Frans van Hooff - viðb

Með þessum fáu orðum langar mig að kveðja kæran vin og félaga, séra Frans van Hooff, klausturprest Karmelsystra í klaustrinu í Hafnarfirði. Það var einmitt í Karmelklaustrinu sem ég kynntist séra Frans. Ég hafði verið nokkuð tíður gestur þar og eftir morgunmessu bauð séra Frans messugestum ætíð í morgunkaffi.

Séra Frans hafði sérstakt dálæti á börnum. Þau löðuðust að honum og hjálpuðu við að líma biblíumyndir á spjöld. Hann fór gjarnan með þau að Guðslíkamahúsinu í kapellu klaustursins til að heilsa upp á Jesú sem þar býr í heilögu altarissakramenti, ásamt því að kenna þeim bænir. Séra Frans var slyngur töframaður og það kunnu börnin vel að meta.

Þá vil ég nefna þátt í lífi séra Frans, sem margir kannast við, en það voru hjálparsendingar hans til bágstaddra í öðrum löndum. Fyrsta sendingin fór til Póllands og var ekki stór í sniðum. En umsvifin jukust gífurlega og var hann farinn að senda 40 feta gáma til þurfandi í Afríku og Rússlandi.

Séra Frans var fyrst og fremst einlægur trúmaður og tryggur þjónn kirkju sinnar. Þungamiðja lífs hans var heilög messa og altarissakramentið, þar sem kærleikur Krists verður mönnum nálægur á einstakan hátt. Þannig hafði séra Frans í rúm fimmtíu ár borið Kristi vitni með lífi sínu og þjónustu.

Ég vil þakka séra Frans allan þann kærleik og þá vináttu sem hann sýndi mér. Og Guði þakka ég fyrir að hafa kynnst slíkum manni. Karmelsystrum í Hafnarfirði, prestunum, svo og ættingjum Frans sendi ég samúðarkveðjur.

Megi séra Frans hvíla í friði.

Jón Ágústsson.