MEÐFERÐ nýfæddra barna, jafnt veikra sem heilbrigðra, var áður fyrr í höndum ljósmæðra og yfirsetukvenna. Eftir að fæðingardeild Landspítalans tók til starfa árið 1930 önnuðust fæðingarlæknar jafnframt meðferð þessara barna. Nýburalækningar eru nú sérstök grein innan barnalækninga þó saga þessarar sérgreinar sé aðeins rúmlega 30 ára gömul.
Nýburalækningar

Fortíð ­ Nútíð ­ Framtíð

Nýburalækningar

hafa tekið örum framförum síðustu þrjá áratugina. Gunnar Biering segir byggingu nýs barnaspítala á Landspítalalóð forsendu þess að þessi sérgrein nái að þróast með eðlilegu móti hér á landi.

MEÐFERÐ nýfæddra barna, jafnt veikra sem heilbrigðra, var áður fyrr í höndum ljósmæðra og yfirsetukvenna. Eftir að fæðingardeild Landspítalans tók til starfa árið 1930 önnuðust fæðingarlæknar jafnframt meðferð þessara barna.

Nýburalækningar eru nú sérstök grein innan barnalækninga þó saga þessarar sérgreinar sé aðeins rúmlega 30 ára gömul.

Barnalæknir var fyrst ráðinn að fæðingardeild Landspítalans og Fæðingarheimili Reykjavíkur árið 1961 og frá þeim tíma hefur meðferð veikra nýbura verið alfarið í höndum barnalækna hér á höfuðborgarsvæðinu. Hefur þar verið fylgt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í hinum vestræna heimi á sama árabili.

Meðferð veikra nýbura á fæðingardeildinni og Fæðingarheimilinu var hins vegar ýmsum takmörkunum háð bæði hvað snertir húsnæði, tækjabúnað og mannafla. Verulegur skriður í framfaraátt kom ekki fyrr en vökudeild Barnaspítala Hringsins tók til starfa árið 1976.

Síðan hafa orðið hraðar og markvissar framfarir í nýburameðferð hér á landi og hafa þær fylgt í einu og öllu þeirri þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar bæði til austurs og vesturs. Vökudeildin (gjörgæsludeild nýbura) er staðsett á kvennadeild Landspítalans í nánum tengslum við fæðingarstofur og skurðstofur þeirrar stofnunar og er sú staðsetning svo sem best verður á kosið. Deildin var upphaflega hönnuð fyrir 14 börn í mjög þröngu húsnæði sem hefur þó verið stækkað nokkuð í áranna rás. Reynslan hefur hins vegar sýnt að þörf er fyrir 24 rúm hér á landi fyrir veika nýbura.

Aðstaða til meðferðar á veikum nýburum er til staðar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Vökudeildin verður eftir sem áður eina sérhannaða gjörgæsludeildin fyrir nýbura á Íslandi um ókomin ár. Það er því mikilvægt að vel sé að henni búið. Góðar nýburalækningar krefjast mikils og flókins tækjabúnaðar sem verður stöðugt umfangsmeiri með hverju árinu sem líður. Vökudeildin hefur átt því láni að fagna að vera vel tækjum búin. Hefur hún í þeim efnum notið ríkulegs stuðnings Kvenfélagsins Hringsins hér í borg og verður sú aðstoð aldrei fullþökkuð. Hringskonur hafa reyndar verið svo stórtækar í tækjagjöfum sínum að 70 af hundraði alls tækjabúnaðar á deildinni er frá þeim kominn. Síðasta gjöf Hringskvenna er afar fullkomin öndunarvél að andvirði 2,7 milljónir króna og var hún afhent vökudeildinni nú í maímánuði svo sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Margir aðilar aðrir hafa einnig lagt deildinni lið á undanförnum árum og eiga miklar þakkir skildar fyrir það.

En í hverju er gjörgæsla og önnur meðferð veikra nýbura fólgin og hverskonar sjúklinga er verið að fást við? Þar má fyrsta telja fyrirbura. Fjölmörg og flókin vandamál fylgja meðferð þessara barna sem krefjast mikillar þekkingar og reynslu af öllum þeim aðilum sem að meðferðinni koma. Fjölburar, þ.e. tvíburar, þríburar o.s.frv. fæðast oft fyrir tímann og innlögnum vegna fjölburafæðinga hefur fjölgað verulega á vökudeild í kjölfar glasafrjóvgana. Af öðrum sjúklingum á vökudeild má nefna börn með mismunandi sýkingar svo sem lungnabólgur, þvagsýkingar, blóðsýkingar og heilahimnubólgur. Þá liggja á deildinni börn með líkamslýti og meðfædda sjúkdóma, börn sem þurfa á skurðaðgerðum að halda, blóðskiptum o.s.frv. Á vökudeildinni eru þannig stundaðar mjög fjölbreyttar lækningar þó sjúklingarnir séu ekki háir í lofti.

Sú meðferð sem lýst er hér að ofan hefur skilað góðum árangri, einkum síðustu tvo áratugina. Það getur verið erfitt að meta slíkan árangur í beinhörðum tölum en nærtækast er að líta á burðarmálsdauðann, þ.e. nýburadauðann. Árið 1968 létust 24 nýfædd börn af hverjum 1.000 fæddum börnum á Íslandi. Árið 1975 voru dánartölurnar 16 börn af 1.000 fæddum en síðustu árin hafa látist að meðaltali 4-5 börn af hverjum 1.000 fæddum og eru þær tölur með þeim lægstu, sem um getur. Það er jafnframt mikilvægt að geta þess að framfarir og framþróun í meðgöngu- og fæðingarhjálp eiga veigamikinn þátt í þeim árangri, sem náðst hefur hér á landi. Rhesusvarnir sem hófust árið 1970 eru annað dæmi um góðan árangur af bættri meðferð í þágu þungaðra kvenna og barna þeirra. Þessi meðferð kemur í veg fyrir mikil vandamál sem geta skapast þegar um er að ræða blóðflokkamisræmi milli móður og barns. Fyrir daga rhesusvarna var algengt að gera þyrfti blóðskipti hjá a.m.k. 30 börnum á ári hér á landi. Í dag telst til tíðinda ef þau börn eru fleiri en 1-2 á ári.

Vökudeild Barnaspítala Hringsins býr við mjög þröngan kost í dag og háir það starfsemi deildarinnar verulega. Hinsvegar er gert ráð fyrir rúmgóðri deild fyrir 22 börn í nýjum barnaspítala, sem verður reistur á Landspítalalóð í náinni framtíð og er það nú þegar orðið tilhlökkunarefni.

Höfundur er yfirlæknir við vökudeild Barnaspítala Hringsins.

KVENFÉLAGIÐ Hringurinn færði vökudeild Barnaspítala Hringsins öndunarvél að gjöf þann 23. maí sl. Andvirði gjafarinnar var 2,7 milljónir króna.