7. maí 1995 | Sunnudagsblað | 728 orð

Friði fagnað Á morgun, 8. maí, eru liðin 50 ár frá því lok heimsstyrjaldarinnar

Friði fagnað Á morgun, 8. maí, eru liðin 50 ár frá því lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru tilkynnt. Hildur Friðriksdóttir gluggaði í Morgunblaðið frá þessum tíma og fékk fjóra aðila til að rifja upp tilfinningar sínar á þessum tíma.

Friði fagnað Á morgun, 8. maí, eru liðin 50 ár frá því lok heimsstyrjaldarinnar síðari voru tilkynnt. Hildur Friðriksdóttir gluggaði í Morgunblaðið frá þessum tíma og fékk fjóra aðila til að rifja upp tilfinningar sínar á þessum tíma.

RIÐUR í Evrópu tilkynntur í dag", segir í fimm dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu þriðjudaginn 8. maí 1945, en dagana á undan hafði forsíða blaðsins verið undirlögð af fréttum frá uppgjöf þýska hersins á Ítalíu, í Norður-Þýskalandi, Danmörku og Hollandi.

Fréttin sjálf hefst á þessum orðum: "Í dag kl. 1 eftir hádegi verða styrjaldarlok í Evrópu tilkynt samtímis í London, Washington og Moskva. Verður dagurinn í dag því hinn svonefndi sigurdagur í Evrópu. Dagurinn verður almennur hátíðisdagur í Bretlandi og einnig miðvikudagurinn kemur. Churchill mun flytja erindi sitt um stríðslokin í neðri málstofu breska þingsins, en eftir þetta munu ráðherrar ganga til kirkju. Klukkan 7 um kvöldið flytur Georg 6. Bretakonungur erindi til allra þegna sinna. ­ Mikið mun hvarvetna verða um dýrðir í löndum bandamanna í dag. Vitað er að samningar um skilyrðislausa uppgjöf voru undirritaðir í bækistöðvum Eisenhowers í fyrrinótt. Í dag lýkur því styrjöld, sem staðið hefir í Evrópu í hátt á sjötta ár."

Síðdegis þennan sama dag gaf Morgunblaðið út aukablað. Á forsíðu var birt ávarp Churchills forsætisráðherra Breta, sem hann flutti þjóð sinni á eftirminnilegan hátt í útvarpi. Enn geta menn heyrt rödd Churchills hljóma fyrir eyrum sér þegar hann mælti á enska tungu: "Í gærmorgun undirritaði Jodl hershöfðingi, fulltrúi þýsku herstjórnarinnar og Dönitz stóraðmíráls, í aðalstöðvum Eisenhowers hershöfðingja, skilyrðislausa uppgjöf alls herafla Þjóðverja í Evrópu, á landi, sjó og í lofti."

Ræður æðstu manna þjóðarinnar

Á forsíðu blaðsins voru ennfremur birt ávörp Sveins Björnssonar forseta Íslands og Ólafs Thors forsætisráðherra, sem þeir fluttu af svölum Aþingishússins. Í lokaorðum sínum sagði Sveinn Björnsson: "Er við nú vottum frændþjóðum og vinaþjóðum okkar, öllum sameinuðu þjóðunum, innilegustu samfagnaðaróskir okkar þá koma þær frá dýpstu hjartarótum okkar allra. Þær fela um leið í sjer þakkarhug fyrir það, sem þær hafa strítt og þjáðst í baráttunni fyrir þeim hugsjónum, sem við Íslendingar teljum okkur eiga sameiginlega með þeim. En samnefnari þeirra hugsjóna er það, sem mest er í heimi: kærleikurinn.

Því fögnum við öll sigrinum og friðnum."

Ólafur Thors forsætisráðherra rakti lítillega ógnir stríðsins og þá gleði sem fylgdi því að þessari ógn væri aflétt.

Síðar í ræðu sinni minntist hann á að Íslendingar hefðu af frjálsum vilja beðið um hervernd Bandaríkjanna og ræddi um þær ráðstafanir sem fylgt hefðu í kjölfarið eins og nauðsyn þess að slökka á vitum, loka höfnum, banna umferð, takmarka afnot síma og loftskeyta. Jafnframt þakkaði hann ánægjulega sambúð við setuliðið og þeim sem fært hefðu fórnir. Hann sagði Íslendinga minnast þeirra sem féllu í stríðinu og vottaði ástvinum dýpstu samúð.

Erindi sínu lauk hann með þessum orðum: "Vjer eigum enga ósk heitari en þá, að þeir, sem unnu styrjöldina, beri einnig gæfu til að vinna friðinn. Rætist þær vonir, verður fögnuðurinn fullkominn, því þá mun úr rústum rísa nýr heimur samstarfs, friðar, frelsis, rjettlætis og mannhelgi, mannkyninu öllu til langvarandi blessunar og hamingju."

Að ræðu hans lokinni gengu sendiherrar stórveldanna og Norðurlanda fram á svalir Alþingishússins og voru þeir hylltir af mannfjöldanum sem saman kominn var á Austurvelli.

Óspektir í Reykjavík

Hér á landi virðist fögnuðurinn hafa brotist út á annan hátt en gerðist erlendis, því í Morgunblaðinu 10. maí segir að þegar líða hafi tekið á kvöld sigurdagsins hafi farið að "bera á ölvun og uppsteit í bænum og urðu af þessu mestu ólæti og ryskingar, sem hafa þekkst hjer í Reykjavík. Varð lögreglan að beita táragasi, og einnig í gærkvöldi, því þá kom líka til uppþota og ollu þeim mest breskir sjóliðar, eins og fyrra kvöldið, en þá voru brotnar rúður í húsum hjer í bænum fyrir á annað hundrað þúsund krónur, að því er talið er."

Fyrr um daginn hafði þó ríkt friður yfir bænum, fánar voru dregnir að húni í sólskini og blíðu. "En það var einnig sólskin í svip þeirra, sem maður hitti á götunni, allir virtust vera þátttakendur í þeim almenna fögnuði, sem hinn langþráði friður hefir vakið," segir einnig í Morgunblaðinu 10. maí.

Ljósm./Virkið í norðri II.

MANNFJÖLDI hlýðir á dagskrá friðardagsins á Austurvelli 8. maí 1945.

HÓPGANGA Norræna félagsins kemur að sendiráði Norðmanna.

SKEMMDIR kannaðar eftir óeirðirnar.

Ljósm.safn Rvk./Tryggvi

FÓLK þyrptist upp á Arnarhól.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.