FRANK ZAPPA Frank Zappa er minnst víða um heim um þessar mundir, en fyrir skemmstu hófst skipuleg endurútgáfa á tónlist hans; útgáfa sem hann hafði unnið að síðustu æviárin.

FRANK ZAPPA Frank Zappa er minnst víða um heim um þessar mundir, en fyrir skemmstu hófst skipuleg endurútgáfa á tónlist hans; útgáfa sem hann hafði unnið að síðustu æviárin. Árni Matthíasson fjallar hér um tónlist Zappas og helstu plötur og ræddi við Sverri Tynes, formann Zappavinafélagsins.

rank Zappa var einn sérkennilegasti rokktónlistarmaður Bandaríkjanna og um leið einn sá fjölhæfasti og afkastamesti. Hann sagði í viðtali við Playboy að hann hefði aldrei ætlað að verða rokktónlistarmaður; hann hefði byrjað að semja sígilda tónlist, en einhvern veginn fór svo að hann stofnaði rokksveitina alræmdu Mothers of Invention, og ruddi nýrri tónlistarstefnu braut þar sem öllu ægði saman; rokki, mínimalisma, frjálsum jass, rytmablús, nútímaklassík og rafeindahljóðum. Alls sendi hann frá sér 61 breiðskífu, kvikmyndir og ýmis tilraunaverk, tók þátt í þjóðfélagsumræðu í Bandaríkjunum, bauð sig fram til forseta og barðist af hörku gegn ritskoðun og þeim sem vilja segja listamönnum hvað þeir eiga að skapa. Fyrir vikið varð Frank Zappa eins konar samnefnari uppreisnartónlistar í Bandaríkjunum og sérkennilegt skegg hans var einskonar vörumerki "frík"-tónlistarinnar. Eftir lát hans 1993 hefur honum verið sýndur margvíslegur sómi, ekki síst að tékkneskir vísindamenn nefndu mikinn loftstein Zappafrank honum til heiðurs.

Engin tónlist í fjölskyldunni

Frank Zappa var sonur sikileysks vísindamanns sem starfaði fyrir herinn, en Zappa lýsti því meðal annars eitt sinn hvernig allir í fjölskyldunni áttu sínar gasgrímur, því í næsta húsi voru miklar birgðir af sinnepsgasi. Að sögn Zappa hafði enginn í fjölskyldunni áhuga á tónlist nema hann, en hann kenndi sér sjálfur á hljóðfæri á ungum aldri og var snemma farinn að spila í hljómsveitum í heimabæ sínum, þá helst rytmablús og dúvopp. Vendipunkturinn í tónlistarþróun hans var þegar hann las um tónskáldið Edgar Varése og kenningar þess um tónlist. Hann fór á stúfana að leita að plötu eftir Varése og fann seint og um síðir. Eftir það varð Varése að einskonar leiðarstjörnu Zappa sem henti á lofti fleyga setningu Varéses: Nútímatónskáldið neitar að leggja upp laupana.

Frank Zappa var mikill vinnuþjarkur, vann yfirleitt að tónlist sextán til átján tíma á sólarhring, þar til síðustu árin að hann neyddist til að draga verulega úr vinnu sárþjáður af krabba. Hann var alla tíð ósáttur við þau fyrirtæki sem gáfu út plötur hans fyrstu árin, en á endanum komst hann yfir allar frumupptökur sínar. Síðustu árunum eyddi hann svo að nokkru í að vinna þær upp fyrir útgáfu á geisladiskum. Sú útgáfa hófst fyrir skemmstu, og fyrstu 47 titlarnir komu út, sem gefur gott færi á að endurmeta Frank Zappa og velta fyrir sér hlut hans í rokksögunni.

Ljóta fólkið

Þegar Zappa og félagar hans í Mothers of Invention fluttust til San Francisco var hippatíminn í hámarki og borgin full af blómum skrýddum hippum, eða "fallega fólkinu" eins og þeir kölluðu sig gjarnan sjálfir. Andrúmsloftið var fullt upp með ást og bjartsýni á betri heim og allan vanda mátti leysa með maríjúanarettu eða hasspípu. Zappa var þegar á skjön við þessa hreyfingu, því honum þótti hipparnir sem kalkaðar grafir og hippisminn tilbúin tískuhreyfing. Hann safnaði um sig hóp fólks sem kallaði sig "ljóta fólkið", til mótvægis við hippana, og gerði að skilyrði að enginn í hljómsveitinni neytti vímuefna. Fyrsta platan, Freak Out, fyrsta tvöfalda plata rokksins, kom svo út 1967 og þykir tímamótaverk; hápunktur í sýrutónlist þess tíma um leið og hún dró sýrutónlist, sveitarokk og dúvopp sundur og saman í háði. Á seinni plötuhliðinni smalaði Zappa saman hóp furðufugla af Sunset Boulevard, hverjum með sitt slagverkshljóðfæri, og svo gerði hver það sem honum sýndist. Önnur platan, Absolutely Free, var ekki síður einkennileg, en nú brast á með jassfrösum og óperusöng. Þriðja platan var svo We're Only in It for the Money, eins konar súrrealískur uppskurður á rokkheiminum, þar sem hver hljómsveitin af annarri fær fyrir ferðina, ekki síst hippasveitir og sýrurokkarar, og meðal annars er umslag plötunnar háðsádeila á Sgt. Pepper Bítlanna, þar sem Zappa og félagar stilla sér upp með ýmsum myndum af bófum og illþýði í bland við frægt fólk og dýrlinga, og vaða rotnandi grænmeti og ávexti.

Á Freak Out hóf Zappa að hamast að yfirvöldum og hélt því meira og minna upp frá því. Frá upphafi var textagerð hans einnig mörkuð sérkennilegri blautlegri kímni, sem fór fyrir brjóstið á mörgum sem annars kunnu vel að meta pólitískt inntak og með árunum varð sú gagnrýni háværari, ekki síst eftir að málfarssiðvæðing komst í algleymi vestan hafs, en segja má að hann hafi gert smekkleysi í tónlist og textum að listgrein.

Öllu ægði saman

Framan af ægði öllu saman á plötum og tónleikum Zappa, en með tímanum má segja að tónlistin hafi greinst og á endanum gaf hann ýmist út rokk- eða poppplötur eða þá plötur einungis með þyngri tónlist. Þannig var fyrsta sólóskífa hans, Lumpy Gravy, sérkennilegt hljómsveitarverk fyrir fimmtíu manna hljómsveit, en þar á mátti heyra ýmis stef og hugmyndir sem áttu eftir að ganga aftur í öðrum verkum, þar á meðal hreinum rokk- eða poppplötum. Afköst Zappa voru líka gríðarleg, til að mynda gaf hann út fjórar breiðskífur 1970 og þrjár 1972, og fyrir vikið virðast sumar plöturnar þunnar við fyrstu hlustun, virðast helst gefnar út til að gleðja áheyrendur sem kjósa helst lög um brennivín og kynlíf. Samtímis því sem hann komst á flug í rokkinu á áttunda áratugnum og fram á þann níunda, samdi hann þó mörg af sínum merkustu verkum eftir því sem hann sneri sér æ meira að sígildri tónlist og þannig er lokaplatan, Guli hákarlinn, sem er ýmis hljómsveitarverk í flutningi Nútímahljómsveitar Frankfurt, fjölþætt meistaraverk. Zappa lýsti og ánægju sinni með verkið, en sagði einnig að spilamennskan væri ekki 100%, enda var það mál tónlistarmanna sem hann vann með að annarri eins fullkomnunaráráttu hefðu þeir ekki kynnst og mörg tónverka hans verða trauðla spiluð af mönnum.

Lítill leiðarvísir

Eðlilega er erfitt fyrir ókunnan að velja úr ríflega 60 plötu safni Frank Zappa og vegna fjölbreytninnar er eins víst að sá sem kann að meta Overnight Sensation finnist Chungas Revenge, þar sem meðal annars má finna perluna Forleikur að síðkvöldi yxna gasgrímu, hrein steypa. Hver hefur og sína skoðun á Zappa og algengt að tónlistaráhugamenn kunni að meta ákveðin tímabil í tónlistarsögu Zappa en ekki önnur. Flestir eru þó sammála um að skyldueign sé fyrsta platan Freak Out, sem kom út 1966, þá We're Only in it For the Money sem áður er getið, fjölþætt meistaraverk og kom út 1967, Uncle Meat, sem kom út 1969 og á er tónlist úr samnefndri kvikmynd, Hot Rats, sem er nánast einungis leikin tónlist og Zappa fer á kostum á gítarinn, kom út 1970, Grand Wazoo, þar sem Zappa leikur sína tegund af jass með stórsveit, kom út 1972, Overnite Sensation, sem er fyrsta platan í fönkrokkpoppröð, kom út 1973, Joe's Garage, Act I og Act II & III sem komu út 1980, Shut up 'n Play Your Guitar, þriggja platna safn gítareinleiks sem sannaði í eitt skipti fyrir öll að Zappa var með fremstu gítarleikurum rokksögunnar, kom út 1981, Jazz from Hell, sem kom út 1986 og Zappa leikur sjálfur að mestu á Synclavier-tölvu, en fyrir hana fékk hann jass Grammy verðlaun, sex binda tónleikaútgáfuna You Can't do that on Stage Any More sem kom út 1988 til 1991, The Perfect Stranger, þar sem Pierre Boulez stýrir hljómsveitarverkum Zappa, og loks ber að nefna Yellow Shark, sem áður er getið og kom út 1993. Þegar menn hafa svo kynnt sér ofangreindar plötur, sem gefa prýðilega mynd af tónlistarmanninum Frank Zappa, er eins víst að fleiri rati í safnið, enda má segja að á öllum plötunum megi finna gullmola, þó stundum þurfi að grafa djúpt.