MIKIÐ tjón varð í Sölvadal inn af Eyjafirði þegar stór aurskriða féll úr Hólafjalli í námunda við bæinn Þormóðsstaði síðdegis á fimmtudag. Hún hreif með sér rafstöð ofan bæjarins og olli miklum skemmdum á túnum. Tvíbýli er að Þormóðsstöðum og voru tveir heima á öðrum bænum, bóndinn og sonur hans.
Ekki vitað að stærri

skriður hafi fallið Akureyri. Morgunblaðið.

MIKIÐ tjón varð í Sölvadal inn af Eyjafirði þegar stór aurskriða féll úr Hólafjalli í námunda við bæinn Þormóðsstaði síðdegis á fimmtudag. Hún hreif með sér rafstöð ofan bæjarins og olli miklum skemmdum á túnum. Tvíbýli er að Þormóðsstöðum og voru tveir heima á öðrum bænum, bóndinn og sonur hans. Skriðan sem er um kílómetri að lengd og hálfur kílómetri að breidd var mjög kraftmikil, en hún þeyttist yfir Núpsá, fyllti upp í gil árinnar og yfir á bakkann handan hennar.Upptök skriðunnar eru í Hólum, fjallinu ofan Þormóðsstaða, en þar lá gamli vegurinn upp á Hólafjall sem farinn var á Sprengisand áður fyrr. Hluti af 10-20 metra háum hólum í fjallinu virðast hafa sprungið fram og oltið niður á láglendið, að sögn Halldórs G. Péturssonar, jarðfræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands, en hann var ásamt Þorsteini Sæmundssyni, jarðfræðingi á snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands, á þessum slóðum þegar skriðan féll. Þeir voru að skoða ummerki eftir skriður sem féllu í miklum flóðum fyrir um þremur viku.

Jörðin mettuð af vatni eftir leysingar

Skriðan er um kílómetri að lengd og um 500 metra breið og féll hún skammt frá bænum Þormóðsstöðum, um 50-150 metra frá húsinu.

Halldór sagði að skýring á þessum miklu skriðuföllum væri fyrst og fremst sú að óhemjumikið af snjó hefði kyngt niður í vetur, snjóalög hefðu verið óvenjuleg, þannig hefði hlaðið mikinn snjó á brún fjallsins og myndast stórar hengjur og jörð hafi verið þíð þegar fór að snjóa í haust. Eftir leysingar undanfarinna vikna væri jörðin mettuð af vatni og taldi Halldór að geysimikið vatn hafi verið í hólunum í fjallinu. Í hlýindunum í vikunni þegar hitinn fór yfir 20 stig hafi jörðin einfaldlega ekki tekið við meira vatnsmagni með þeim afleiðingum að skriðan féll.

Hann sagði að enn væru stórir skaflar á fjallsbrúninni, 5-10 metra háir þannig að ljóst væri að mikið ætti eftir að taka enn upp af snjó. Hættuástandi var lýst yfir á svæðinu og Sölvadal lokað fyrir allri umferð frá því á fimmtudagskvöld.

Óhemju stór skriða

"Ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta er stærsta skriða sem fallið hefur hér svo vitað sé, ég hef ekki fundið heimildir um stærri skriður í annálum. Þessi er til dæmis miklu stærri en gamla Draflastaðaskriðan sem féll 1949 og þótti óhemju stór," sagði Halldór en skriðan væri einnig ólík öðrum að því leyti að í henni var nánast eingöngu aur. Krafturinn á skriðunni var gífurlegur. Hún féll yfir Núpsána sem rennur eftir djúpu gili og fyllti skriðan það á parti og hélt áfram upp á bakkann hinu megin.

"Ég vona að við þessar hamfarir hafi vatnsþrýstingurinn minnkað í hólunum, enda búinn að rífa hluta þeirra í burtu. Það er ekkert hægt að fullyrða um hvort fleiri skriður eigi eftir að falla, en við vonum að svo verði ekki," sagði Halldór en hann sagði að hætta á skriðuföllum væri víða í afdölum og útnesjum á Norðurlandi. Spáð væri kólnandi veðri um helgina sem drægi úr líkum á að þær féllu. Ekki er að sögn Halldórs fyrirhugað að skoða verksummerki á svæðinu fyrr en í næstu viku þar sem ástandið er enn ótryggt og vildi hann vara fólk við að fera á ferli á þessum slóðum.

Morgunblaðið/Rúnar Þór Morgunblaðið/Rúnar Þór SKRIÐAN er um kílómetri að lengd og um 500 metra breið og féll hún um 50­150 metra frá bænum Þormóðsstöðum.