22. apríl 1995 | Innlendar fréttir | 469 orð

Halldór Kristinsson hættir gullsmíði eftir 45 ára starf

Hef alla tíð haft unun af starfinu

"MÉR hefur líkað afskaplega vel að vera gullsmiður. Starfið er gefandi og möguleikarnir til að skapa ný form og mynstur svo margir," segir Halldór Kristinsson gullsmiður á Hallveigarstíg 10a. Hann hyggst setjast í helgan stein eftir liðlega 45 ára starf við gullsmíði um mánaðamótin. Halldór er fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann fluttist til Reykjavíkur 19 ára gamall.
Halldór Kristinsson hættir gullsmíði eftir 45 ára starf Hef alla tíð haft unun af starfinu

"MÉR hefur líkað afskaplega vel að vera gullsmiður. Starfið er gefandi og möguleikarnir til að skapa ný form og mynstur svo margir," segir Halldór Kristinsson gullsmiður á Hallveigarstíg 10a. Hann hyggst setjast í helgan stein eftir liðlega 45 ára starf við gullsmíði um mánaðamótin.

Halldór er fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann fluttist til Reykjavíkur 19 ára gamall. "Ég valdi gullsmíði því ég taldi mig listfengan. Ég hafði góða rithönd og þótti svolítið laghentur þegar ég var ungur," segir hann og tekur fram að hann hafi verið svo heppinn að geta hafið nám um leið og hann kom suður 23. mars 1950. Eftir fjögurra ára skyldunám í gullsmíði lá leiðin í framhaldsnám til Danmerkur og þar á eftir stundaði Halldór nám til meistarréttinda í Reykjavík.

Viðskiptavinir gefi sér meiri tíma

Fljótlega tók við sjálfstæður rekstur og í 14 ár hefur Halldór rekið gullsmíðaverkstæði á Hallveigarstíg 10a. Hann segist alla tíð hafa haft unun af starfinu og á bágt með að gera upp á milli skemmtilegra verka. "Möguleikarnir eru ómælanlegir og skemmtilegast er auðvitað þegar manni gefst tækifæri til að ráða alveg ferðinni um hvernig hluturinn verður. Ég get nefnt að ég hef smíðað fyrir utanríkisráðuneytið til að gefa til annarra landa. Síðan hef ég smíðað á altarisklæði í Dómkirkjunni. Mér finnst afskaplega gaman að fást við slíkt. Af öðru má nefna að mér finnst gaman að breyta til og reyna að koma með nýja línu eins og sagt er á slæmu máli. Ég má heldur ekki gleyma að ég hef haft mjög gaman af því að fást við leturgröft," segir hann.

Halldór hefur sjálfur afgreitt í búðinni. Hann segist hins vegar alls ekki vera nógu góður sölumaður. "Ég er ekki nógu framfærinn," segir hann og tekur fram að engu að síður finnist honum gaman að sýna verk sín. "En oft á tíðum er fólk í tímahraki þegar verið er að kaupa gjafir og tekur fljótar ákvarðanir. Mér finnst að fólk ætti að gefa sér meiri tíma og láta gullsmiðinn ráðleggja sér. Sérílagi ef á að sérsmíða eitthvað. Viðskiptavinurinn getur komið með hugmyndir og gullsmiðurinn færir þær út í samræmi við óskir þeirra. Ég geri venjulega nokkrar skissur og viðskiptavinurinn getur valið úr."

Ekki lengur vinnufær

Halldór fékk hjartaáfall fyrir tæpum þremur árum. "Síðan fékk ég annað hjartaáfall inn á gjörgæslunni. Aðeins vegna kunnáttu okkar fínu og góðu lækna var hægt að bjarga lífi mínu. Þó ég hafi ekki verið vinnufær á eftir er ég mjög ánægður með að vera hérna megin ennþá," segir Halldór. Hann ætlar að ljúka ferli sínum sem gullsmiður með því að selja allan lager gullsmíðaverslunarinnar á afsláttarverði í næstu viku. Á sama tíma sýnir hann myndir eftir sig í búðinni.Morgunblaðið/Þorkell HALLDÓR Kristinsson á verkstæði sínu á Hallveigarstíg 10a.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.