út til Íslands úr vígsluför sinni ásamt Gissuri Hallssyni með stórviðinn á tveimur skipum, að hann yrði að gæta sín við hvert fótmál til að halda stöðu sinni og virðingu gagnvart veldi Haukdæla og Oddaverja? Sagan segir okkur að hann hafi vingast jafnt við báða forystumenn voldugustu höfðingjaætta landsins, þá Gissur Hallsson og Jón Loftsson, sem lýsir hyggindum kirkjuhöfðingjans, sem ekki styðst við ættgöfgi, sem jafnaðist á við Haukdæla- og Oddaverjaættir. Honum er jafnframt ljóst að völd sín verður hann að byggja á verkum sínum. Og nú vaknar spurningin um það hversu stóran þátt hann hafi hugsað sér að bygging nýrrar dómkirkju gæti átt í því að treysta völd hans í Skálholti? Við skulum athuga í þessu samhengi, hvernig hinn sæmilegi kennimaður í Hólakirkju og hinn mesti uppihaldsmaður kristninnar þar, komst í þá aðstöðu, sem nú hefur verið lýst.

HIÐ ÓSKRIFAÐA BLAÐ Á LEIÐ TIL VALDA

Þegar Björn Gilsson er kjörinn eftirmaður Ketils Þorsteinssonar Hólabiskups, þá er í engu minnst á Klæng dómkirkjuklerk, er þó verður biskupsefni 5 árum síðar en óforvarandis. Bakgrunnur Klængs stenst engan samanburð við ættgöfgi Björns og tengsl hans við valdamestu ætt landsins í Haukadal. Um þessar mundir gæti Yngvildur Þorgilsdóttir, konan er síðar átti eftir að koma mjög við sögu Klængs hafa verið í nemendahópi hans á Hólum að mati Björns Þórðarsonar. Björn bendir á að Yngvildur virðist hafa hneigst að skáldum, sem gæti þýtt, að hún hafi aflað sér menntunar og þá liggur beinast við, að það hafi verið á Hólum. Hún hefur því verið um 15 ára að aldri í Hólaskóla, þegar Björn er kjörinn biskup. Klængur er hins vegar um fertugt, þegar hinn ættgöfugri Björn Gilsson heldur af stað í vígsluför sína til Noregs. Það hefur vafalítið reynt á persónustyrk Klængs, sem hefur haft fulla ástæðu til að ætla að menntun sín, málsnilld og persónutöfrar væru fremri gáfum Björns, að fylgjast með komu Björns aftur til stólsins sumarið 1147 með allar þær virðingar, sem honum hefur þá hlotnast við innsetningu í hið háa embætti. En svo líða ekki nema 4 ár, þá kemst Klængur óvænt í sömu stöðu og Björn fyrir einlægan stuðning þessa æskufélaga síns úr Hólaskóla. Hann er sjálfur kjörinn til biskups, þegar spurst hafði að biskupsefni Haukdæla, Hallur Teitsson, hafði látist í vígsluför sinni.

SYNDIN

Eins og þegar hefur verið drepið á, eignaðist Klængur barn með náfrænku sinni og hefur fræðimenn greint á um, hvenær þessi fæðing hafi átt sér stað. Flestir halda því fram að barnið hafi fæðst eftir að Klængur varð biskup. Hér verður sett fram önnur skoðun, sem rökstudd verður nánar í næstu tveimur Lesbókargreinum. Miðað við valdastöðu Klængs á yfirráðasvæði Haukdæla og Oddaverja og í ljósi menntunar og persónuleika hans og fleiri atriða, er við komum að síðar, þá hefur Klængur ekki getið barnið í biskupsdómi sínum. Hér verður því haldið fram að líklega hafi það gerst nokkru áður en hann var kjörinn biskupsefni en barnið fæðst á meðan hann var í vígsluförinni. Þar sem hér er um að ræða bakgrunnsathuganir, vegna listrænnar túlkunnar á persónu Klængs og stórframkvæmdum hans þá leyfum við okkur að grípa til sálfræðilegs innsæis, þar sem heimildum er ekki til að dreifa, til stuðnings þessari túlkun. Við höfum þegar reynt að gera okkur í hugarlund, hve það hefur valdið Klængi Hólaklerki miklum vonbrigðum að þurfa að horfa á eftir Birni Gilssyni, skólabróður sínum úr Hólaskóla upp í biskupsembættið á Hólum fáum árum áður. Ef til vill eygði hann ekki aðra möguleika á að komast til frekari metorða innan kirkjunnar enda varð Hallur Teitsson, erfðaprins Haukdæla, síðan valinn til að taka við biskupstign í Skálholti aðeins tveimur árum eftir biskupsvígslu Björns. Þannig er þá komið aðstæðum Klængs til metorða, þegar við gefum okkur að fyrrum nemandi hans úr Hólaskóla, hin gullfallega, skapmikla og ljóðelska Yngvildur Þorgilsdóttir leiti hjálpar hans og stuðnings vorið 1151. Hún hefur þá sagt skilið við mann sinn, sem henni hafði verið gert að eiga tveimur árum áður gegn vilja sínum. Hún hafði auk þess misst föður sinn þetta ár en linnti ekki við bróður sinn, sem öllu vildi ráða. Klængur og Yngvildur eru því í þeirri andlegu stöðu bæði tvö að þurfa á gagnkvæmri huggun að halda til að vinna bug á vonbrigðum lífsins. Það er nú, sem mótstöðuþrek Hólaklerksins bilar og leiðir það til getnaðar Jóru. Í framhaldi af þessu berast síðan þau tíðindi eins og þruma úr heiðskíru lofti að biskupsefni þeirra Haukdæla, Hallur Teitsson, hafi látist í vígluför sinni í Trekt á Hollandi og nú þurfi að finna nýtt biskupsefni. Nú veit Klængur ekki fyrr en Björn Gilsson, biskupinn hans á Hólum beitir sér fyrir því að hann verði næsta biskupsefni Skálholtsbiskupsdæmis. Hans maður að norðan skyldi setjast á biskupsstól í höfuðvígi Haukdæla fyrir sunnan. Síðan gerist það, þegar tilnefning Klængs hefur verið samþykkt á alþingi og Klængur er sem óðast að undirbúa vígsluferðina, að Yngvildur kemur til hans og segir honum, hvernig fyrir henni sé komið. Hún gangi með barn hans undir belti.

YFIRBÓTARVERKIÐ

Kannski er það fyrst nú sem hugmyndin um kirkjubygginguna fullmótast í huga Klængs. Bygging nýrrar dómkirkju í Skálholti skal ekki einungis tryggja hann þar í sessi strax í upphafi byskupsdóms hans heldur skal hún verða hans stóra yfirbótaverk. Með öðrum hætti getur hann ekki tekið að sér embættið. Þannig styrkist hann, dómkirkjuklerkurinn að norðan, hið óskrifaða blað í valdaspili samtíðarinnar, í þeirri djörfu ákvörðun að láta það verða sitt fyrsta verk á biskupsstóli að rífa niður kirkju sjálfs Gissurar Ísleifssonar, sem verið hafði göfgastur maður Íslands, bæði lærðra og ólærðra og reisa í staðinn nýja og miklu stærri kirkju á grunni hennar. Hvers vegna gekk hann svona skjótt til verks? Fólst ekki í því meiri háttar ögrun við Haukdæli? Kirkjan var þó ekki eldri en 71 árs og hafði verið endurbætt af forvera hans á biskupsstólnum. Skyldi hann hafa haft fyrir því að skoða ástand hennar, áður en hann hélt í vígsluför sína? Við skulum hafa það fyrir satt að þau Yngvildur verði sammála um að leyna því fyrst um sinn, að hún sé þunguð og að biskupsefnið Klængur Þorsteinsson sé barnsfaðirinn. Klængur kveður Yngvildi síðsumars og lætur í haf á fund Áskels erkibiskups í Lundi. Þetta verður í síðasta sinn, sem biskupsefni af Íslandi vígist þar til biskups. Framundan er ný skipan mála með stofnun erkibiskupsdæmis í Noregi.

(Frh. í næstu Lesbók.)

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður og vinnur að undirbúningi kvikmyndaþríleiks í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitökunnar um næstu aldamót.

Helstu heimildir:

Hörður Ágústsson (1990): Skálholt, Kirkjur

Björn Þórðarson (1949-53): Móðir Jóru biskupsdóttur

Jóns saga helga (Yngri gerð frá 14. öld), útg. Guðni Jónsson

Sveinbjörn Rafnsson (1989): Um Þorlák biskup Þórhallsson

Sverrir Tómasson (1992): Íslensk bókmenntasaga 1

Brenda Bolton(1983): The Medieval Reformation

John Roberts (198?): Sjónvarpsþættirnir Triumpf of the West

Hungurvaka

Sturlunga 1 (Útg. 1946)

Gryt Anne Pibenga (1993): Hallr andaðiz í Trekt

Magnús Stefánsson (1975): Saga Íslands 2

Grunnmynd miðaldadómkirkjunnar í Skálholti í samanburði við kirkjuna sem þar er nú. Kirkjur með jafnstórum grunnfleti og Klængskirkja, að viðbættum stöplinum, stóðu í Skálholti frá dögum Klængs og fram yfir miðja 17. oöld, eða í rúmar 5 aldir. Þetta voru Klængskirkja (1153-1309), Árnakirkja (1310-1527), Ögmundarkirkja (1527-1567), og Gíslakirkja (1567-1650/1673).

Útlits- og grunnmynd eru samkvæmt niðurstöðum Harðar Ágústssonar í riti hans Skálholt, Kirkjur. Teikning: Morgunblaðið/Guðmundur Ó. Ingvarsson.

STEINSMIÐIR og múrarar að verki við smíði stórrar dómkirkju á miðöldum. Bygging miðaldadómkirkju Klængs Þorsteinssonar í Skálholti um miðja 12. öld endurspeglar þá tíma þegar hvarvetna er verið að reisa kirkjur í hinum kristna heimi miðalda. Munurinn var þó sá, að í Evrópu voru kirkjurnar byggðar úr steini, en úr timbri á Íslandi.

KONUNGUR og arkitekt hans fylgjast með kirkju í byggingu á miðöldum. Arkitektinn er með hornamál og sirkil. Því hefur verið haldið fram að byggingu stærstu dómkirknanna í Evrópu á miðöldum verði einungis jafnað til geimferða nútímans.

TURN í smíðum á miðöldum. Með háreistum byggingum sýna menn vald sitt. Kirkjuhöfðingjar reistu kirkjuturna en veraldlegir höfðingjar aðra turna og eru dæmi um 75 turna í einum smábæ á Ítalíu.

INNSÝN í dómkirkjuna í Skálholti. Teikninguna hefur Þorgeir Jónsson arkitekt unnið fyrir Hörð Ágústsson sem mest hefur rannsakað kirkjubyggingar fyrri alda. Þó að Skálholtsdómkirkja hafi staðið í 5 aldir hefur ekki svo mikið sem ein rissmynd varðveizt með söguþjóðinni af þessu stórbrotna mannvirki.