STARFSMANNASKRIFSTOFA fjármálaráðuneytisins lítur svo á að yfirvinnubann af hálfu flugumferðarstjóra væri ígildi verkfalls og því ólöglegt, að sögn Skúla Jóns Sigurðarsonar, starfandi flugmálastjóra. Þorleifur Björnsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, telur eina ráðið að Félagsdómur skeri úr um lögmæti yfirvinnubanns.
Flugumferðarstjórar hafa boðað til yfirvinnubanns með skilyrði Skiptar skoðanir eru

um lögmæti aðgerðanna

STARFSMANNASKRIFSTOFA fjármálaráðuneytisins lítur svo á að yfirvinnubann af hálfu flugumferðarstjóra væri ígildi verkfalls og því ólöglegt, að sögn Skúla Jóns Sigurðarsonar, starfandi flugmálastjóra. Þorleifur Björnsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, telur eina ráðið að Félagsdómur skeri úr um lögmæti yfirvinnubanns.

Flugumferðarstjórar hafa boðað til tveggja vikna yfirvinnubanns 26. júlí til 8. ágúst ef ekki verður árangur af viðræðum samningsaðila á fundi þann 24. júlí. Ekki verður því endanlega gefin út tilkynning um hvort af yfirvinnubanninu verður fyrr en eftir fundinn.

Skúli Jón sagði að leitað hefði verið eftir áliti starfsmannaskrifstofunnar, enda væri hér um að ræða launadeilu milli flugumferðarstjóra og ráðuneytis. "Niðurstaða starfsmannaskrifstofunnar var að yfirvinnubann, eins og það er boðað, teljist ígildi verkfalls því aðgerðirnar séu liður í kjaradeilu. Um verkföll opinberra starfsmanna, þ.á m. flugumferðarstjóra, gilda lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þar segir hreint og klárt að heimild til verkfalls nái ekki til þeirra starfsmanna ríkisins sem starfi við nauðsynlegustu öryggisgæslu. Þar kemur sömuleiðis fram að allir flugumferðarstjórar séu undanþegnir verkallsheimild. Þannig að niðurstaða og álit flugmálastjórnar er einfaldlega að yfirvinnubannið sé ólöglegt vegna þess að það sé ígildi verkfalls og flugumferðarstjórar hafi ekki verkfallsheimild," sagði Skúli Jón.

Ekki yfirvinnuskylda

Þorleifur sagði að ljóst hefði verið að skiptar skoðanir gætu verið á því hvort yfirvinnubannið yrði talið ígildi verkfalls eða ekki. Eina ráðið til að komast að því væri að Félagsdómur úrskurðaði um lögmæti aðgerðanna. Félagið myndi að sjálfsögðu hlíta niðurstöðu dómsins. Hins vegar yrði eftir sem áður undir hverjum félagsmanni komið hvort hann ynni yfirvinnu eða ekki, enda væri ekki hægt að skikka menn til að vinna yfirvinnu. Aðspurður um rök flugumferðarstjóra fyrir lögmæti yfirvinnubannsins nefndi Þorleifur að fyrir því væru rök og fordæmi að hægt væri að nota yfirvinnubann til að ná fram viðræðum við vinnuveitanda um að minnka yfirvinnu.

Þorleifur sagði að ef af yrði myndi yfirvinnubannið ná til um 100 flugumferðarstjóra, í Vestmennaeyjum, Keflavík, Reykjavík og á Akureyri. Flugumferðarstjórarnir leystu hver annan af í sumarfríum og ef miðað væri við fjögurra mánaða sumarleyfistíma, þyrfti leysa 25% mannafla af með yfirvinnu. "Auðvitað gefur augaleið að ef vissan fjölda þarf til að anna eðlilegri starfsemi og hann er skorinn niður um fjórðung þarf að takmarka umferðarmagn sem einhverju nemur. Samt er ekki víst að beint samhengi verði þarna á milli en einhvers staðar verður skorið niður," sagði Þorleifur. Hann sagði að yfirmenn sæju um að skipuleggja vinnu flugumferðarstjóra á hverjum stað til að draga úr afleiðingum bannsins og væri í þeim tilgangi t.d. hægt að færa starfsmenn á milli deilda.

Ólíklegt að millilandaflug skerðist

Þorleifur sagðist telja að farið yrði eftir forgangslista ef af yfirvinnubanninu yrði. Efst á listanum væri sjúkra- og neyðarflug og fyrst myndi verða skerðing á æfingaflugi. Ekki sagði Þorleifur dæmi um að röskun hefði orðið á millilandaflugi þegar gripið hefði verið til svipaðra aðgerða áður. Hins vegar væri ekki ólíklegt að einhver röskun yrði í innanlandsflugi.

Hann sagðist halda að launapólitík ríkisins réði því að ekki væru ráðnir afleysingarmenn. "Þeir telja of dýrt að vera með það rúman mannskap á veturna að hann geti annað mesta álagtímanum á sumrinn. Vilja frekar leysa málið með því að kaupa út aukavinnu fyrir forföll, veikindi og orlof."